„Við höfum sett okkur markmið að vera með besta reykta laxinn á markaðnum,“ segir  Einar Örn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Hnýfils á Akureyri. Með tilkomu nýrra eigenda og yfirmanns hafi verið mynduð skýr stefna um framtíðina hjá fyrirtækinu.

„Nú erum við til dæmis í samstarfi við Bláa Lónið, þar sem við í sameiningu erum að þróa mögulega besta reykta lax sem gerður hefur verið á Íslandi,“ nefnir Einar sem dæmi.

Hvalveiðar verði leyfðar

Þetta starf segir Einar byggt á gríðarlegri vandvirkni og virðingu fyrir hráefninu.

„Ásamt því að vera svo heppnir að hafa vanan matreiðslumann sem reykmeistara. Fagþekkingin, reynslan og vandvirknin ásamt nýjum reykblöndum er að skila okkur árangri,“ segir hann.

Framkvæmdastjóri Hnýfils segir hval fyrirtækinu mikilvægan. FF Mynd/Garðar
Framkvæmdastjóri Hnýfils segir hval fyrirtækinu mikilvægan. FF Mynd/Garðar

Að sögn Einars skiptir hvalurinn Hnýfil gríðarlegu máli, bæði rengi og hvalkjöt.

„Við höfum átt í samstarfi við Hval hf. frá stofnun 1995 og treystum á það að ríkisstjórnin taki það fyrir sem fyrst að gefa út leyfi til Hvals. Það er ekki hægt að halda fyrirtækjum landsins í heljargreipum með þessum hætti,“ segir Einar.

Nýjar vörur úr sjávarfangi

NORA Seafood ehf. keypti Hnýfil í lok ár 2021 og Einar Örn tók við sem framkvæmdastjóri í janúar 2022. Hnýfill er á Sandgerðisbótinni á Akureyri, nánar tiltekið á Óseyrarbraut 22.

Einar segir vinnsluna vera 500 fermetra og hafa verið byggð sem laxareykhús á sínum tíma. Hnýfill starfar á innanlandsmarkaði í framleiðslu, sölu og pökkun á íslensku sjávarmeti. Einar segir stefnuna vera þá að vera leiðandi í að þróa nýjar vörur úr sjávarfangi fyrir neytendamarkað.

Norðlenskt félag

„Við erum norðlenskt félag í eigu Akureyringa og njótum góðs af því að vera í Eyjafirði. Hér er mikil atvinnuuppbygging og íbúafjöldinn fer vaxandi. Verslunum fjölgar og þar með er meira fyrir okkur að gera. Hér ætlum við að vera og byggja upp sterkt framleiðslufyrirtæki á Akureyri,“ segir Einar.

Þá segir framkvæmdastjórinn Hnýfil vera heildsölu Norðurlands og Austurlands í sjávarfangi. „Við höfum þjónustað þann markað síðan 1995. Við erum að senda daglega í veitingahús, hótel og mötuneyti, afurðir sem við miðlum eða framleiðum sjálf,“ segir hannþ.

Allir að verða meiri sælkerar

Sem fyrr segir kveður Einar Hnýfil hafa mikinn metnað gagnvart reyktum laxi. Stefnt sé að gæðum fremur en magni.

„Reyktur lax getur verið ódýr hversdagsvara, þar sem gæðin eru í samræmi við verðið. Eða einstök sælkeravara þar sem verðið er í samræmi við mikla vandvirkni bak við verkunina. Við viljum vera leiðandi í síðarnefndu hillunni. Við seljum eins og staðan er allar okkar vörur innanlands. Við finnum að gæðavitund samlanda okkar fer vaxandi, það er eins og allir séu að verða meiri sælkerar á Íslandi,“ segir Einar.

Út fyrir landsteinana

Með tíð og tíma ratar framleiðsla Hnýfils ef til vill í verslanir erlendis. „Það er að minnsta ekkert mál að færa umbúðir yfir á erlend tungumál, jafnvel arabísku. Þannig að að hví ekki það?“ svarar Einar spurður um erlenda markaði.

Nú er nýlokið stórri sjávarútvegssýningu í Barcelona og þangað fóru fulltrúar Hnýfils til að skoða vélar. „Það er mikilvægt að koma auga á vélar sem geta létt undir og bætt framleiðsluna,“ segir Einar.