Fiskimálanefnd, sem sett var á stofn af íslenskum stjórnvöldum árið 1934, keypti 20 ára gamla skonnortu,  Arctic að nafni, haustið 1939, og var skipið ætlað til fiskflutninga. Nefndin átti skipið aðeins í fáein ár eða þar til það fórst á sunnanverðu Snæfellsnesi við Melhamar í Miklaholtshreppi í mars 1943. Þá hafði það lent í ýmsum svaðilförum.

Alvarlegustu atburðirnir í sögu skipsins var þegar íslenskir sjómenn lentu á milli steins og sleggju í ólgusjó seinni heimsstyrjaldarinnar.

Þegar Arctic lá í Vigo á Spáni árið 1942 nálguðust útsendarar Þjóðverja áhöfnina og hótuðu þeim að ef þeir stunduðu ekki njósnir fyrir þá, myndu þeir granda skipinu á heimleiðinni. Bretar komust á snoðir um þessa áætlun og eftir að skipið kom til Íslands var áhöfnin tekin höndum. Undir stjórn majór Wise frömdu Bretar stríðsglæpi þegar þeir pyntuðu áhafnarmeðlimina í fangabúðum á Kirkjusandi áður en þeir voru sendir til fangavistar til Englands. Bókin Örlagaskipið Arctic frá hendi G. Jökuls Gíslasonar byggir mest á leyniskjölum Breta sem voru gerð opinber fyrir nokkrum árum, auk fjölmargra annara heimilda. Öll saga Arctic var örlagarík og reyndist flestum harmleikur, þó að þrautseigja og dugur hafi bjargað flestum frá enn grimmari örlögum.  Bókin fylgir lesandanum í gegnum þessa spennuþrungnu sögu og er hér gripið af handahófi niður í tvo kafla bókarinnar.

.
.

Reykjavík, 12. ágúst 1940

Wise höfuðsmanni var ekki skemmt. Eftir komuna til Íslands hafði hann lagt sig allan fram við að greina hverjir gætu verið útsendarar nasista og taldi sig hafa fundið einn aðalhöfuðpaurinn þegar hann varð þess áskynja að Agnar Kofoed-Hansen, sjálfur lögreglustjórinn í Reykjavík, hefði þegið heimboð frá Heinrich Himmler aðeins ári fyrr og það fyrir milligöngu forsætisráðherrans, Hermanns Jónassonar. Fyrir þetta taldi Wise að hvorugum þeirra væri treystandi. Ekki nóg með það heldur var Agnar lögreglustjóri aðeins 25 ára gamall. Hvað gekk eiginlega að þessum molbúum, var enginn eldri og reynslumeiri maður dugandi í svona mikilvægt starf. Eina skýringin sem Wise taldi mögulega var að Agnar væri launsonur Hermanns. En yfirstjórn hernámsliðsins meinaði Wise að grípa til viðeigandi aðgerða.

Arctic á strandstað við Stakkhamar á Mýrum. Mynd/Ljósmyndari óþekktur en mögulega María Ásmundsdóttir.
Arctic á strandstað við Stakkhamar á Mýrum. Mynd/Ljósmyndari óþekktur en mögulega María Ásmundsdóttir.

Herinn hafði útvegað honum húsnæði í bakhúsi á Laugavegi 67a þar sem hann hafði sett upp skrifstofur öryggisdeildar hersins. Reykjavík var ömurlegri en skoskt sjávarpláss. Hér fannst ekkert sem gat heitið menning. Húsin voru flest fátækleg bárujárnshús og göturnar þröngar moldargötur. Jafnvel í Kenía var hægt að finna flottari hús og afþreyingu. Ef fólkið var ekki beinlínis fjandsamlegt þá var það kuldalegt og blaðamennirnir enn verri. Sífellt að ónáða hann með smámunum. Nýlega hafði hann eytt ómældum tíma í stóra kindamálið þegar frönskumælandi kanadískir hermenn skutu kind. Yfirmönnum hans var svo í mun að halda uppi vinsamlegum samskiptum að þetta var forgangsmál. Höfðu þessir frönskumælandi hermenn frá nýlendunum skotið kind og talið hana vera fjallageit. Þeim var svo sem vorkunn, lausaganga sauðfjár var fáránleg í þessu landi. Öfugt við England þar sem húsdýr voru girt inni þá voru þau girt úti á Íslandi. Málið endaði með því að bóndanum höfðu verið boðnar heilar 50 krónur fyrir þessa kind. Þannig var málið leyst en kommasnepillinn Þjóðviljinn hafði eytt í þetta mál umfjöllun í ekki minna en tveimur blöðum og heilli forsíðu. Þjóðviljinn var stöðugt að bera út óhróður um Bretana. Síðan átrúnaðargoð kommúnista, morðinginn hann Stalín, hafði gengið í sæng með Hitler hafði Þjóðviljinn gert Hitler að hetju almúgans og breska heimsveldið að óvini kommúnista.

Frétt á Vísi þegar skipið kom heim.
Frétt á Vísi þegar skipið kom heim.

Yfirmenn hans höfðu sagt að hann væri að fara að vinna mikilvægt starf þegar hann var sendur í þennan útnára. Wise var hingað kominn til að vinna gegn nasistum og illvirkjum þeirra. Yfirboðarar hans höfðu sent hann hingað til að tryggja öryggi hersveitanna og aðstoða við framgang stríðsins á Íslandi en verkefni hans hingað til voru nær öll fyrir neðan hans virðingu. Í Englandi voru nasistar að sprengja London úr lofti en hann fékk að upplýsa kindadráp. Hann gat þó glaðst yfir því að undirmenn hans voru færir og iðjusamir. Þeir höfðu tekið saman lista yfir alla þá á Íslandi sem þyrfti að handtaka á einni nóttu ef til þess kæmi. Stöðugt bættist í þann hóp. Hann hafði einnig fengið ungan íslenskan túlk sér til halds og traust. Eitt af fáum ungmennum þessa lands sem einhver von var á að biði björt framtíð. Ungi maðurinn hét Jón Múli og var afskaplega viðkunnanlegur. Reyndar hafði Wise skemmt sér dálítið fyrir stuttu þegar hann lét Jón Múla ekki aðeins túlka á milli sín og Íslendinga heldur hafði hann líka látið hann túlka á milli sín og hermanna frá Norður-Englandi. Þessir hermenn töluðu svo bjagaða mállýsku að hún gat varla talist enska og hann lét sem hann skildi þá ekki og setti þá á sinn stað með því að láta íslenskan pilt túlka fyrir sig það sem þeir sögðu. Vonandi létu þér sér segjast við það og vönduðu mál sitt betur í framtíðinni.

Fangelsið Kirkjusandi, 18. apríl 1942

Eftir enn eina yfirheyrsluna var Jens alveg örmagna. Hann hafði hvorki neytt svefns né matar í þrjá sólarhringa. Þeir fór fyrst með hann í eitthvert bakhús milli Laugavegs og Hverfisgötu. Þar var fjöldi yfirmanna. Hann var strax færður til yfirheyrslu og þeir voru aðgangsharðir. Hallgrímur hafði neitað því að hafa nokkurn tíma fengið pakka eða bréf í pósti frá Jens. Jens hafði þá orðið að gefa sig og segja sem var að hann hefði látið kærustu sína, Kristínu Valdimarsdóttur, fara með pakkann til Hallgríms. Kristín vann sem þerna á Hótel Íslandi og deildi þar herbergi og gat ekki geymt pakkann. Jens hafði þó vonast eftir því að geta haldið henni utan við þetta mál en nú hafði það brugðist. Annars höfðu spurningarnar allar verið hinar sömu og hann of þreyttur til að muna alveg hvað hann sagði.

Fangelsi setuliðsins við Kirkjusand var vesæll staður. Mynd/Svavar Hjaltested
Fangelsi setuliðsins við Kirkjusand var vesæll staður. Mynd/Svavar Hjaltested

Nú voru þeir komnir í óvistlegar búðir á Kirkjusandi þar sem herinn rak einhverskonar fangelsi. Þegar þangað kom fóru hermennirnir með hann inn í bragga sem var einhvers konar guðshús. Hermennirnir fleygðu Jens fyrir framan altari og sögðu honum að biðja, því hann yrði áreiðanlega brátt skotinn sem njósnari. Einhvern tíma sóttu þeir hann og fóru með hann í lítinn fangaklefa í öðrum bragga. þar innandyra var járnbeddi með þunnri hálmdýnu og þunnu teppi. Verðirnir komu með vatn í blikkkönnu og dósakjöt á blikkdiski. Svo skildu þeir hann eftir einan í klefanum. Jens rétt náði að drekka vatnið áður en hann sofnaði.

Leyniskjal úr safni breskra hernaðaryfirvalda frá 8. maí 1942.
Leyniskjal úr safni breskra hernaðaryfirvalda frá 8. maí 1942.

Þegar hann vaknaði aftur var honum hrollkalt. Vistarverurnar voru ískaldar og fötin sem hann var í voru enn blaut eftir siglinguna. Hann náði athygli varðanna og þeir skipuðu honum í kalt sturtubað en í framhaldinu fékk hann þurran samfesting og ullarundirföt og sokka. Svo var honum aftur skilað inn í klefann.