Hlutdeild íslands í sölu frosinna þorskflaka á Bandaríkjamarkaði hefur minnkað um 10% á þremur árum eða frá því Kínverjar hófu innreið sína á Bandaríkjamarkað með ódýr tvífryst þorskflök. Þetta kemur fram í fréttablaðinu IntraFish 22. mars síðastliðinn.

Í blaðinu segir að innflutningur til Bandaríkjanna á flökum úr þorski úr Atlantshafinu og innflutningur á öðrum þorskflökum hafi numið 33,2 þúsund tonnum árið 1998, 42 þúsund tonnum árið 1999 og 33 þúsund tonnum frá janúar til október 2000.

Árið 1998 fluttu Kínverjar þangað 1.613 tonn af frystum þorskflökum en Íslendingar 15.419 tonn, árið 1999 voru Kínverjar með 4.816 tonn en Íslendingar 17.652 tonn og fyrstu 10 mánuði ársins 2000 fluttu Kínverjar 6.205 tonn út til Bandaríkjanna en Íslendingar 11.739 tonn.

Ekki sérstök barátta milli Kína og Íslands

Þá kemur fram í blaðinu að markaðshlutdeild fslands í þorskflökum haft farið úr 46,5% árið 1998 niður í 42% árið 1999 og í 35,5% fyrstu 10 mánuði ársins 2000. Þar segir einnig að Norðmenn og Kanadamenn hafi fundið fyrir þessari samkeppni frá Kínverjum en hún hafi þó bitnað með hvað mestum þunga á  Íslendingum.

Fiskifréttir 6. apríl 2001.
Fiskifréttir 6. apríl 2001.

„Það er ekki rétt að stilla þessu upp sem sérstakri baráttu á milli Kínverja og Íslendinga um markaðinn. Hér koma fleiri þættir inn í sem geta breytt stöðunni á markaðnum eins og framboð á frystum þorskflökum frá Íslandi. Staða okkar er því traust þátt fyrir þessa samkeppni,“ sagði Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater Seafood Corporation í Bandaríkjunum í samtali við Fiskifréttir er þessar fréttir voru bornar undir hann.

Kínverjar fá mikinn þorsk frá Rússum úr Barentshafi sem er heilfrystur og er siglt með hann til Kína þar sem hann er þíddur og unninn. Síðan er hann fluttur tvífrystur til Bandaríkjanna og seldur á mjög lágu verði.

Magnús sagði að öllum væri hulin ráðgáta hvers vegna Kínverjar gætu boðið svo lágt verð sem er nánast litlu hærra en hráefnisverð á Rússaþorski og þá ætti eftir að taka með í reikninginn flutninga á  hráefninu til Kína og vinnsluna þar.

Magnús sagði að hér væri ekki aðeins um þorsk að ræða heldur einnig Alaskaufsa og hann bætti því við að Coldwater Seafood keypti reyndar talsvert af Alaskaufsa af Kínverjum til frekari vinnslu.

Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater Seafood í Bandaríkjunum. Mynd/Aðsend
Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater Seafood í Bandaríkjunum. Mynd/Aðsend
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Snúið á kerfið

„Þetta á ekki að vera hægt miðað við það hráefnisverð sem gefið er upp. Hvað sem öðru líður verður að viðurkennast að þessi tvífrystu flök þeirra eru góð vara og þeir eru afskaplega leiknir í að skera fiskinn til eins menn biðja þá að gera. Hann er handflakaður og það er varla skilin eftir fiskarða við beinin. Launin eru einnig mjög lág í Kína. Þetta tvennt nægir samt ekki til þess að skýra málið. Sumir halda því fram að þeir snúi á kerfið í Kína. Kínverjar eru mikil fiskneysluþjóð en það er skortur á fiski þar,“ sagði Magnús.

Vanmetin viðmiðunarmörk

„Innflutningstollar á fiski eru háir eða um 40%. Fiskur sem fluttur er inn sem hráefni til vinnslu fyrir útflutningsframleiðslu er undanþeginn tollum. Gengið er út frá ákveðnum viðmiðunum um nýtingarhlutfall þegar fylgst er með því hvort fiskurinn fari aftur úr landi. Líklegt er að þessi viðmiðunarmörk séu vanmetin. Miklu betri nýting fáist út úr vinnslunni en mörkin segja til um. Umfram nýtingunni er svo skellt á innanlandsmarkaðinn og framleiðendur fá 40% hærra verð í sinn vasa út af tollfrelsinu. Þetta er meðal annars talin vera ein skýringin á því að Kínverjar geti boðið verðið niður í Bandaríkjunum.“

Dæmið verði að ganga upp

Magnús var spurður hvort hann teldi þennan innflutning Kínverja ógnun við sölu á fiski frá Íslandi.

„Við erum að minnsta kosti ekki rólegir meðan við sjáum ekki hvernig dæmið getur gengið upp hjá þeim. Þeir bjóða verð sem er ekki í neinu rökréttu samræmi við hráefnisverð. Við sem keppum við þá verðum að láta dæmið ganga upp. Framhaldið ræðst mjög mikið af því hvaða samningum Kínverjar ná við Rússa um magn og hráefnisverð og hvort þeir geti leikið á kerfið í Kína,“ sagði Magnús.