Þennan dag fyrir 90 árum var stofnfundur Hampiðjunnar haldinn. Sagt er frá þessum tímamótum á heimasíðu Hampiðjunnar.

Það var árið 1934 sem Guðmundur S. Guðmundsson, vélstjóri og verkstjóri í vélsmiðjunni Héðni, hafði forgöngu um að safna saman 12 manna hópi til að stofna fyrirtæki sem framleiddi garn og net úr náttúrulegum hamptrefjum. Helsta ástæðan var skortur á efnum til veiðarfæragerðar.

Guðmundur S. Guðmundsson, forvígismaður stofnunar Hampiðjunnar.
Guðmundur S. Guðmundsson, forvígismaður stofnunar Hampiðjunnar.

Stofnendurnir voru flestir nátengdir fiskveiðum, skipstjórar og vélstjórar, og höfðu því hagsmuna að gæta. Þeir sem lögðu fram hlutaféð auk Guðmundar voru Jón Guðlaugsson vélsmiður, Guðmann Hróbjartsson vélstjóri og skipstjórnarmennirnir Hannes Pálsson, Halldór Gíslason, Bergþór Teitsson, Vilhjálmur Árnason, Jóhann Stefánsson, Kristján Kristjánsson, Jón Björn Elísson og Sigurjón Einarsson ásamt prentsmiðjustjóranum Gunnari Einarssyni og verslunarmanninum Frímanni Ólafssyni.

Undirbúningsfundur var haldinn laugardaginn 10. mars og stofnfundurinn var síðan haldinn fimmtudaginn 5. apríl kl. 6 síðdegis.

Um ári eftir stofnun Hampiðjunnar voru framleiðsluvörur félagsins komnar alfarið í notkun í stað innflutts garns og fiskilínu. Það reyndi þó mest á framleiðsluna í seinna stríðinu og fram til 1948 en þá sá Hampiðjan öllum íslenska fiskiskipaflotanum fyrir veiðarfæraefnum.

Netaverkstæðið í Stakkholti.
Netaverkstæðið í Stakkholti.

Árin sem komu þar á eftir urðu félaginu afar erfið því mikið framboð var á innfluttu niðurgreiddu garni og línum á meðan efni Hampiðjunnar var hátt tollað. Á þeim tíma var tvöföld gengisskráning og nutu sjávarútvegsfyrirtæki hagstæðara gengis en önnur fyrirtæki og leið iðnaðurinn mjög fyrir þetta fyrirkomulag.

Ný efni koma til sögunnar

Árið 1956 fékkst leyfi til að endurnýja vélakostinn og var það gert á árunum 1957-1961. Við það varð framleiðslan samkeppnishæfari og afkoman mun betri. En nokkrum árum síðar syrti aftur í álinn þegar gerviefni fóru að koma í stað náttúrulegu þráðanna. Árið 1964 varð almenn og skyndileg breyting á efnisnotkun í botnvörpur og önnur veiðarfæri sem gerðu flestar vélar Hampiðjunnar úreltar í einni svipan.

Eigendur félagsins stóðu því frammi fyrir þeirri ákvörðun að leggja niður fyrirtækið eða fjárfesta að nýju í vélbúnaði sem hentaði nýju efnunum. Stórhuga ákvörðun var tekin um að halda áfram og það má segja að það hafi markað upphaf stöðugrar nýsköpunar og vöruþróunar hjá Hampiðjunni. Það þurfti að hanna nýjar garntegundir og kaðla og fyrirtækið gat með fullkomnum vélakosti boðið sambærilegar eða betri vörur en keppinautarnir.

Á þessum tíma var Hampiðjan eingöngu framleiðandi á efnum í veiðarfæri og voru viðskiptavinirnir fjölmörg netaverkstæði víða um landið. Ekki var hægt fyrir Hampiðjuna að setja á stofn netaverkstæði hér á Íslandi í samkeppni við viðskiptavinina og því voru stofnuð og keypt netaverkstæði erlendis. Fyrst fjarri Evrópu en síðar í Danmörku og Írlandi með kaupum á Cosmos í Danmörku og Swan Net á Írlandi.

Veltan 322 milljónir evra 2023

Eftir það varð hlé á vextinum en frá 2013 hefur Hampiðjan rúmlega sexfaldast í stærð, frá því að velta 50 m€ í 322 m€ síðasta ár. Vöxturinn hefur verið góð blanda af sterkum innri vexti og stofnun og kaupum á félögum í veiðarfæra- og fiskeldisþjónustu.

Stofnendum félagsins fyrir réttum 90 árum hefur sjálfsagt aldrei órað fyrir því að litla fyrirtækið þeirra, sem barðist oft í bökkum fyrstu áratugina, yrði að stærsta veiðarfærafyrirtæki heims með starfsemi allt frá Dutch Harbor í Alaska í vestri til Timaru á Suðurey Nýja Sjálands í austri.

Starfsemi í 21 einu landi

Í dag er Hampiðjan með starfsemi á 52 stöðum í 21 landi og með um 2.000 starfsmenn. Höfuðstöðvarnar eru við Skarfabakka í Sundahöfn en þar eru aðalskrifstofurnar, netaverkstæði og aðallager fyrirtækisins á Íslandi. Hjarta framleiðslunnar á vörum fyrirtækisins er Hampidjan Baltic í Litháen, þar sem framleiddir eru þræðir, hnýtt net og fléttaðir ofurkaðlar ásamt framleiðslu á fullbúnum veiðarfærum.

Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar.
Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar.

Tveir stórir áfangar urðu hjá Hampiðjunni á síðasta ári þegar lokið var kaupum á norska fyrirtækinu Mørenot og í framhaldi af því skráning á aðallista Nasdaq Iceland. Með þessum áföngum opnast mikil tækifæri til enn frekari vaxtar og hagræðingar.

Stjórn Hampiðjunnar 2014-2024.
Stjórn Hampiðjunnar 2014-2024.

Veisluhöld ráðgerð

„Við eigum stofnendum og staðföstum eigendum Hampiðjunnar öll þessi 90 ár mikið að þakka fyrir þrautseigjuna og úthaldið sem hefur skilað Hampiðjunni á þann stað sem hún er í dag," segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar. „Við horfum bjartsýn fram á veginn og á þau fjölmörgu tækifæri sem þar bíða og ætlum okkur að halda áherslunni á stöðuga nýsköpun og vöruþróun sem er forsenda þess að við getum haldið áfram vegferð okkar. Í haust, um miðjan september, verður haldin sjávarútvegssýningin IceFish en sú sýning hefur verið aðalsýning Hampiðjunnar frá því að hún var sett á laggirnar 1984. Annan dag sýningarinnar ætlum við að halda upp á afmælið á netaverkstæðinu okkar á Skarfabakkanum og bjóða til veislu af því tilefni.“

Netagerð í Hampidjan Baltic í Litháen.
Netagerð í Hampidjan Baltic í Litháen.