Fyrirséð er að loðnuveiðiráðgjöf  Hafrannsóknastofnunar lækki. Lokaleit Hafrannsóknastofnunar að loðnu fyrir norðan og vestan land skilaði ekki miklu.

„Það kom ekkert stórt út úr þessu,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðstjóri á Hafrannsóknastofnun, um loðnuleiðangur Árna Friðrikssonar.

Rannsóknaskipið kom í land á þriðjudag eftir viku leiðangur og nú standa yfir útreikningar og sagðist Guðmundur vonast til þess að niðurstöður verði kynntar fyrir helgi.

„Það er samt alveg fyrirséð að það verði einhver lækkun á ráðgjöfinni, þótt hún verði varla alveg 100 þúsund tonn.“

Í byrjun mánaðarins birti Hafrannsóknastofnun niðurstöður úr hinum árlegu vetrarmælingum loðnu, en í staðinn fyrir að gefa lokaráðgjöf þá var ákveðið að halda í annan leiðangur stuttu síðar til að fara betur yfir svæðið, ekki síst út af Vestfjörðum þar sem hafís hafi verið til trafala.

Aðallega ungloðna

Bráðabirgðaráðgjöfin frá 1. október var upp á 904.000 tonn og þar af komu 662.000 tonn í hlut Íslendinga, en eftir fyrri hluta vetrarleiðangursins varaði Hafrannsóknastofnun við því ráðgjöfin gæti lækkað um allt að 100.000 tonn ef ekki myndi finnast meiri loðna.

Guðmundur segir að markmið þessa leiðangurs að rannsaka Vestfjarðamið og mögulegar loðnugöngur inn á norðvesturmið, hafi náðst.

„Við náðum alveg nokkurn veginn yfir svæðin sem við höfðum ætlað og vonast til að komast inn á. Ís aftraði mælingum lítillega um miðbik svæðisins, en það var ekkert að gerast þar. Þar var aðallega ungloðna.“

Norskir útgerðarmenn hafa farið mikinn undanfarið og segja sig sæta mismunun af hálfu Íslendinga við loðnuveiðar.

Í janúar höfðu norsk stjórnvöld óformlega samband við Matvælaráðuneytið og óskuðu eftir því að liðkað yrði til fyrir loðnuveiðum norskra skipa hér við land. Í síðustu viku ræddu svo sjávarútvegsráðherrar landanna saman, en í bæði skiptin fengu Norðmenn þau svör að fyrirkomulagið á veiðunum sé í samræmi við samninga milli landanna, og þeim samningum verði ekki breytt nema með formlegum samningaviðræðum.

Norðmenn eiga enn eftir að veiða rétt rúm 100.000 tonn af 145.000 tonna bráðabirgðakvóta, en nú er aðeins tæp vika eftir af veiðitímabili Norðmanna. Þeim ber að ljúka sínum veiðum þann 22. febrúar, sem er á þriðjudaginn í næstu viku.

Engin skylda

Rammasamkomulag Íslands, Grænlands og Noregs um loðnuveiðar, sem gert var árið 2018, kveður á um að takist Norðmönnum ekki að veiða allt það magn sem þeim er úthlutað þá gangi þær heimildir til Íslendinga. Sú viðbót kemur sér óneitanlega vel, ekki síst nú þegar búast má við að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar lækki.

Íslensku skipin eru búin að landa hér á landi um 340.000 tonnum, og því komin með vel yfir helminginn af þeim 662.000 tonnum sem þeim var úthlutað samkvæmt bráðabirgðaráðgjöfinni í haust.

Í tvíhliða bókun Noregs og Íslands við rammasamkomulagið segir að komi endanleg ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun óvenju seint hafi íslensk yfirvöld „samþykkt að íhuga framlengingu fiskveiðitímabilsins.“ Ekki er þó kveðið á um neina skyldu til þess og ekkert heldur minnst á að fjölga mætti norskum skipum, leyfa þeim að veiða með öðru en nót, eða stækka veiðisvæðið til suðurs.

Skilningur íslenskra stjórnvalda er sá að lækki ráðgjöfin nú, eins og líklegast er, þá sé í raun ekki hægt að tala um að lokaráðgjöf komi of seint, því strax 1. október var ráðgjöfin komin og hún er ekki að hækka.

Þrusuvertíð

Á vef Síldarvinnslunnar hf. segir að loðnuveiðar suður af landinu hafi gengið vel að undanförnu. Þetta sé orðin þrusuvertíð. Haft er eftir Tómasi Kárasyni, skipstjóra á Beiti, að nú fari í hönd mikilvægasti hluti vertíðarinnar þegar „loðnan verður frystingarhæf á Asíu og síðan þegar hrognavinnslan hefst."

Tómas segir fremur ólíklegt að Norðmennirnir nái að veiða það sem þeim var úthlutað, en annars eigi „ekki að vanmeta Norsarana, þeir eru ólseigir.“