Eftir tveggja ára fjarveru er makríll nú útbreiddur við landið. Hann fannst meðfram suður- og vesturströnd landsins, bæði á landgrunninu og utan þess.

Bráðabirgðaniðurstöður úr uppsjávarvistkerfisleiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar sýna að magn og útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi er mun meira en undanfarin tvö sumur.

Hafrannsóknastofnun segir frá því að skipið kom til hafnar í síðustu viku eftir að hafa siglt um 3800 sjómílur kringum landið, eða 7 þúsund kílómetra, og voru teknar 48 togstöðvar á leiðinni.

„Makríll fannst meðfram suður- og vesturströnd landsins, bæði á landgrunninu og utan þess. Fyrir sunnan, fannst makríll í Íslandsdjúpi suður að 62 °N breiddargráðu en makríll hefur ekki fengist í þessum leiðangri á þessu svæði síðan sumrið 2016,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

„Bráðabirgðaniðurstöður frá norsku og færeysku rannsóknarskipunum sýndu að makríll var einnig að finna austan við land.“

Árlegur leiðangur

Auk Árna Friðrikssonar tóku rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku þátt í leiðangrinum. Leiðangur af þessu tagi er farinn á hverju sumri og er eitt af meginmarkmiðum hans að kanna útbreiðslu og þéttleika makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi.

Árni sá að venju um að fara yfir íslenskt hafsvæði, að undanskildum þó austurhluta íslensku landhelginnar sem Norðmenn og Færeyingar rannsökuðu. Árni rannsakaði einnig svæði í grænlenskri landhelgi fyrir norðan Ísland.

Norska Hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, greinir frá því að útbreiðsla makríls í Noregshafi nái nú lengra til austurs en áður, en hins vegar sé makríllinn eins og áður stærri vestantil á yfirferðarsvæði norsku skipanna, eða yfir 500 grömm. Nær Noregi hafi hann verið um 300-400 grömm.

Minna um hrognkelsi

Í leiðangrinum var einnig aflað gagna sem notuð eru við vöktun og rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins í hafinu, allt frá frumframleiðslu sjávar til útbreiðslu hvala.

„Bráðabirgða niðurstöður sýna að hitastig í yfirborðslagi var álíka og sumarið 2021 og aðeins hlýrra en sumarið 2020,“ segir í tilkynningunni frá Hafró.

„Líkt og undanfarin ár var norsk-íslenska vorgotssíld að finna á flestum togstöðvum fyrir norðan og austan landið og íslensk sumargotssíld á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið. Kynþroska kolmunni mældist við landgrunnsbrúnina sunnan og vestan við landið. Magn og útbreiðsla hrognkelsa var minni í ár en undanfarin ár. Í leiðangrinum voru merkt alls 64 hrognkelsi.

Leiðangrar Norðmanna og Grænlendinga standa enn yfir. Gögn frá skipunum sex sem taka þátt í leiðangrinum verða tekin saman og greind upp úr miðjum ágúst og niðurstöður þeirrar vinnu síðan kynntar undir lok ágúst.“