Einar Sigurðsson og Jóhann A. Jónsson, strandveiðisjómenn í Raufarhöfn og Þórshöfn, leggja til við matvælaráðherra að fastsettur verði ákveðinn dagafjölda fyrir hvern strandveiðibát. Heildarfjöldi daga gæti verið sá sami á öllum bátum á landinu og þannig verði það sett í vald hvers skipstjóra hvenær hann nýtir sína daga. Með því móti væri, að þeirra mati, jafnræðis gætt milli báta og svæða og strandveiðiafli myndi dreifast jafnar yfir tímabilið og uppfylla kröfur kaupanda að geta keypt fisk út ágúst.

Komið í algjört öngstræti

„Ljóst er að núverandi fyrirkomulag strandveiða er komið í algjört öngstræti. Því til staðfestu lagði matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fram stjórnarfrumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (svæðaskipting strandveiða) þann 21. mars 2023. Frumvarpið var ekki samþykkt á því þingi og virtist hver höndin upp á móti annarri, ef marka má 131 umsögn þess í samráðsgátt stjórnvalda. Því til áréttingar vildu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggja strandveiðar af, á meðan Landssamtök smábátaeigenda krefjast 48 veiðidaga. Öllum má ljóst vera að hvorug tillagan er raunhæf.“

Tillöguhöfundar segja fyrirkomulag um „einn pott” á strandveiðum ekki hafa reynst vel. Það hafi viðhaldið ójafnræði milli svæða. Þá hafi það leitt til röskunar byggða einkum á Norður- og Austurlandi þar sem veiðar hefjast mun seinna, þ.e. í júlí-ágúst, en á öðrum svæðum t.d. á Suður- og Vesturlandi þar sem veiðar hefjast strax í maí. Að því leyti vinni kerfið gegn sjálfu sér í stað þess að viðhalda jafnræði í sóknar möguleikum og ákveðnu magni á hverju svæði A, B, C og D, sem lagt var upp með í upphafi strandveiða 2009/2010.

Með því að fastsetja ákveðinn dagafjölda fyrir hvern strandveiðibát minnki slysahætta og kapphlaup um nýtingu auðlindarinnar.

„Gangi þessi breyting eftir mun það stuðla að aukinni hagkvæmni, minni kostnaði og verða hvati til veiða þegar fiskverð er gott. Tillaga þessi gengur út frá því að allt að 700 bátar verði á strandveiðum á ári og því ætti að vera auðvelt að ákveða dagafjölda út frá því heildarmagni sem til strandveiða verður. Ef ekkert verður að gert munu koma fram endalausar kröfur um fleiri veiðidaga og þar með meira magn. Óbreytt kerfi mun þá halda áfram, að neyða menn til að flytjast búferlum frá þorpunum á Norður- og Austurlandi á betri svæði eins og dæmi sanna.“