Norska hafrannsóknaskipið Krónprins Hákon er nýlega komið til heimahafnar eftir sjö mánaða rannsóknaleiðangur á ljósátu í Suðuríshafinu. Skipið sem er eitt hið fullkomnasta rannsóknaskip heims og kostaði með öllum búnaði tæpa 16 milljarða ÍSK, var þar í samfloti með fimm öðrum rannsóknaskipum frá öðrum þjóðum.

Markmið leiðangursins  var að kortleggja lífmassa ljósátu á stóru hafsvæði við Suðurskautslandið. Leiðangursstjórinn Björn Krafft er vísindamaður við Hafrannsóknastofnun Noregs. Hann segir að aldrei fyrr hafi norskt rannsóknaskip tekið þátt í jafn yfirgripsmiklum rannsóknaleiðangri.

Svipaður leiðangur var gerður út árið 2000 og með samanburði á rannsóknaniðurstöðum fást svör um þær breytingar sem orðið hafa á þessum 18 árum. Unnið er úr gögnum um þessar mundir og úr þeim verður unnið mat á heildarmagni ljósátu á svæðinu. Krafft segir að Norðmenn séu stórtækastir allra þjóða við veiðar á ljósátu í þessum heimshluta og verði því að leggja mest af mörkum til rannsókna á svæðinu.

60,3 milljónir tonna árið 2000

Bráðabirgðaniðurstöður sýna að útbreiðsla ljósátu á svæðinu hefur ekki breyst í grundvallaratriðum frá árinu 2000.

„Þetta lítur mjög svipað út en við vitum að nýliðun er breytileg ár frá ári. Við höfum gert minni mælingar á hverju ári og sjáum út frá þeim að það eru sveiflur í stofninum eins og í öllum villtum dýrastofnum,“ segir Krafft.

Í leiðangrinum fyrir 18 árum mældust 60,3 milljónir tonna af ljósátu á svæðinu. Dreifingin er svipuð nú og var þá en svar við því hvort magnið sé jafnmikið nú liggur ekki fyrir fyrr en í haust.

Ennfremur miðast leiðangurinn að rannsóknum á sjálfri ljósátunni.

„Við höfum meðal annars tekið sjósýni og munum greina genatísk efni sem er að finna í honum. Með þessu móti getum við séð hvaða sjávardýr eru á svæðinu og í hve miklu magni,“ segir Krafft.

Þetta er ný rannsóknaaðferð sem kölluð hefur verið eDNA og gengur út á það að finna erfðaefni í sjónum.

eDNA hér á landi

Fiskifréttir sögðu frá þessum rannsóknum nýlega. Þessi tegund hafrannsókna er ný af nálinni, en starfsmenn Hafrannsóknastofnunar Íslands eru þegar byrjaðir að stunda slíkar rannsóknir hér við land. Meðal annars er vonast til þess að þær geti hjálpað til við að finna loðnu í framtíðinni.

Christophe Pampoullie, erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun, sagði í viðtali við Fiskifréttir seint á síðasta ári að tekin yrðu sjósýni og þau greind strax um borð í skipunum. Þá gætu menn séð „hvort erfðaefni úr loðnu sé að finna í hafinu. Ef sú yrði raunin þá getum við fylgt hafstraumunum og leitað uppi loðnuna.“