Rússneska sjávarútvegsfyrirtækið Russian Fishery hefur fengið afhentan nýjan 108 metra langan frystitogara, Kapitan Martynov, sem smíðaður var eftir teikningum norska skipahönnunarfyrirtækisins Skipsteknisk í Admiralty skipasmíðastöðinni í Pétursborg.

Sagt er frá þessu á vefmiðlunum bairdmaritime.com í Ástralíu. Útgáfan sér ástæðu til þess að lesendur hafi lýst óánægju um umfjöllun um ný skip frá Rússlandi. Skilningur ríki á þessu sjónarmiði en það vegi þó þyngra að miðla upplýsingum um það nýjasta í skipahönnun og -smíði óháð því hvernig leiðtogar Rússlands séu gerðir.

155 í áhöfn og vinnslu

Kapitan Martynov er fjórða skipið í raðsmíði samkvæmt hönnun Skipsteknisk. Í því er aðstaða fyrir 155 í áhöfn og fiskvinnslu. Skipin eru liður í svokallaðri fjárfestingakvótaáætlun rússneskra stjórnvalda. Samkvæmt fjárfestingakvótaáætluninni verða smíðuð samtals um 100 skip af ýmsum stærðum og ætluð til mismunandi veiða.

„Þetta nýja fiskiskip er góð viðbót í flota okkar í austanverðri lögsögu okkar og mun ekki eingöngu stuðla að hagkvæmari veiðum heldur betri vinnuaðstöðu sjómanna,“ sagði Viktoria Abramtsjenko,“ starfsmaður sjávarútvegsráðuneytis Rússlands þegar skipið var sjósett.

Kapitan Martynov er sagður eitt tæknivæddasta fiskiskip veraldar. Það verður gert út til veiða á alaskaufsa og síld í Beringshafi og Okhotkshafi. Einnig er skipið hannað til veiða á fjarlægari miðum, meðal annars í Íshafinu.

Skipin í þessari raðsmíði eiga að geta veitt allt að 60 þúsund tonn af fiski á ári sem 2,5 sinnum meira en lunginn af þeim skipum sem nú eru í flotanum eru fær um í austlægustu hlutum rússnesku lögsögunnar. Skipin eru með búnað til framleiðslu á verðmætum afurðum eins og flökum en einnig mjöli og lýsi.

Það er ekki eingöngu afkastageta skipanna sem vekur athygli heldur líka bætt vinnuaðstaða, sparneytni og umhverfisvænleiki. Búnaður verður til að eima sjó og sótthreinsa.