Erling Braut Haaland hefur samið við Norska sjávarafurðaráðið um að verða sendiherra norskra sjávarafurða á erlendri grund.

„Sjávarafurðir hafa verið stór hluti af fæðu minni öll uppvaxtarárin. Norskar sjávarafurðir, sem ég tel þær bestu í heimi, eiga sér áfram eðlilegan sess í mínu lífi. Norska sjávarafurðaráðið er að gera mikilvæga hluti með því að byggja upp þekkingu á góðum og heilbrigðum sjávarafurðum hér heima og erlendis,“ segir Erling Braut Haaland.

Haaland er þekktur sem einn fremsti knattspyrnumaður heims og frægðarsól hans hefur risið hátt um allan heim eftir að hann gekk til liðs við Englandsmeistarana Manchester City og fór að raða inn mörkum fyrir liðið.

Landslið Noregs í knattspyrnu karla og kvenna taka þátt í samstarfi við Norska  sjávarafurðaráðið um að koma norskum sjávarafurðum á framfæri við neytendur.
Landslið Noregs í knattspyrnu karla og kvenna taka þátt í samstarfi við Norska sjávarafurðaráðið um að koma norskum sjávarafurðum á framfæri við neytendur.

Norska sjávarafurðaráðið telur það fullkomna liðsuppstillingu að setja Haaland í lið með einni af þekktustu útflutningsvöru Noregs sem eru sjávarafurðir. Samstarfið nær til nokkurra sviða eins og að koma á framfæri hollum og sjálfbærum matvörum og gleðinni sem góðar sjávarafurðir geta fært inn í lífið.

Haaland verður áberandi á auglýsingaskiltum, í stafrænum auglýsingum og kemur fram í auglýsingum í sjónvarpi sem birtast munu víða um veröld.

Ekki á flæðiskeri staddur

Samningurinn er til tveggja og hálfs árs og tók gildi 1. apríl. Einnig munu landslið Noregs í knattspyrnu karla og kvenna taka þátt í samstarfi við Norska sjávarafurðaráðið um að koma norskum sjávarafurðum á framfæri við neytendur.

Haaland þiggur andvirði 66 milljóna ÍSK í vikulaun hjá Manchester City og auk þess tekur hann inn drjúgar tekjur á alls kyns tengingum við önnur fyrirtæki eins og Samsung, Viaplay, Hyperice og Nike sem hann gerði samning við á síðasta ári upp á 24 milljónir dollara. Norska sjávarafurðaráðið er markaðssamtök í eigu norska ríkisins og starfar undir hatti ráðuneyta viðskipta, iðnaðar og sjávarútvegs. Þau eru fjármögnuð með skatti á útfluttar sjávarafurðir. Á síðasta ári fór Noregur fram úr Kína sem heimsins mesti útflytjandi á hágæða sjávarafurðum.