Bæjarráð Vestmannaeyja segir það afar sérstaka forgangsröðun fjármuna að ríkið setji ekki meira fjármagn í loðnurannsóknir og loðnuleit í ljósi þeirra verðmæta sem tapast þegar loðnubrestur verður. Ríkið sé stærsti hagsmunaaðili hvað loðnu varðar og ætti að haga sér sem slíkur.

Í fundargerð bæjarráðsins frá 5. apríl er bent á að loðnubrestur sé orðin staðreynd. Þetta sé þriðji loðnubresturinn á fimm árum og hafi hann miklar afleiðingar fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum. Loðnubrestur sé högg bæði fyrir uppsjávarsveitarfélög og þjóðarbúið allt.

Afar sérstök forgangsröðun fjármuna

„Það er afar sérstök forgangsröðun fjármuna að ríkið skuli ekki setja meira fjármagn í loðnurannsóknir og loðnuleit í ljósi þeirra verðmæta sem tapast þegar loðnubrestur verður. Ríkið er stærsti hagsmunaaðili hvað loðnu varðar og ætti að haga sér sem slíkur,“ segir í fundargerðinni.

Bæjarráð Vestmannaeyja hvetur sjávarútvegsráðherra til að tryggja betri umgjörð og meira fé til loðnuleitar og loðnurannsókna enda miklir hagsmunir fyrir þjóðarbúið þar undir.