Enginn hefur líklega séð fyrir hvernig heimsmyndin í Evrópu myndi breytast í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn. Alla vega ekki Ólöfu Ýr Lárusdóttir og Bjarma Sigurgarðarsson, stofnendur og eigendur hátæknifyrirtækisins Vélfags á Ólafsfirði og Akureyri. 5. janúar á þessu ári, 50 dögum fyrir innrásina, var tilkynnt um sölu á 54,5% hlut í Vélfagi, sem hefur þróað og framleiðir hátæknivæddan fiskvinnslubúnað, til Norebo, stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Rússlands.

Vélfag er eitt þeirra íslensku tæknifyrirtækja sem hafa risið og dafnað innan bláa hagkerfisins og sett mark sitt á vinnslutækni í sjávarútvegi hvort sem er til lands eða sjávar. Framundan hjá Vélfagi, fyrir utan raðframleiðslu á hinum ýmsu vélum, er verkefnið Fiskvinnsla – næsta kynslóð sem snýst í grundvallaratriðum um samruna margra tækja í eitt. Verkefnið var styrkt um 50 milljónir kr. af Tækniþróunarsjóði.

Vélfag er í fararbroddi í heiminum í samruna hefðbundinna fiskvinnslutækja og tölvustýringar. Vöxturinn síðustu árin hefur einkum verið inn á erlenda markaði þar sem fyrirtækið er vel kynnt sem hönnuður og framleiðandi nýrrar fiskvinnslutækni. Eitt af stóru verkefnunum undanfarið ár hefur verið sala og uppsetning á tækjabúnaði fyrir fiskvinnslur á Írlandi.

Engin viðskipti í Rússlandi

„Fyrirtækið sjálft líður ekki mikið fyrir þessa atburði og afleiðingar þeirra vegna þess að það var ekki í viðskiptum í Rússlandi. Önnur fyrirtæki eru því miður að lenda í erfiðleikum vegna hamla á viðskiptum og innflutningi vöru og þjónustu inn í landið. Við þjónustuðum bara eina vinnslu sem við höfðum sett upp í samstarfi við Völku á sínum tíma. En auðvitað hafa þessir atburðir hræðileg áhrif á alla en mest á þá sem þurfa að upplifa stríðsátök,“ segir Ólöf.

Arður hefur ekki verið greiddur út úr félaginu frá því Ólöf og Bjarmi stofnuðu það árið 1995 í Ólafsfirði.  Ólöf segir breytt eignarhald engu hafa breytt í starfsemi Vélfags. Hún segir fyrirsvarsmenn Norebo réttu aðilana til þess að tjá sig um afstöðu þeirra til eignarhaldsins og breyttra, viðskiptalegra aðstæðna í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

„Það er lítið sem við getum gert til þess að breyta þessari stöðu sem er alveg hræðileg. Við bara vonum að eitthvað gerist sem geti leyst úr þessu. Flest vandamál eru lítilvæg miðað við þær hörmungar sem fólk þarf að upplifa á þessum slóðum.“