Landssamband smábátaeigenda hefur tekið saman samanlagðan afla skipa í afla- og krókaaflamarki í þorski, ýsu og ufsa á fyrstu sjö mánuðum fiskveiðiársins. Tölurnar eru unnar af heimasíðu Fiskistofu. Í töflum sem LS hefur sett upp sést jafnframt nýting aflaheimilda og staða í lok hvers fiskveiðiárs.

Þorskur

Í lok mars var þorskafli kominn yfir 139 þúsund tonn sem jafngildir 69,5% af heimildum fiskveiðiársins. Óveidd eru rúm 61 þúsund tonn fyrir þá fimm mánuði sem eftir eru af árinu. Sambærilegar tölur fiskveiðiársins 2022/2023 voru 59 þús tonn og 70,5%. Hlutföllin nú eru nokkru hærri en þriggja fiskveiðiára þar á undan, tímabilið 2019-2021. Lægst var það 2019/2020 60,6% og þá voru óveidd um 106 þúsund tonn.

Samtala óveiddra heimilda síðustu fjögur fiskveiðiárin 2019-2022 voru 19 þúsund tonn.

Ýsa

Ýsuafli nálgast 50 þúsund tonnin. Það er meira á þessu sjö mánaða tímabili en á undanförnum árum. Aftur á móti er hlutfall sem veitt hefur verið það lægsta á tímabilinu frá fiskveiðiárinu sem hófst 1. september 2019, 64,2%. Það hefur verið í kringum 70% að undanskildu fiskveiðiárinu 2019/2020 en þá höfðu 86,5% aflaheimildar verið nýttar í lok mars.

Þegar árin voru gerð upp kom í ljós að samanlagður umframafli fjögurra fiskveiðiára nam 13 þúsund tonnum. Gera má ráð fyrir að sú tala jafnist nokkuð með yfirstandandi fiskveiðiári.

Ufsi

Eins og sjá má hefur ufsi ekki gefið sig til veiða í því magni sem útgefnar veiðiheimildir segja til um. Á fjórum árum hafa um 145 þúsund tonn ekki nýst sem afli. Miðað við meðalverð á fiskmörkuðum tímabilið 1. september 2019 til og með 31. ágúst 2023 er aflaverðmæti þessa magns hvorki meira né minna en 26 milljarðar. Á yfirstandandi fiskveiðiári bendir allt til þess að hlutfall ufsa sem ekki nýtist með veiðum verði það hæsta á því 5 ára tímabili sem hér er fjallað um.

„Með tilliti til þessara upplýsinga er óskiljanlegt að drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg sem fv. matvælaráðherra lagði fram í Samráðsgátt skuli kveða á um að ufsi skuli að fullu teljast til „skammtsins“ við strandveiðar,“ segir í samantekt LS.