Jónas P. Jónasson segir að hlýnun hafsins fyrir sunnan land gæti hafa raskað lífsháttum humarsins. Humarlirfur hafi verið að finnast í svifi, þannig að hann er að fjölga sér eitthvað. Hann skilar sér þó ekki í veiði fyrr en nokkurra ára gamall.

Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir ekkert hlaupið að því að finna skýringar á því að nýliðun í humri hefur varla sést síðan 2005 eða 6. Enn sé þó von um að hann láti á sér kræla aftur.

„Það geta svo margir þættir orsakað það að nýliðunin misferst,“ segir hann.

Eitt af því sem getur hafa haft áhrif er að sjórinn sunnan við Ísland hefur verið heldur hlýrri en áður í núverandi hlýskeiði sem hefst uppúr 1996. Hlýnunin geti meðal annars valdið því að eggin þroskist hraðar í lirfur, og það geti svo haft áhrif á lífstaktinn í stofninum.

„Ef hitinn hækkar að jafnaði þá geta lirfurnar hugsanlega farið fyrr af stað. Það getur breytt miklu, hjáhumrinum er þetta eggja skeið í um ár en t.d. hjá þorskinum eru þetta innan við tvær vikur. Humarinn geymir eggin undir halanum og er lítið á ferðinni. Eggin þroskast þar við ákveðið hitastig og hjá okkur tekur það lengri tíma en á öðrum svæðum af því hér er kaldara. Þannig hrygnir humarinn bara annað hvert ár hér en árlega sunnar.“

Sést ekki strax

Undanfarin fjögur ár hefur Hafrannsóknastofnun fylgst sérstaklega með því hvort humarlirfur finnist í svifi, „og við erum að finna humarlirfur í svifinu. Það er ekkert rosalega mikið af þeim, en við erum að finna þær samt þannig að hann er að fjölga sér. En við komum ekki til með að sjá merki þess fyrr en á næsta ári eða þarnæsta.“

Hann tekur fram að erfitt sé að átta sig á því hvort nýliðun heppnist fyrr en að nokkrum árum liðnum.

„Við sjáum þorskinn koma inn strax að hausti sem seiði, og fáum þá góða tilfinningu fyrir því hvort að góður árgangur sé á leiðinni eða ekki. Það er sama með humarinn, nema við sjáum hann ekki koma fyrr en 4-5 ára. Hann er ekkert að skila sér í veiði þessi allra smæsti humar. Þannig að þegar við segjum að nýliðun hafi verið slæm frá 2005 þá gildir það ekki nema til 2016-17. Við sjáum ekkert mikið lengra í veiðitölum.“

Fleiri í vanda

Hann segir svipaðar breytingar hafa sést á fleiri stofnum fyrir sunnan land, eins og til dæmis í sandsílinu.

„Sandsílið fer niður á svipuðum tíma og humarinn, en það er tegund sem er algeng við suðurströndina. Svo hefur það komið upp svona síðustu tvö árin og það skilar sér strax í því að sjófuglum hefur gengur betur í varpi,“ segir Jónas.

„Við sjáum líka að það eru tegundir flatfiska eins og þykkvalúra, öfugkjöfta og langlúra þar sem léleg nýliðun sást í þó nokkur ár, og það var líka hjá keilu og löngu. Allt eru þetta tegundir sem eru suðlægar. Það var engin frábær nýliðun hjá þorski heldur en samt ekkert í líkingu við þetta, enda er hann að hrygna mikið við vesturströndina. Það hefur verið ágætis ásigkomulag í sjónum hjá okkur, þótt ákveðinn misbrestur virðist hafa verið eða færslur sem hafa ekki verið jákvæðar fyrir tegundirnar fyrir sunnan land.“

  • Humar í holu og annar skammt frá. MYND/Hafrannsóknastofnun

Jónas segir að óneitanlega þyrfti að vera hægt að fylgjast betur með því sem er að gerast. Fjárráð stofnunarinnar séu hins vegar takmörkuð og nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum.

„Við vorum með seiðaleiðangra sem voru lagðir niður af því þeir voru ekki að gefa nógu góða mynd. Í myndavélatúrum þar sem við erum að telja holur vorum við aðeins farin í mælingar á lirfum. En við förum ekki í leiðangur á þessu ári varðandi humarmyndatökurnar og þá dettur þetta út líka. Við gefum núna út ráðgjöf sem gildir í tvö ár, og það var mat manna að það er svo margt annað sem þarf að sinna. Fyrst að stofninn er komin í þessa stöðu þá sé ekki forsvaranlegt að eyða þó þeim peningum sem eru til í það.“

Hafrannsóknastofnun gaf út ráðgjöf um humarveiðar 17. desember síðastliðinn. Lagt er til að engar humarveiðar verði leyfðar árin 2022 og 23, enda bendi gögn til þess að „þrátt fyrir minni sókn undanfarin ár fari ástand stofnsins enn versnandi og nýliðun sé lítil sem engin. Þannig hefur stofnstærð humars minnkað um 27% á tímabilinu 2016-2021 og er nú í lágmarki,“ að því er segir í ráðgjöf stofnunarinnar.

Erfðafræði leturhumars

Jónas er meðhöfundur nýbirtrar vísindagreinar um stofnerfðafræði leturhumars. Niðurstöðurnar sýndu að minnsta kosti fjögur erfðafræðilega aðgreind svæði humarsins í Evrópu, en þessi humartegund veiðist á stóru svæði allt frá Miðjarðarhafi norður til Íslands.

Hvað íslenska humarinn varðar reyndist athyglisvert að enginn erfðafræðilegur munur var á humri í Breiðamerkurdjúpi suðaustur af Íslandi og humri á Porcupine Banka djúpt vestur af Íslandi.

Jónas segir þessar niðurstöður merkilegar, enda þótt þær hafi ekki áhrif á veiðistjórnun hér við land.

„Það er að mörgu leyti spennandi að það séu tengingar milli þessara hafsvæða. Það er eins og þarna sé greiðasta leiðin þótt hugsanlega gæti humarinn millilent einhvers staðar á leiðinni, á Rockall eða einhvers staðar þar sem við vitum ekki endilega um að humar sé, og komi svo til okkar. Eins gætu lirfurnar borist í einu vetfangi yfir í Breiðamerkurdýpið fyrir austan. Við vitum um aðrar tegundir eins og þorskinn þarna fyrir suðaustan land, og hann er líka að ganga til Færeyja, þannig að það eru tengingar þarna. Við vitum líka með skötusel að rannsóknir sýndu hvernig hann tengist þessum svæðum djúpt vestur af Bretlandseyjum.“

Hann segir að töluverða fjarlægð þurfi til að ólíkir stofnar myndist, en töluverðan tíma þurfi einnig til.

„Ef þú horfir á Ísland þá eru þessar tegundir flestallar að berast hingað við lok síðustu ísaldar, því erfðafræðin er svolítið á þessum jarðsögulega skala aðeins. Það þarf kannski að horfa á að fyrir 10 þúsund árum þá breytist allt hér, straumarnir og það hlýnar hérna og tegundir færast eftir því sem hitastig og umhverfi leyfir. Þannig að þetta var forvitnileg rannsókn og gaman að taka þátt og leggja til sýni, maður auðvitað spenntastur fyrir okkar sýnum.“