Stofnvísitala hrygningarþorsks við Ísland hefur verið há frá árinu 2011 og hækkar aftur í ár og er í hámarki, eftir lækkun síðustu tvö ár.

Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um netarallið sem fór fram dagana 27. mars til 21. apríl 2022. Í skýrslunni eru sýndar lífmassavísitölur helstu fisktegunda sem fást í netaralli, ásamt útbreiðslu háfiska, krabba, sjófugla og sjávarspendýra. Einnig er fjallað um merkingar á hrygningarþorski sem fram hafa farið í netaralli síðustu þrjú ár og gerð grein fyrir fyrstu niðurstöðum.

Hækkun stofnvísitölu hrygningarþorsks í ár má rekja að mestu til þess að vísitalan hækkar aftur í Breiðafirði og Faxaflóa, en minni breytingar eru á öðrum svæðum. Mest var aukningin í 70-100 sentímetra þorski, að mestu árgangar 2015 og 2014, sem er 7-8 ára fiskur. Segir í skýrslunni að ágætt samræmi er á þróun stofnvísitalna þorsks úr öðrum stofnmælingum, eins og t.d. með botnvörpu í mars og október.

„Einnig er sterkt samband milli aldursskiptra fjöldavísitalna hrygningarþorsks úr SMN og fjölda eftir aldri í hrygningarstofni skv. stofnmati, sem sýnir að netarall gefur góða mynd af stærð hrygningarstofnsins á hverjum tíma,“ segir í skýrslunni.

Ólíkt milli svæða

Ástand þorsks er nálægt meðaltali tímabilsins 1996-2022. Talsverður breytileiki er þó á ástandi á milli svæða, aldurs og lengdarflokka.

Verulegar breytingar hafa orðið á meðalþyngd þorsks eftir aldri á rannsóknartímanum. Meðalþyngd hefur aukist við vestanvert landið og við Norðurland, þó hún hafi lækkað aftur síðustu ár. Meðalþyngd þorsks eftir aldri við Suðausturland var há í byrjun, fór síðan lækkandi en hefur aukist aftur. Kynþroskahlutfall eftir aldri breytist ekki mikið hjá algengustu aldurshópum milli ára. Hlutfall hrygna á kynþroskastigi tvö – sem eru kynþroska en ekki rennandi - var hærra en í fyrra.

Ýsan sterk

Þá segir í samantekt stofnunarinnar að stofnvísitala ufsa í netaralli hefur verið há frá árinu 2016 og er svipuð í ár ef undanskilið er hámarkið árið 2019.

Hækkun stofnvísitölu 2019 var vegna mikillar aukningar á ufsa í Fjörunni og á Bankanum. Í ár eru litlar breytingar milli ára eftir svæðum, nema á Bankanum þar sem vísitalan hækkar. Mest fæst af 7-11 ára ufsa í netaralli og árgangur 2012 (nú 10 ára) hefur verið mest áberandi undanfarin ár.

„Af breytingum á stofnvísitölum annarra fisktegunda í netaralli má helst nefna að vísitala ýsu hefur verið há síðustu 5 ár og er nú sú hæsta sem mælst hefur. Vísitölur hrognkelsis og skarkola lækka frá hámarki í fyrra og vísitala tindaskötu mælist sú hæsta frá upphafi,“ segir í skýrslunni.