Hollenska dýpkunarskipið Hein er komið til Ísafjarðar og mun vera við dýpkun við Sundabakka næstu vikur. Miklar tafir á dýpkunarframkvæmdum kostuðu hafnarsjóð yfir 150 milljónir króna í fyrra.

„Fyrst og fremst er verið að dýpka tvö svæði við Sundabakka niður í 10 metra, auk dýpkunar á sundum og grynningu í innsiglingunni niður í átta metra. Hein mun dæla um 48.000 rúmmetrum af efni upp við Sundabakkann og um 50.000 rúmmetrum úr innsiglingunni. Efnið verður að hluta notað til að hækka land á Suðurtanga,“ segir á vef Ísafjarðarbæjar.

Álfsnes klárar grynnri svæðin í sumar

Þá segir á vef Ísafjarðar að í sumar sé gert ráð fyrir að dýpkunarskipið Álfsnes komi til að klára að dæla upp af svæðum sem séu of grunn fyrir Hein.

„Álfsnes mun dæla efninu sem þá verður tekið í fjöruna við Fjarðarstræti, en um sama leyti verður fyrirstöðugarðurinn við Norðurtanga tilbúinn. Aðgengi að fjörunni verður bætt samhliða vinnu við fyrirstöðugarðinn og lýsing sett á garðinn og göngustíginn meðfram Sundstræti,“ segir á isafjordur.is.

Hafnarstjórinn lýsti miklu tekjutapi

„Það átti að vera búið að dýpka fyrir ári síðan og vegna tafa á dýpkun voru afbókanir sem kostuðu hafnarsjóð 154 milljónir króna,“ sagði Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri við Fiskifréttir í desember síðastliðnum.

„Það var til dæmis eitt skemmtiferðaskip sem átti fjórtán komur sem komst ekki upp að kantinum af því að það var ekki búið að dýpka. Það eru 110 milljónir, bara það skip. Síðan voru önnur skip sem áttu bókað við kantinn og þurftu að vera við ankeri. Þau borga þá minna fyrir að vera við ankerislægi heldur en að vera við kantinn,“ útskýrði Hilmar í desember.

Ekki aðeins tap fyrir hafnarsjóð

Sagði Hilmar áhrifi seinkunarinnar vitanlega ná til fleiri en hafnarsjóðs eins. Áðurnefnt skipið sem átti bókaðar fjórtán komur til Ísafjarðar í sumar hafi til dæmis yfirleitt tekið aukanótt á Akureyri í staðinn með tilheyrandi tjóni fyrir ferðaþjónustuna á Ísafirði.

„Það var til dæmis einn lítill einstaklingur sem er með jeppaferðir með fólk upp á fjöll og um einhverja slóða sem þurfti að endurgreiða 350 þúsund krónur eftir eina kanseleringuna,“ sagði hafnarstjórinn sem fór nánar í saumana á málinu í fyrrnefndri frétt frá því í desember.