Hafrannsóknastonfun leggur til að afli úthafsrækju fari úr 5.136 tonnum á fiskveiðiárinu 2021/2022 í 5.022 tonn á næsta fiskveiðiári. Hafrannsóknastofnun segir vísitölu ungrækju hafa verið lága allt frá árinu 2004 og hún hafi verið í sögulegu lágmarki frá 2015. Stofnvísitalan hafi þó verið nokkuð stöðug frá árinu 2012. Stofnmælingar síðustu ára bendi til að stofninn muni ekki stækka á næstu árum.

Á sama tíma hefur vísitala þorsks í stofnmælingu úthafrækju verið há frá árinu 2014 og var í hámarki árin 2016-2018. Einnig hafi mælst mikið af þorski í stofnmælingu botnfiska að vori og hausti undanfarin ár. Því sé líklegt að afrán á úthafsrækju hafi aukist á undanförnum árum.

Aflamark í úthafsrækju hefur verið í kringum 5.000 tonn frá fiskveiðiárinu 2014/2015 að undanskildum fiskveiðiárunum 2015/2016 og 2016/2017 þegar aflamarkið var nær 4.000 tonnum. Á þessu tímabili hefur afli verið umtalsvert minni en útgefið aflamark að undanskildu fiskveiðiárinu 2015/2016.