Verði nýtt frumvarp um veiðigjöld að veruleika munu greiðslur veiðigjalds árið 2023 verða 2,5 milljörðum hærri en að óbreyttu. Frumvarpið kemur frá Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.

„Breytingin snýr að því að jafna út sveiflur við útreikning á veiðigjaldi og felur ekki í sér hærri skattaálögur,“ segir í athugasemdum við frumvarpið.

„Að óbreyttum lögum er áætlað að veiðigjald ársins 2023 verði 7 milljarðar kr. Nái breytingin fram að ganga er áætlað að veiðigjald ársins nemi um 9,5 milljörðum kr. Til samanburðar var áætlað veiðigjald samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir árið 2023 8,3 milljarðar kr.“

Tilefni frumvarpsins er sagt vera það hve miklar sveiflur hafa verið á veiðigjaldi milli ára. Með breytingunum á að draga úr þessum sveiflum.

Nánar segir um tilganginn að einkum sé verið að „bregðast við víxlverkun á milli ákvæðis 5. gr. laga nr. 145/2018, um veiðigjald, og ákvæðis LXX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem heimilar að fyrna m.a. skip og skipsbúnað um 50% á ári vegna fjárfestinga á árunum 2021 og 2022.“

Skattinum verði falið að dreifa fyrningum skipa umfram tiltekna upphæð á fimm ár.

„Frumvarpið felur nánar tiltekið í sér að sett er þak á fyrningar skipa og skipsbúnaðar sem geta komið til frádráttar við útreikning á reiknistofni veiðigjalds skv. 5. gr. laga nr. 145/2018, um veiðigjald. Lagt er til að séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skuli Skatturinn dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár.“

Haft var samráð við bæði Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Landssamband smábátaeigenda (LS) og einnig var haft samráð við Skattinn og fjármála- og efnahagsráðuneytið.

„Frumvarpið á sér stuttan aðdraganda og ekki gafst tími til frekara samráðs,“ segir í athugasemdunum.

Vegna þaksins verður veiðigjald næstu ára verður hærra en áætlað var en lægra árin þar á eftir. Fyrningar sem „að óbreyttu kæmu að fullu til frádráttar rekstrarkostnaði einstakra fyrirtækja næstu eitt til tvö árin dreifast yfir á fleiri ár og verða í gangi í allt að fimm ár.“