Dágóð kolmunnaveiði hefur verið á gráa svæðinu milli Færeyja og Skotlands fyrir og eftir brælu sem gerði þar um helgina. Nokkur íslensk uppsjávarskip hafa verið þarna að veiðum ásamt færeyskum togurum og var Svanur RE til að mynda á heimleið með fullfermi sem fékkst í fimm holum.

Á Vopnafirði í dag

„Þetta hefur bara gengið framar vonum. Við tókum fyrsta holið hérna 4. apríl og svo lentum við í tveggja daga brælu. Að endingu fylltum við með fimm holum, alls um 1.670 tonn þannig að það er ljómandi fínn gangur í þessu. Við erum að leggja af stað til Vopnafjarðar og áætlum að vera þar seinnipartinn á morgun [í dag, miðvikudag]. Þetta er fínasti bræðslufiskur og svo verður bara farið aftur í partíið. Það er nóg eftir af kvóta,“ segir Bjarni Auðunsson sem hefur verið skipstjóri á Svan RE frá haustinu 2021 á móti Hjalta Einarssyni.

Í brælunni sló hátt í 30 metra á sekúndu og 6-7 metra ölduhæð. Lónað var upp í veðrið og beðið í tvo sólarhringa þar til það gekk niður. Eftir það gengu veiðarnar eins og í sögu enda mikill fiskur á svæðinu eftir hrygningu.

Enn óveidd 212.000 tonn

Hrygningarstofn kolmunna var metinn 6,6 milljónir tonna árið 2023 og ráðgjöf Alþjóðafiskveiðiráðsins um afla 2024 var 1.360.000 tonn. Kvóti til íslenskra skipa á yfirstandandi ári er 306.000 tonn og samkvæmt aflastöðu hjá Fiskistofu eru enn óveidd um 212.000 tonn.

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar voru á svipuðum slóðum á gráa svæðinu í góðri veiði. Ólafur Guðnason, stýrimaður á Berki NK, sagði að þeir væru á öðru holi enda komu þeir ekki á svæðið fyrr en í byrjun vikunnar þegar brælan hafði gengið niður.

„Við hífðum hérna 500 tonn í nótt á tíu tímum og útlitið er gott,“ segir Ólafur. Síldarvinnslan heldur á stærstu úthlutuninni í kolmunna, 91.500 tonnum, og enn hafa Síldarvinnsluskipin einungis veitt um þriðjung síns kvóta.