Jakob Valgeir ehf. fjárfestir í róbotakerfum fyrir hátæknifiskvinnslu sína í Bolungarvík sem er búin að vera í stöðugum vexti í mörg ár.

„Þessi lausn mun sjá um að pakka frosinni afurð í umbúðir fyrir útflutning og mun straumlínulaga alla pökkun. Kerfið er hannað til að vaxa með aukinni framleiðslu Jakobs Valgeirs og auðvelt er að bæta við kerfið samhliða auknum vexti fyrirtækisins” segir Jón Ragnar Gunnarsson, sölustjóri Samey Robotics ehf á Íslandi.

Jón Ragnar hjá Samey og Guðbjartur Flosason frá Jakob Valgeir handsala samninginn. Aðsend mynd
Jón Ragnar hjá Samey og Guðbjartur Flosason frá Jakob Valgeir handsala samninginn. Aðsend mynd

Samey Robotics og Arctic Fish undirrituðu einnig tímamótasamning í dag en þar er um að ræða kerfi sem getur staflað allri framleiðslu Arctic Fish á laxi í Bolungarvík á bretti með tveimur sjálfvirkum róbotakerfum.

„Samkvæmt útreikningum okkar verða þá fleiri róbotar að störfum í Bolungarvík en í nokkru öðru bæjarfélagi í heimi miðað við höfðatölu og setur það Bolungarvík í fremstu röð umbreytinga í átt að hátækni samfélagi með betri störf og meiri framleiðni" segir Kristján Ármannsson stjórnandi vélahönnunnnar hjá Samey Robotics.

Leiðandi í yfir 32 ár

Samey Robotics hefur í yfir 32 ár verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu íslensks iðnaðar og brautryðjandi í notkun róbota/þjarka í sjálfvirkni. Samey Robotics hefur með þessum lausnum aðstoðað fjölda fyrirtækja til lands og sjávar á farsælan og árangursríkan hátt við að auka framleiðni og rekstrarhagkvæmni. Á sjötta hundrað verksmiðjur og vinnslur í 25 löndum starfa í dag með kerfum frá Samey Robotics.

Verkefnastaðan hjá Samey Robotics er góð og yfir 40 róbotar í pöntun hjá fyrirtækinu.

„Við horfum björtum augum fram á veginn og búum að því að vera með flottasta starfsfólk í sjálfvirkni á Íslandi – Við erum og ætlum áfram að vera leiðandi afl í sjálfvirkni á Íslandi” segir Kristján Karl Aðalsteinsson sölustjóri Samey Robotics ehf.