Nýverið komu fulltrúar frá sænska vélaframleiðandanum Scania hingað til lands á vegum Kletts, þau Åsa Bennerstam viðskiptastjóri fyrir Ísland og Torben Dabrowski, sérfræðingur í orkuskiptalausnum bátavéla. Tilefnið var að kynna fyrir viðskiptavinum Kletts nýja lausn í rafvæðingu báta sem Scania hefur þróað undanfarin ár.

Sérfræðingar frá Scania komu hingað til lands á vegum Kletts. Þau eru Åsa Bennerstam, viðskiptastjóri fyrir Ísland, og Torben Dabrowski, sérfræðingur í orkuskipalausnum bátavéla. Með þeim á myndinni eru Sigurður Vilhljálmsson, sölustjóri aflvéla, og Kar Geirsson, sölufulltrúi Kletts.
Sérfræðingar frá Scania komu hingað til lands á vegum Kletts. Þau eru Åsa Bennerstam, viðskiptastjóri fyrir Ísland, og Torben Dabrowski, sérfræðingur í orkuskipalausnum bátavéla. Með þeim á myndinni eru Sigurður Vilhljálmsson, sölustjóri aflvéla, og Kar Geirsson, sölufulltrúi Kletts.

92% minni losun

Nýr rafmótor frá Scania ásamt háþróaðri dísilvél, myndar heildstætt hybrid-kerfi þar sem hægt er að keyra vélarnar saman eða nýta hvora um sig sem sjálfstæðan aflgjafa. Sérstaða þessarar lausnar samanborið við annað á markaðnum er að Scania hefur hannað og þróað allan pakkann; rafhlöður, rafmótor, brunahreyfil, mengunarvarnarbúnað, hugbúnað og stjórnkerfi. Hybrid-lausnin frá Scania skilar allt að 92% minni losun á CO2 og ef eingöngu er keyrt á rafmótor er losun CO2 um 98% minni.

Prófunarfasi

Scania hyggst ekki setja búnaðinn á markað fyrr en hann hefur verið fullreyndur og full þjónusta til staðar hjá umboðs- og þjónustuaðilum. Árið 2020 setti Scania hybrid-vél til reynslu í M/S Rex, 150 manna farþegaferju sem siglir milli Ekerö og miðborgar Stokkhólms. Rex var smíðaður 1937, uppfærður fyrir hybrid-rekstur 2020 og fékk svo nýju hybrid-vélina frá Scania 2023. „Við vildum sjá þetta virka fullkomlega áður en við förum með þetta á markað og þessi krefjandi notkun á búnaðinum hefur fært okkur innsýn, lærdóm og dýrmæta reynslu með því að setja hann í skip sem notað er í atvinnurekstri,“ segir Torben.

2 V8 dísilvélar og 2 rafmótorar

„Síðan höfum við smíðað nýjan bát, sautján metra langan sem vegur 20–21 tonn. Hann er búinn tveimur V8 dísilvélum, tveimur rafmótorum sem eru boltaðir á dísilvélarnar og fjórum 104 kWh rafhlöðum. Frá því við hófum vinnu við þennan bát 2020 höfum við farið um allan heim og rætt við rekstraraðila og skipasmíðastöðvar um verkefnið. Í kjölfarið höfum við aðlagað eitt og annað en á heildina eru viðbrögðin við þessari lausn á þann veg að við séum á hárréttri leið. Við verðum á bátasýningunni í Southampton í júní 2024 og getum þá sýnt mismunandi útfærslur á hvernig er hægt að keyra bátinn; eingöngu á rafmagni, á mismunandi hybrid-stillingum eða eingöngu á dísilvélunum,“ segir Torben.

150 manna farþegaferjan Rex, sem siglir á milli Ekerö og miðborgar Stokkhólms, er útbúin Scania Hybrid búnaði.
150 manna farþegaferjan Rex, sem siglir á milli Ekerö og miðborgar Stokkhólms, er útbúin Scania Hybrid búnaði.

Hentar til margvíslegra nota hérlendis

Hér á landi myndi hybrid-lausn henta í til dæmis hvalaskoðunarbáta, minni ferjur, dagróðrabáta og þjónustubáta fyrir fiskeldi. Klettur hefur verið í samtali við Norðursiglingu vegna verkefnis sem er enn á umræðustigi og þau Åsa og Torben skruppu því til Húsavíkur að hitta forsvarsmenn fyrirtækisins. „Við vildum skoða hvaða lausn myndi henta til að ná minnsta mögulega kolefnisspori í þeirra starfsemi með því að greina gögn um rekstur bátanna. Við viljum alltaf skilja eðli starfseminnar og hvar metnaður okkar viðskiptavina liggur til að vera viss um að geta framkvæmt það sem þeir vilja. Ef við teljum okkur ekki geta það viljum við ekki fara af stað með verkefnin,“ segir Torben Dabrowski.

Pilot Scania bátur sem útbúinn er Scania Hybrid búnaði.
Pilot Scania bátur sem útbúinn er Scania Hybrid búnaði.

„Höfum trú á verkefninu“

Heimir Harðarson er einn stofnenda og eigenda Norðursiglingar: „Við erum með 12 báta í rekstri og næstu ár verður áherslan á „grænni flota“ með umhverfisvænni orkugjöfum. Þegar aðili eins og Scania er að þróa heildarlausn á þessu sviði erum við eðlilega spennt að koma að því borði. Við höfum reynslu af dísilvélum frá Scania í fjórum af okkar bátum og höfum því trú á þessu verkefni. Hljóðlátari bátar með minni útblæstri gera það að verkum að fólk mun njóta náttúrunnar betur; hvort sem það er við hvala- og fuglaskoðun eða annars konar náttúruupplifun.“