Bylting hefur orðið í nýtingu sjávarafla á Íslandi undanfarinn áratug eða svo. Það er slegist um roð af bolfiski sem í auknum mæli er nýtt til dæmis til framleiðslu á kollageni til framleiðslu á fæðubótarefnum og fleiri afurðum, Kerecis þarf reyndar ekki mikið magn af þorskroði til að skapa mikil verðmæti, hrogn og lifur eru eftirsóttar aukaafurðir og svo mætti lengi telja. En grásleppan hefur setið á hakanum.

Grásleppa er aðallega veidd vegna hrogn[1]anna og sá markaður er óstöðugur svo ekki sé meira sagt. Hrogn eru heldur ekki nema brot af heilli grásleppu. Eini markaðurinn fyrir hveljuna var Kína en hann lokaðist í Covid-faraldrinum. Síðan hefur henni að mestu verið fargað, fleygt í sjóinn sem er andstætt öllum markmiðum um fullnýtingu sjávarafurða.

Nú er komin hreyfing á úrlausnir í þessum efnum á vegum Biopol á Skagaströnd sem hefur stundað rannsóknir á nýtingu grásleppuhvelju bæði til framleiðslu á kollageni og til manneldis með flökun og reykingu aðallega fyrir erlenda markaði. Nokkrar afurðir úr grásleppuhvelju verða til að mynda kynntar á sjávarútvegssýningunni í Barcelona í næsta mánuði og ku þar vera um að ræða lostæti sem gæti fallið mönnum og mörkuðum vel í bragðlauka.

Kollagen úr hvelju

Hjörleifur Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, fer fyrir sameiginlegri rannsókn Biopol og Háskólans á Akureyri um nýtingu kollagens úr grásleppuhveljum. Íslenski hluti verkefnisins er styrktur af Rannís en meðal þátttakenda eru aðrar þjóðir, þar á meðal Norðmenn sem framleiða mikið magn af hrognkelsum á hverju ári sem nýtt eru sem lúsaætur í laxeldi. Hjörleifur segir grunninn fyrir þessum tveimur rannsóknum, þ.e.a.s. nýtingu kollagens úr roðinu og flökun og reykingu afurða úr grásleppu sem fer fram hjá Biopol á Skagaströnd, vera þau lög sem eru í landinu um að nýta allan afla sem berst að landi.

Unnið við handflökun á grásleppu.
Unnið við handflökun á grásleppu.

„Það er ekki sjálfbært til lengri tíma að henda grásleppuhvelju í sjóinn og alls ekki umhverfisvænt. Okkar rannsókn gengur út á það að skilja skinnið frá hveljunni og finna aðferðir til að vinna kollagen úr því. Í sjálfu sér er þetta ekkert nýtt og var framkvæmt á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fyrir mörgum árum en við erum að taka upp þráðinn,“ segir Hjörleifur.

Kollagen hefur verið unnið í smáum stíl á rannsóknastofu Biopol á Skagaströnd en nú var farið út í umfangsmeiri vinnslu í aðstöðu Biopol í Breið á Akranesi. Hjörleifur segir of snemmt að greina frá árangrinum en sýni úr framleiðslunni séu farin norður til frekar greiningar. Auk kollagens er hægt að vinna prótein úr roðinu.

Falla til 4.500- 5.000 tonn á ári

Samstarf er við grásleppuveiðimenn sem selja hrognin en færa rannsóknaraðilunum hveljuna til rannsókna og nýtingar. Á hverju ári falla til á bilinu 4.500-5.000 tonn af hvelju, eða öllu heldur því sem eftir er af grásleppunni þegar hrognin hafa verið hirt. Skinnið af þessari hvelju gæti verið nálægt 2.000 tonnum og hægt er að vinna kollagen úr ákveðnu hlutfalli af því. Hjörleifur segir að verð á kollageni sé afar breytilegt eftir gæðum og mörkuðum, eða allt frá nokkur hundruð krónum kílóið yfir í 100.000 kr.

Verkefni Biopol hefur m.a. einnig falist í því að reikna út kostnað við að ná skinninu af hveljunni, tímamæla það og margfalda með launakostnaði.

„Einn þáttur í verkefninu er líka athugun á því hvort hægt sé að vélvæða roðflettinguna. Við erum því að horfa heildstætt á verkefnið og leita leiða til þess að gera þetta á hagkvæmastan hátt og vinna sem mest verðmæti úr hveljunni.“