„Suður-Kórea vinnur að auka hjá sér fullnýtingu og hafa horft til þess hvað önnur lönd eru að gera,“ segir Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, sem í febrúar sótti ráðstefnu um fullnýtingu í Seúl í Suður-Kóreu.

Ráðstefnan bar yfirskriftina 2024 International Zero Waste Fisheries Forum og fór fram dagana 20. og 21. febrúar. Hana sóttu um 200 manns, þar af margir frá kóreskum iðnaði, háskólum og rannsóknastofnunum auk  þess sem nokkrum fyrirlesurum frá Íslandi, Noregi og Japan var boðið að taka þátt.

„Ég var svo  sem ekki að kynna ákveðið verkefni heldur fjalla um hvernig fullnýtingu er háttað á Íslandi og hvaða verkefni Matís hefur unnið að á því sviði,“svarar Margrét spurð um hvaða verkefni frá Íslandi hún hafi kynnt.

Árangur Íslands vekur eftirtekt

„Það vekur mikla athygli hvernig Ísland stendur að málum og íslensk fyrirtæki eins og Kerecis og Marine Collagen vekja mikla athygli,“ segir Margrét um undirtektir ráðstefnugesta.

Varðandi það hvort Ísland standi framarlega í heiminum varðandi fullnýtingu segir Margrét að Íslendingarnir veki mikla athygli alls staðar þar sem þau fara.

„Fólk er mjög spennt og undrandi þegar það heyrir af öllum verkefnum og sprotafyrirtækjum sem hér eru. Hér eru lykilatriði gæði og magn þess hráefnis sem við höfum aðgang að. En ekki síður hlutir sem stjórnvöld hafa komið að eins og stofnun AVS-sjóðsins og skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar,“ segir Margrét.

En þótt við stöndum framarlega er enn ýmislegt óunnið í þessum efnum. Margrét segir mikið af verkefnum og fyrirtækjum vera í gangi á þessu sviði.

Finna áfram nýjar leiðir

„Á Íslandi þurfum við að halda áfram með okkar vinnu og stefna að því að finna fleiri leiðir til fullnýtingar, en ekki síður að auka magnið sem fer í verðmiklar vörur en minnka til dæmis það sem fer í verðminni vörur eins og fiskimjöl. Að stærri hluti fari í matvæli og minni hluti í fóður,“ nefnir Margrét um það sem betur megi fara.

„Svarið er bæði já og nei,“ svarar Margrét spurð hvort Íslendingar geti flutt út þekkingu á þessu sviði. „Margt sem hér er í gangi byggir á þekkingu og rannsóknum sem hafa verið birtar annars staðar. Og við hjá Matís erum alltaf í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir erlendis sem innan lands svo að „sjálfbær“ þekking komi út og inn,“ segir Margrét.

Reglugerðir trufla í Kóreu

Að sögn Margrétar var margt áhugavert kynnt á ráðstefnunni þótt það væri svo sem ekkert sem hún hefði ekki séð áður. En hún hafi séð mikla möguleika á samstarfi. „Til dæmis  þá er í Kóreu mikið magn af hliðarhráefni frá nýtingu á þangi og skelfiskrækt, sem lítið sem ekkert er til staðar hjá okkur,“ segir hún.

Margrét Geirsdóttir flytur erindi 2024 International Zero Waste Fisheries Forum Mynd/Matís
Margrét Geirsdóttir flytur erindi 2024 International Zero Waste Fisheries Forum Mynd/Matís

Aðalvandamálið í Suður-Kóreu hvað þetta varðar segir Margrét vera reglugerðir sem komi í veg fyrir nýtingu á hliðarhráefni. Þau hafi mikinn áhuga á að heyra meira um það og hvernig sérstök fjárveiting eins og frá AVS kom málum af stað hér.

„Mesta athygli vekur þó kraftur og áræðni Íslendinga við stofnun á sprotafyrirtækjum.“

Ferðin minnkaði heiminn

Varðandi framtíðina er áríðandi að þjóðir deili þekkingu sinni á þessu sviði. „Það er mjög mikilvægt að vinna saman á heimsvísu til að auka fullnýtingu og minnka úrgang,“ segir Margrét sem kveður heimsóknina til Suður-Kóreu hafa verið mjög áhugaverða.

„Bæði til að læra hvað er í gangi í Kóreu og ekki síður að kynnast fólki alls staðar að og sjá hvað við erum öll lík og horfumst í augu við svipuð vandamál,“ segir Margrét og nefnir í lokin áhugaverða upplifun á stórum fiskmarkaði í Seúl. „Þar smakkaði ég meðal annars kæsta skötu, borna fram með chili sósu. Ferðin minnkaði sannarlega heiminn.“