Barði NK, Beitir NK og Börkur NK eru öll að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er haft eftir við Hálfdani Hálfdanarsyni, skipstjóra á Berki. að ágætlega hafi gengið.

„Veðrið hefur verið gott og það er töluvert að sjá af fiski. Við erum að veiða á gráa svæðinu syðst í færeysku lögsögunni. Hérna eru mörg skip, bæði íslenski og færeyski kolmunnaflotinn og svo eru rússnesk skip einhvers staðar í grenndinni,“ segir Hálfdan á svn.is.

„Við erum búnir að taka þrjú hol og komnir með rúmlega 1.800 tonn,“ heldur Hálfdan áfram. „Það er ekki lengi dregið eða frá fimm og upp í tíu tíma. Tvo holanna gáfu um 500 tonn og eitt gaf 800 tonn. Það er ekki hægt að vera annað en sáttur við svona aflabrögð.”

Þá kemur fram að í morgun var Beitir kominn með um 1.000 tonn um borð og var að byrja að dæla. Barði var kominn með um 1.400 tonn og var að toga. Hákon EA er á landleið með um 1.600 tonn og mun landa á Seyðisfirði. Er Hákon væntanlegur þangað um hádegi á morgun.