Fyrst fór Siggeir árið 2003 til Brasilíu til þess að veiða túnfisk en hefur síðan komið víða við í veiðum og sölumálum. Hann býr ásamt brasilískri konu sinni og börnum á Íslandi en ver drjúgum tíma í Brasilíu. Hann er brasilískur ríkisborgari sem hann segir lykilinn að því að komast áfram í atvinnugreininni þar í landi.

Siggeir er fæddur á Stykkishólmi 1973. Faðir hans, Pétur Ágústsson, gerði út vertíðarbátinn Sif SH 3, á hörpudisk, net, línu, nót og humartroll. Hann og eiginkona hans, Svanborg Siggeirsdóttir, stofnuðu árið 1986 fyrirtækið Eyjaferðir sem hélt uppi ferðum um Breiðafjarðareyjar. Seinna varð fyrirtækið að Sæferðum sem hélt uppi ferjusiglingum frá Stykkishólmi til Flateyjar, þar sem Pétur fæddist, og Brjánslæks ásamt farþegasiglingunum um Breiðafjörð. 15 ára var Siggeir farinn að standa við stjórnvölinn í farþegabátunum og svo í ferjunni eftir að Sæferðir tóku við ferjusiglingunum. Meðfram þessu keypti hann þorskhrogn fyrir Mill´s kavíar í Noregi. Hrognin keypti hann á fiskmarkaðnum og lét ofan í tunnur. Á tímabili var hann einn stærsti útflytjandi þorskhrogna á landinu.

Komdu að veiða túnfisk

Árið 2003, þegar Siggeir var að senda síðustu hrognatunnurnar til Noregs, kom félagi hans að máli við hann. Hann var að leita að samstarfsmanni til þess að fara til Brasilíu til þess að veiða túnfisk. Siggeir vildi skoða málið og fór utan. Hann komst fljótlega að því að túnfiskleyfin sem til þurfti til að hefja veiðarnar voru ýmsum annmörkum háð og voru í raun ekki seld heldur eru bundin bátum.  Í Brasilíu er ekki kvótakerfi eins og við þekkjum það heldur byggja veiðarnar á leyfum, hvort sem um er að ræða túnfiskveiðar, rækjuveiðar, glefsingjaveiði (e. red snapper), almenn leyfi og piramutaba leyfi. Piramutaba er ferskvatnsfiskur sem hrygnir í vesturhluta Amazon fljótsins.

„Piramutaba er mikilvægasta tegundin sem veidd er úti fyrir ósum Amazon og í fljótinu sjálfu á vissum árstíma. Þetta er fiskur af kattfiskaætt (e. catfish) og eftirsóttur matfiskur í Brasilíu. Önnur mikilvæg tegund er svokallaður pescado go sem veiddur er í botntroll með tréhlerum,“ segir Siggeir.

Í aðgerð á red snapper sem á íslensku hefur kallast rauðglefsir og er af ættbálki borra.
Í aðgerð á red snapper sem á íslensku hefur kallast rauðglefsir og er af ættbálki borra.

Túnfiskleyfin eru bundin við bátana og Siggeir segir að auðveldast sé að fá þau af öllum leyfunum. Helst eru veiddar tvær tegundir, þ.e. guluggatúnfiskur (e. yellowfin) og gláparatúnfiskur (e. bigeye). Farið er á 20-25 metra löngum bátum allt að 300 sjómílur út frá landi og dvalist er við veiðarnar í allt að 40 daga.

Siggeir ætlaði að stunda túnfiskveiðarnar út frá Maceió, miðja vegu milli borganna Salvador og Natal.

„Ég og félagi minn leigðum okkur bát með leyfi. Fiskurinn er seldur ferskur til Bandaríkjanna en þetta var erfiður bransi og með hækkandi beituverði var þetta vonlaust. Þarna heilbeita menn smokkfisk og hafa 80 metra á milli króka á 56 mílna langri línu. Túnfiskur er yfirleitt í 100 metra breiðum torfum og þeir synda alltaf þvert á línuna. Við vorum að reyna að segja þeim að koma fleiri krókum í hafið. En allt var þetta gert að bandarískri fyrirmynd en Bandaríkin eru kannski ekki fremsta fiskveiðiþjóð heims,“ segir Siggeir.

Þetta ævintýri tók rúmt eitt ár og Siggeir taldi fullreynt að reyna að hafa eitthvað upp úr þessum veiðum.

Selur fisk í Belo Horizonte

Hann flutti sig um set frá Maceió til Joäo Pessoa þar sem hann kynntist konu sinni. Þar reyndi hann líka fyrir sér á sardínuveiðum. Þaðan lá leiðin til Natal og síðan til Belem við bakka Amazon þangað sem þau hjónin fluttu í byrjun árs 2017. Þau héldust þó ekki lengi við í Belem því þar er gríðarlegur loftraki og myglumyndun í húsum. Kona Siggeirs þjáist af ofnæmi fyrir myglu og var ákveðið að prófa að búa á Íslandi og þar hóf hún rekstur gistiheimilis.

Kvikindin sem koma úr hafinu við strendur Brasilíu eru mörg ekki árennileg. Þessi langkjaftur er eitt af furðufyrirbærum náttúrunnar.
Kvikindin sem koma úr hafinu við strendur Brasilíu eru mörg ekki árennileg. Þessi langkjaftur er eitt af furðufyrirbærum náttúrunnar.

Siggeir var hinsvegar áfram í Belem í 3 ár og er með annan fótinn þar ennþá. Nú síðast hélt Siggeir til í borginni Belo Horizonte. Þar starfrækir hann fyrirtækið Pos Proteína; kaupir frystan fisk í Parintins sem fluttur er með ferju sex daga leið til Belem. Þaðan trukkar Siggeir fiskinn suður til Belo Horizonte og selur á mörkuðum þar. Aðallega hefur hann verslað með sorubim sem er annar ferskvatnsfiskur af kattfiskaætt sem þykir sannkallaður herramannsmatur. En Siggeir er með mörg önnur járn í eldinum.

„Fiskimiðin eru gjöful allt í kringum landið. En ástæðan fyrir því að fiskveiðar eru ekki í forgangi hjá Brasilíumönnum er sú að þeir hafa nóg af öllu öðru. Í landinu er olía, gull, kaffi, salt, soja, kjöt og kjúklingur fyrir utan allan túrismann. Það er enginn sérstakur hvati til fiskveiða í landinu eins og hjá okkur þar sem við sem þjóð, urðum að sækja björg í bú úr hafinu. Í Brasilíu skiptir tíminn heldur engu máli. Menn taka bara sinn tíma í róðrum og koma svo í land og eru þá kannski hálfan mánuð í landi. Það er ekkert tiltökumál heldur að vera tveimur tímum of seinn á fund.“

Sardína á stærð við síld

Siggeir segir helstu fiskveiðiborgirnar í landinu Belem í norðurhlutanum og Itajai í suðurhlutanum. Þarna veiðast gerólíkar tegundir enda Brasilía með stærstu löndum heims, með fjölbreytilegu lífríki og strandlengju upp á 7.600 km. Það tekur tíu klukkustundir að fljúga eftir strandlengunni í farþegaþotu.

Ansjósa er ein af auðlindum hafs í Suður-Ameríku. Lífmassi bonaerense stofnsins, sem Brasilía, Uruguay og Argentína, deila milli sín, er talinn vera á hverju ári á milli 600.000 til 4,5 milljónir tonna. Talið er að unnt væri að nýta um 135.000 tonn af þessum stofni með sjálfbærum hætti við strendur Brasilíu. Þar eru samt engar veiðar stundaðar á ansjósu.

Uruguay og Brasilía eru samtals með um 240 tonn ansjósukvóta og veiða urugæjarnir allan sinn kvóta. Á sama tíma og ansjósan gengur allt upp að Itajai gengur sardínan, sem er á stærð við síld, nær landi og grynnra. Brassarnir veiða hana á litlum bátum en ansjósan, sem gengur á miklu dýpi, syndir óáreitt hjá. Þegar Siggeir var að reyna fyrir sér á sardínuveiðum í Joäo Pessoa hafði hann spurnir af dráttarbát sem keyrði á 9 mílum í 40 mínútur með 30 metra lóð undir sér allan tímann.

Siggeir setti upp sjálfvirkar veiðarfæravindur frá DNG á Akureyri um borð í einn bátinn. Myndir aðsendar.
Siggeir setti upp sjálfvirkar veiðarfæravindur frá DNG á Akureyri um borð í einn bátinn. Myndir aðsendar.

Frá því hann fór að venja komur sínar til landsins fyrir sautján árum hefur hann unnið að verkefnum í frystihúsum, lagt sitt af mörkum í að karavæða fiskiskip og stuðla að betri meðhöndlun afla. Hann segir að nú sé svo komið að menn leiti til sín til þess að laga til í rekstri og veiðum. Um skeið rak Siggeir frystihús í Belem þar sem störfuðu 180 manns. Þar var unninn piramutaba. Þegar hann kom þangað fyrst var fiskurinn um 23 gráðu heitur þegar hann loks fór inn í frystitækin. Honum tókst að lækka hitastigið í vinnslunni niður í 6-7 gráður með því að breyta vinnslulínunni. Hann segir verkefni af þessu tagi nær óþrjótandi í fiskvinnslu í Brasilíu.

Róið út frá árósum Amazon

Siggeir er í góðum tengslum við stærstu útgerðina í Belem sem er með yfir 30 150 tonna báta sem veiða rækju, pescado go og piramubata. Þessi útgerð gerir einnig út báta í Itajai.

Covid 19 setti tímabundið strik í reikninginn hjá Siggeir. Hann hafði undirbúið að hefja veiðar úti fyrir norðurströnd Brasilíu á grouper og red snapper, sem er hvítfiskur sem líkist karfa. Fyrir hann fást um 600 krónur á kílógrammið upp úr bát á markaði. Ólympískar veiðar eru leyfðar á red snapper eins og á öðrum tegundum. Fiskurinn er seldur á góðu verði í Bandaríkjunum. Atlantic goliath grouper er ránfiskur sem getur orðið 2,5 m á lengd og vegur allt að 450 kg.

„Ég leigði bát, keypti tæki hjá Brimrúnu og fékk lánað hjá fyrirtækinu slatta af alvöru tækjum og fór í 15 daga túr. Ég keyrði í 500 mílur út frá árósum Amazon og báturinn gekk sex mílur,“ segir Siggeir. Hann hafði nútímavætt bátinn að nokkru leyti og meðal annars sett upp DNG rúllur. Þá hafði hann með sér kör og ísaði fiskinn vel. Búnaður af þessu tagi þekkist ekki í landinu. Brasilíumennirnir sem stunda þessar veiðar draga línuna með höndunum og blóðga ekki.

„Þarna er kantur á um 200 metra dýpi og þar er grouper alveg í bunkum. Þetta er línufiskur og þarna má veiða eins og maður getur. Verðið er á þessum fisk fer upp í 600 kr. kílóið en er núna 350 kr.  því hann er ekki veiddur mikið þarna núna. Hann er yfirleitt dýrari en red snapper og þar af leiðandi mun verðið eflaust fara hærra eða svipað og er á red snapper í dag. Þessi fiskur fer allur á Bandaríkin. Red snapper er slægður en alls ekki hausaður. Í vinnslunni í landi eru tálknin skorin frá og fiskurinn afhreistraður og síðan heilfrystur með haus. Ég blóðgaði með því að skera hann í tálknin en Brasilíumennirnir blóðga ekki. Þetta er gæðafiskur og umtalaður matfiskur víða um veröld en meðferð á hráefninu er alveg út úr kortinu þarna.“

Með réttum græjum segir Siggeir lítið mál að ná 50 tonnum á mánuði og miðað við afurðaverðið gæti það skila um 30 milljóna kr. í aflaverðmæti.

Siggeir notaði túrinn til þess að kynnast þessum veiðum. Honum leist vel á framhaldið og var að undirbúa kaup á báti þegar Covid 19 fór að breiðast út í landinu. Öll plön á þessu sviði hafa því verið lögð á hilluna en þegar blaðamaður settist niður með Siggeir var hann að undirbúa ferð til Chile. Þar býr frændi hans, og starfar við fiskveiðar. Svipaðar aðstæður eru þar, þ.e.a.s. að menn þurfa leyfi til að fiska og verðin eru góð. Siggeir segir auðveldara að eiga við hluti sem snúa að fiskveiðum í Chile en Brasilíu í faraldrinum sem nú geisar.

„Chile er lengra komin sem fiskveiðiþjóð. Þarna stefnum við á tilraun í línuveiðum og ég ætla þangað með DNG rúllurnar mínar. Það eru tækifæri líka í Chile og allt byggir þetta á því að gera hlutina rétt,“ segir Siggeir.

Trollhleri úr timbri er þekkt tól við fiskveiðar í Brasilíu.
Trollhleri úr timbri er þekkt tól við fiskveiðar í Brasilíu.