„Ég segi nú bara allt bærilegt miðað við það sem á undan er gengið,“ sagði Kristján Ólafsson skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK þegar haft var samband við hann í byrjun viku. Skipið var þá komið til Hafnarfjarðar til að sækja nýja toghlera. Skipið hafði áður orðið vélarvana um 80 sjómílur norð-norðvestur af Straumnesi. Á sama tíma nálgaðist hafís úr norðri. Sáu menn ekki önnur ráð en að klippa á togvírana, sleppa veiðarfærinu í hafið og fá varðskipið Freyju til að draga sig í átt að landi.

„Það var röð atvika sem varð þess valdandi að skipið varð vélarvana. Upphaflega gaf sig hosa á kælivatninu fyrir vélina svo það varð að drepa á henni. Bununa af kælivatninu lagði svo beint yfir loftinntökin á ljósavélinni. Hún gleypti því í sig kælivatnið og það fór því strax að draga úr henni og drapst á henni að lokum. Þá vorum við orðnir algjörlega vélarlausir. Það var lítið mál að gera við sjálfa hosuna og ná vatninu út af ljósavélinni og hreinsa hana. Til að ná aðalvélinni í gang þurftum við fyrst að ná ljósavélinni í gang. En hún var erfið viðureignar og að endingu kláraðist loftið. Það vill svo til að við höfum tiltæka eina litla ljósavél sem dugar til að koma aðalvélinni í gang en þegar átti að grípa til hennar kom í ljós að startarinn var bilaður. Þessi vél var síðast sett í gang á nýársdag og var þá í fínu lagi. Þarna sátum við því loftlausir, rafmagnslausir, allslausir og með trollið úti,“ segir Kristján.

Regnbogi rammaði inn aðgerðasvæðið með tignarlegum hætti.
Regnbogi rammaði inn aðgerðasvæðið með tignarlegum hætti.
© Guðmundur St. Valdimarsson (GstV)

Frost í brúnni

Vistin um borð var hráslagaleg, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það var fljótt að verða kalt þegar kyndingin fór af og í brúnni var hitastigið komið undir frostmark. Það var sex stiga frost á þessum slóðum og sjórinn var mínus 1,6 gráður.

„Á bara tveimur tímum varð ískalt um borð í skipinu. Menn var kappklæddir og svona var þetta alveg frá miðnætti fram til um tvöleytið daginn eftir. Og ekki ljóstíra á skipinu allan tímann. Það var allt orðið rafmagnslaust og öll tæki farin út. Neyðarlýsingin var meira að segja dottin út,“ segir Kristján.

Hrafn Sveinbjarnarson í krapasjó og búinn að losa sig við trollið.
Hrafn Sveinbjarnarson í krapasjó og búinn að losa sig við trollið.
© Guðmundur St. Valdimarsson (GstV)

Svo vel vildi þó til að það var renniblíða og Kristján segir að það hafi aldrei verið nokkur hætta á ferðum. Seinnipart á laugardag hafði hann samband við Landhelgisgæsluna og úr varð að varðskipið Freyja, með Guðna Th. Jóhannesson forseta innanborðs, brást við og kom til móts við skipið um ellefuleytið um kvöldið. Freyja hafði þá verið á leið til Patreksfjarðar þar sem forseti Íslands og fulltrúar Landhelgisgæslunnar ætluðu að vera við minningarathöfn á sunnudag um þá sem fórust þar í miklum krapaflóðum fyrir 40 árum. Reynt var alla nóttina að koma vélunum í gang með tækjabúnaði frá varðskipinu. Það gekk þó ekki sem skyldi og hafísinn nálgaðist skipin hratt. Því var að endingu brugðið á það ráð upp úr hádegi á sunnudag að skera á togvírana og taka skipið í drátt.

Ís í desert

„Við horfum á ísinn æða að okkur og það endaði með því að við féllum á tíma. Við fengum ís í desert eftir allt þetta ævintýri,“ segir Kristján.

Skipið hafði verið í um tvo tíma drætti þegar tókst að koma ljósavélinni og aðalvélinni í gang og gat það þá siglt fyrir eigin afli. Þá var stefnan tekin á Hafnarfjörð til að sækja nýja toghlera.

Lofthiti var -6° og sjávarhiti -1,6° þar sem Hrafn Sveinbjarnarson var vélarvana.
Lofthiti var -6° og sjávarhiti -1,6° þar sem Hrafn Sveinbjarnarson var vélarvana.
© Guðmundur St. Valdimarsson (GstV)

„Ég held það verði ekkert mál að ná trollinu upp ef við fáum frið fyrir ísnum. Ég er með góða staðsetningu á því og botninn er ekki slæmur þarna. Veiðin þarna var um tonn á tímann og miðað við það voru komin tvö til þrjú tonn í trollið. Ég hef grun um að það verði ís á þessu svæði miðað við þessar suðvestanáttir þessa dagana. En nú sækjum við bara nýja hlera og við erum með aukatroll. Svo sætum við bara lagi til að ná í hitt trollið,“ segir Kristján.

Það var stutt stopp í Hafnarfirði á mánudag hjá Hrafni Sveinbjarnarsyni. Sóttir voru nýir hlerar og var skipið komið á veiðar á ný í Víkurál strax á þriðjudegi.