Sáttatónn er í Audun Maråk, framkvæmdastjóra Fiskebåt, í grein sem hann skrifar í norska Fiskeribladet. Hann er þar að svara Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, kollega sínum eins og hann kallar framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Maråk hafði sakað íslenskar útgerðir um að falsa aflatölur, síld hafi verið landað sem makríl. Heiðrún Lind svaraði þeim ásökunum fullum hálsi og sagði strangt eftirlit með löndun koma í veg fyrir möguleikann á slíku.

Maråk segist hafa fengið upplýsingar sem vöktu grunsemdir, en tekur nú fram að misræmið sem hann sá gæti hafa verið tilviljun.

„Að lokum skulum við leggja víkingasverðið niður og koma á uppbyggilegum samræðum milli Íslands og Noregs, þar sem báðir aðilar stefna að því að finna lausn," skrifar Maråk.

Stíft fundað í London

Þetta segir hann þegar mikil vinna hefur verið lögð í að ná samkomulagi um veiðar úr makrílstofninum í Norðaustur-Atlantshafi. Bretar hafa lagt mikla áherslu á það og kallað fulltrúa strandríkjanna margoft til fundarhalda í London það sem af er árinu, og áttunda samningalotan verður haldin nú í byrjun desember.

Fiskeribladet ræddi fyrr í vikunni við Ola Christian Olsen, varaformann í Pelagisk forening, samtökum norskra uppsjávarútgerða, sem sagði allt lagt undir í þessum viðræðum, en þær hafi verið erfiðar.

Hann segir að eitt af því sem flækir málin sé brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu. Meðan Bretar voru í Evrópusambandinu hafði verið samið um aðgang Norðmanna að bresku hafsvæði, en bresk stjórnvöld vilja takmarka þann aðgang.

Einnig var rætt við Maråk sem sagði að erfitt yrði að finna lausn sem henti öllum strandríkjunum, en erfiðast verði þó að finna lausn sem gangi upp gagnvart Rússlandi.

Eins og mörg undanfarin ár hafa ríkin ekki náð samkomulagi um að veiða í heild ekki meira en sem nemur ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, en undanfarin ár hefur hvert ríki úthlutað sjálfu sér veiðiheimildum sem samanlagt leiða til þess að veitt er langt umfram ráðgjöfina.