Mikil mildi var þegar fjórtán skipverjum af loðnubátnum Sæbjörgu VE frá Vestmannaeyjum var bjargað í land í björgunarstólum eftir að skipið strandaði í Hornsvík, skammt austur af Stokksnesi, 17. desember 1984. Einn af skipverjunum fjórtán var Óskar P. Friðriksson.

„Vél bátsins bilaði og hann rak stjórnlaust upp í fjöruna. Veðrið var slæmt og útlitið ekki gott því við hefðum getað lent á Stokksnesi þar sem öldur brotnuðu á klöppum langt út í sjó.  Einnig var um tíma hætta á því að við lentum á Hafnartanga þar sem braut yfir það og engin aðstaða fyrir björgunarsveitarmenn að athafna sig. Við strönduðum á besta stað, úr því sem komið var. Björgunarfélagið á Hornafirði bjargaði allri skipshöfninni 14 manns í land með fluglínutæki,“ rifjar Óskar upp.

Óskar segist alltaf hafa litið inn í Hornsvíkina þegar hann var á sjó eftir strandið þegar siglt var þar fram hjá og bjart var úti.

„Og alltaf sá maður flakið í fjöruborðinu. Ég hætti síðar á sjó en sigldi þarna fram hjá á loðnuvertíðinni 2017 er ég var með strákunum á Heimaey VE 1. Ekkert var að sjá í Hornsvík þann daginn enda skipið horfið.“

Morgunblaðið 18. desember 1984
Morgunblaðið 18. desember 1984

Farið austur í Hornsvík

Þegar 30 ár voru liðin frá strandinu ritaði Óskar söguna eins og hann mundi hana. Hann vildi hafa allt eins rétt og hægt var. Hann ræddi lengi við Guðbrand Jóhannsson sem hafði verið formaður Björgunarfélagsins á þeim tíma sem Sæbjörgin fórst og tók þátt í björguninni. Guðbrandur sendi Óskari gögn úr bókum Björgunarfélagsins þar sem tímasetningar komu vel fram, eins og hvenær fyrsti skipbrotsmaðurinn var dreginn í land og hvenær sá síðasti.

.
.

„Það var tilkomumikil stund haustið 2020 að keyra að húsi Björgunarfélagsins á Hornafirði og flestir þeir sem tóku þátt í björgun okkar skipbrotsmanna á Sæbjörgu VE 56, 17. desember 1984 voru mættir til að hitta mig. Ég gekk að hverjum og einum, tók í hendur og sagði það sama við alla, „takk fyrir síðast“. Við stóðum í smá stund þarna og spjölluðum saman. Ég fann það að þessum ágætu mönnum þótti það eins gott að hitta mig eins og mér þótti það að hitta þá.“

Náttúruundrið

„Það fóru fimm Björgunarfélagsmenn með okkur Eyjamönnunum í Hornsvíkina. Hún er ótrúlega fallegt náttúruundur þessi vík og sennilega er þetta eini staðurinn á Íslandi þar sem maður nánast gengur á sjónum, eða svo virðist það vera. Gjaldskylda er fyrir þá sem vilja fara í víkina en hliðið var opnað fyrir okkur án þess að við þyrftum að borga. Guðbrandur sagði okkur á leiðinni frá Stokksnesi að vörubíllinn með fluglínutækjunum hefði verið uppi á veginum og þaðan voru 130 metrar í Sæbjörgu,“ rifjar Óskar upp.

Haustvertíðin á loðnu var ævintýralega góð hjá áhöfninni á Sæbjörginni. Myndin er tekin fáeinum vikum fyrir hinn örlagaríka dag. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Haustvertíðin á loðnu var ævintýralega góð hjá áhöfninni á Sæbjörginni. Myndin er tekin fáeinum vikum fyrir hinn örlagaríka dag. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Það var þá sem Óskar gerði sér fyrst ljóst hvað þeir skipsverjarnir höfðu verið dregnir langa leið frá hinu strandaða skipi og upp í fjöruna. Einnig kom það Óskari mjög á óvart að það var bara eitt sker á strandstaðnum en allir um borð töldu að þau hefðu verið tvö.

„Guðbrandur og félagar hans sýndu okkur stóran klett sem þeir festu blakkir í til að rétta Sæbjörgu þegar þeir björguðu verðmætum úr henni. Þeir sögðu okkur frá þeim feiknarkrafti sem þurfti til að rétta skipið og við sáum hvað hafði brotnað úr berginu við þessi átök,“ segir Óskar.

Nótin og vélin í fjörunni

Það kom Óskari mikið á óvart þegar hann sá hluta af nót Sæbjargar ofarlega í fjörunni.

„Ég vissi að þessi veiðarfæri eru gerð úr sterku og endingagóðu efni en mig furðaði að nótin var enn til þótt Sæbjörg væri horfin. Ég gekk niður að skerinu og með því vestan megin og þá sá ég vélina sem var í Sæbjörgu. Það var þá eitthvað enn eitthvað eftir af skipinu sem ég var á þegar ég var ungur maður haustið 1984.  Ég átti sennilega 4-5 metra eftir í vélina þegar ég komst ekki lengra,“ segir Óskar sem lýsir því hvernig hann stillti sér upp með Björgunarfélagsmönnunum fimm sem komu með austur í fjöru.

„Nú kom sér vel að vera með Halla í London þar sem hann tók myndavél mína og myndaði okkur saman. Næst stilltum við þrír okkur saman upp til myndatöku, Guðlaugur Vilhjálmsson, ég og Guðbrandur Jóhannsson, fyrrverandi formaður Björgunarfélagsins. Það var notaleg stund að hafa þessa tvo heiðursmenn sitthvoru megin við sig,“ segir Óskar en Guðlaugur var 29 ára gamall þegar strandið átti sér stað.

„Hann drýgði ótrúlega hetjudáð þessa nótt er hann náði í  skotlínuna frá okkur í sjónum með því að hlaupa að línunni er hann sá hana. Guðlaugur sem var aðeins klæddur í létt regnföt og hafði öryggisband um mitti sitt, var kominn á mikla ferð þegar alda kom á móti honum en hann stakk sér í ölduna þegar hún var að skella á honum. Hann sá ekkert í kafi en fálmaði með höndunum og fann línuna. Félagar hans í landi byrjuðu að draga í Guðlaug þegar hann hvarf í ölduna, sem varð til þess að hann ætlaði ekki að ná sér upp til að anda, en á endanum náði hann upp og kom með línuna úr skottunnu okkar í land, þar með var komin landtenging við Sæbjörgu.“

Óskar hitti Ögmund Magnússon skipstjóra nýlega í skötuveislu í Garðinum. Þeir höfðu ekki hist frá því að Sæbjörg strandaði þann 17. desember 1984.
Óskar hitti Ögmund Magnússon skipstjóra nýlega í skötuveislu í Garðinum. Þeir höfðu ekki hist frá því að Sæbjörg strandaði þann 17. desember 1984.

Sú stærsta af öllum

Þegar hópurinn var að fara aftur inn til Hornafjarðar frá Hornsvík, sagði Guðbrandur Óskari og hópnum frá því hvað það hafi verið ótrúlega góð tilfinning að hafa tekið þátt í að bjarga 14 skipverjum úr einu strandi.

Sæbjörg VE 56 á strandstað í Hornsvík. Stokksnesið í baksýn og ratsjárstöð bandaríska hersins . Mynd/RAX/Morgunblaðið
Sæbjörg VE 56 á strandstað í Hornsvík. Stokksnesið í baksýn og ratsjárstöð bandaríska hersins . Mynd/RAX/Morgunblaðið

„Þeir björgunarfélagsmenn björguðu mörgum á þeim árum þegar Guðbrandur var í félaginu, en Sæbjargarbjörgunin var sú stærsta af þeim öllum. Þessi ferð verður mér alveg ógleymanleg, að hitta lífgjafa mína, menn sem spurðu ekki um tíma, heldur héldu í óveðri um miðja nótt út í fjöru til að bjarga mönnum sem þeir þekktu ekki neitt. Ég man það líka þessa nótt að okkur leið strax betur að vita af því að þeir væru á leiðinni til að bjarga okkur, að það væri hægt. Einnig verður það mér ógleymanlegt að hafa farið í Hornsvík sennilega í besta veðri haustsins og náð að skoða aðstæður við bestu hugsanlegu skilyrði, öfugt við það sem var 17. desember 1984. Svo verður þessi ferð ógleymanleg fyrir það að hafa haft þessa tvo góðu vini sína með sér.“