Landslagið á hafsbotni hefur lengst af verið okkur álíka framandi og landslagið á tunglinu. Enn er það að stórum hluta nafnlaust, enda hefur ekki verið hægt að gefa nöfn því sem enginn sér. Þetta er þó að breytast smám saman.

Óðinskollur er til dæmis allstórt fjall á sjávarbotni, norður af Færeyjum og nokkuð austan við landgrunnsbrún Íslands. Þetta fjall er um 50 km langt en nafnið er komið frá Færeyingum. Norðaustur af Óðinskolli er Gríðargljúfur, um 1500 metra djúpur og 150 km langur dalur sem skerst inn milli Færeyjahryggjar og ytri landgrunnsbrúnar, norðaustan við Rósagarðinn og suðaustur af Rauðatorginu.

Rósagarðurinn og Rauðatorgið eru þekktar veiðislóðir austur af Íslandi, en Gríðargljúfur og Gríðarklif, Greipardjúp og Gjálpardjúp, eru dæmi um ný orð sem smíðuð voru og tekin saman fyrir Orkustofnun þegar áform voru um olíuleit á Drekasvæðinu skammt frá Jan Mayen snemma á öldinni.

„Landslag yrði/væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ segir í kvæði Tómasar. Landslagið á hafsbotni er víða ekki síður tilkomumikið en fjöllin og gljúfrin á landi, en hefur verið að mestu nafnlaust enda ekki fyrr en á síðustu áratugum sem fengist hefur nokkuð skýr mynd af því hvernig landið liggur undir yfirborði sjávar.

Sú mynd er alltaf að skýrast og nú eru komin íslensk nöfn á stærstu kennileitin neðansjávar austur af Íslandi, allt norður til Jan Mayen og suður til Færeyja.

Ægisdjúp og nágrenni

Ægisdjúp er nafnið á allri lægðinni milli ytri landgrunnsbrúnar Íslands og landgrunnsbrúnar Noregs, norðan Færeyjahryggjar og austan með Jan Mayen-hrygg. Veðurstofan hefur kallað þetta svæði, eða stóran hluta þess, Austurdjúp. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur segir, í greinargerð með tillögum sínum að nöfnum á þessu svæði, að Ægisdjúp sé ungt nafn og gefið af útlendingum í sambandi við hafsbotnsrannsóknir.

Það er Haukur sem tók að sér þetta verkefni fyrir Orkustofnun og skilaði lokaútgáfunni af tillögum sínum árið 2011.

„Markmiðið með þessu verki var að reyna að koma á nafngiftum sem hægt yrði að nota og vísa til við rannsóknir og kröfugerð íslenska ríkisins,“ segir í greinargerð hans. „Reynt var eftir bestu vitund að gefa nöfn sem falla að íslenskri örnefnahefð og taka tillit til þeirra nafna sem þó eru til.“

Sum vart birtingarhæf

Fjöldi örnefna er til á landgrunninu sjálfu og eru mörg þeirra gömul í málinu, en sum eru frá því á 20. öld og urðu til þegar sjómenn fóru að sækja dýpra.

„Sum þeirra nafna eru þó vart birtingarhæf og alls ekki hæf til að vera á kortum,“ segir Haukur.

Kristján Geirsson, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun, segir að ákveðið hafi verið að ráðast í þessa vinnu þegar olíuleit stóð fyrir dyrum á Drekasvæðinu svonefnda, því þá vantaði örnefni til þess að nota.

„Íslendingum er tamt að vísa til örnefna, en þau voru engin til. Það var engin veiði þarna og engar siglingar sem drógu fólk þangað.“

Hann segist ekki vita hvort þessi nýju örnefni hafi náð einhverri útbreiðslu einhvers staðar, meðal sjómanna eða annarra.

„En þetta er þarna og verður.“

Áratugur er liðinn síðan Haukur skilaði tillögum sínum. Ekki er að sjá að þessi nýju neðansjávarörnefni hafi komist í almenna notkun, enda hefur þörfin kannski ekki verið brýn eftir að olíuleitaráformin runnu út í sandinn, hvað svo sem síðar kann að verða. En þessi nöfn eru þó til ef einhver skyldi þurfa á þeim að halda.

Nýju örnefnin

Gríðargljúfur

Það er dalur einn mikill um 150 km langur og um 1500 metra djúpur sem skerst inn milli Færeyjahryggjar og ytri landgrunnsbrúnar. Nafnið er dregið af tröllkonunni Gríður í Snorra Eddu en þýðir vitaskuld eitthvað óvanalega stórt.

Gríðarklif

Þar sem Gríðargljúfur opnast út í Ægisdjúp er stallur mikill og lækkar botninn um 1000 m. Nafnið er dregið af sömu tröllskessu en notað orðið klif sem viðhengi en það þýðir brattur stallur eða klettabrún.

Óðinskollur

Allstórt fjall, um 50 km langt sem er sunnan við Gríðargljúfur en laust frá ytri landgrunnsbrúninni. Nafnið vísar í Snorra Eddu. Nafn þetta leggja Færeyingar til.

Haðartunga

Brúnin sunnan við Gríðargljúfur. Norðurbrún hennar er þverhnípt klettabrún við Gríðargljúfur. Krókasund skilur að Haðartungu og Óðinskoll. Höður var einn ása. Nafn þetta leggja Færeyingar til.

Greipardjúp

Nafn á djúpi sunnan við Haðartungu sem skerst upp í Færeyjahrygginn. Nafnið er dregið af Greip sem var dóttir Geirröðar jötuns. Nokkuð víður dalur og því ekki ólík greip á manni.

Baldurstunga

Nafn á rana sunnan við Greipardjúp. Nafn þetta leggja Færeyingar til og er það dregið af goðinu Baldri.

Gjálpardjúp

Nafn á næstu lægð upp í Færeyjahrygginn fyrir sunnan Greipardjúp. Gjálp var systir Greipar.

Týshryggur

Nafn á nokkuð löngum hrygg sem gengur austur úr Færeyjahryggnum. Nafn þetta leggja Færeyingar til og er það dregið af goðinu Tý.

Sifjardjúp

Nafn á viki milli Týshryggjar og færeyska landgrunnsins. Nafn þetta leggja Færeyingar til og er það dregið af Sif konu Þórs.

Ægisdjúp

Er nafn á allri lægðinni milli ytri landgrunnsbrúnar Íslands og landgrunnsbrúnar Noregs, norðan Færeyjahryggjar og austan með Jan Mayen-hrygg. Nafnið er ungt og gefið af útlendingum (Aegir basin) í sambandi við hafsbotnsrannsóknir. Nafnið er dregið af Ægi í norrænni goðafræði.

Ægishryggur

Nafnið var gefið á tuttugustu öld af erlendum vísindamönnum (Aegir ridge) er þeir uppgötvuðu fornan rekás sem liggur eftir miðju Ægisdjúpi. Tekur nafn af sjávarguðnum Ægi.

Ægisdalur

Nafn á rennu sem liggur eftir endilöngum, miðjum Ægishrygg.

Ránarhryggur

Nafn á hryggjakerfinu norðvestan við Ægisdal. Rán er dóttir Ægis í norrænni goðafræði.

Drafnarhryggur

Nafn á hryggjakerfi suðaustan við Ægisdal. Dröfn er dóttir Ægis.

Bárusund

Nafn á sundi sem er í gegnum Drafnarhrygg út í miðju Ægisdjúpi. Nafn þetta leggja Færeyingar til.

Skjaldargrunn

Nafn á grunni norðan við Gríðargljúfur en utan við innri landgrunnsbrúnina. Það er norðan við Færeyjahrygg. Grunn þetta er nokkuð hringlaga og af því er nafnið dregið. Skjöldur er algengt mannsnafn í fornum sögum. Þetta mun vera sá staður sem fyrrum var nefndur Rauðatorgið en þar voru miklar síldveiðar að vetrinum eftir að Rússar fundu þar vetrarstöðvar norsk-íslensku síldarinnar. Rauðatorgið er fremur á sunnanverðu svæðinu en norðar og upp af Gríðargljúfri. Rauðatorgið átti við hafsvæði en ekki hafsbotn.

Skjaldarhorn

Nafn á öxlinni þar sem ytri landgrunnsbrúnin (Langabrún) sveigir út frá Gríðargljúfri og til norðurs í áttina að Jan Mayen-hryggnum.

Skjaldarbrúnir

Norðurbrúnin á Gríðargljúfri.

Krókasund

Sundið milli Óðinskolls og Haðartungu. Nafnið dregið af því að sundið eða skarðið er krókótt.

Langabrún

Brúnin á ytra landgrunninu frá Skjaldarhorni og norður með Jan Mayen-hryggnum að austan. Dregur nafn af því hve brúnin er löng.

Langahlíð

Hlíðin neðan við Löngubrún og niður í Ægisdjúp.

Íslandsslétta

Allur flatinn frá innri landgrunnsbrúninni og út að þeirri ytri. Nafnið gefið af þeim vísindamönnum sem unnið hafa að landgrunnsmálum. Nær frá Skjaldargrunni og norðaustur fyrir land allt að Kolbeinseyjarhrygg.

Mánadjúp

Nafn á djúpi vestan við Jan Mayen-hrygg. Það er dregið af því að lögun þess er ekki ólík hálfmánalagi. Þetta svæði hefir verið nefnt Jan Mayen Trough á ensku og er það vísindamannanafn.

Hléssund

Nafn á langri grunnri rennu sem stefnir suðvestur-norðaustur og opnast framan í Löngubrún og er sunnan við Jan Mayen-hrygginn. Nafnið er dregið af Hlé sem var eitt af nöfnum Ægis.