Finnur Sigurbjörnsson, skipstjóri á Múlabergi SI, togara Ramma á Siglufirði, segir rækjuveiðarnar hafa einkennst af stöðugu og jöfnu nuddi í allt í sumar. Byrjað var á rækjuveiðum í mars og reyndu fyrst menn fyrir sér í Ormagryfjunni eins og oftast er gert í upphafi veiðanna. Og framan af vori voru þeir mikið við Hraunið, um 70 mílur norður af Kolbeinsey.

„Það var bara ansi góð veiði þar framan af vertíðinni. En síðan hefur þetta verið bara jafnt nudd, þetta 20-25 og einu sinni yfir 30 tonn. Við erum sáttir ef þetta er yfir 4-5 tonn á sólarhring en allt umfram það er mjög gott,“ segir Finnur.

Finnur er með vanari mönnum þegar kemur að rækjuveiðum. Hann byrjaði í eigin útgerð á rækju árið 1979 á Hafsúlunni og hefur verið við rækjuveiðar í á fimmta áratug, þar af á Múlaberginu frá 2005 og þar áður á Sólberginu og öðrum bátum.

Lítið af rækju á grunnslóð

„Það má ekki vera minna en 4-5 tonn á sólarhring því olían er dýr. Það hefur allt hækkað, sama hvað það er og það á líka við fiskverðið. Við megum taka svolítið af þorsk í meðafla og grálúðu eins og við viljum en það er bara minna af henni. Það var samt fín lúðuveiði hjá okkur í vor þegar við byrjuðum. En þegar netabátarnir eru búnir að girða þetta af dregur úr veiðinni hjá okkur.“

Rækjan fer öll í vinnslu hjá Ramma en Finnur vildi forðast það sem mest að ræða um rækjuverð. Almennt um rækjustofninn segir Finnur sér þykja lítið af rækju á grunnslóð, þ.e.a.s. í Skjálfanda og Axarfirði. Þó hafi aðeins verið nudd í Eyjafjarðarálnum hjá Vestra BA.

Allt vaðandi í hval

„Svo koma ágætir dagar hérna í Sléttugrunni og Rifsbanka. Þetta eru þessir hefðbundnu staðar sem við sækjum á. Innfjarðarrækjan er hins vegar alveg horfin sem er mjög slæmt. Líklega má setja það í samhengi við of mikla fiskgegnd á grunnslóðinni. Svo er það augljóst að það er minna af smárækju en undanfarin ár. Hrygningarstöðvarnar eru hérna í Axarfirði og Skjálfanda og þar er allt vaðandi í hval. Hann étur allt sem að kjafti kemur. Það ætti að stórauka veiðar á hval. Við lentum í stórhval fyrir ekki svo löngu síðan sem reif í sundur trollið í rennunni hjá okkur. Og í holinu á undan fengum við hákarl og hann veldur svo sem alveg nægum usla líka.“

Finnur Sigurbjörnsson skipstjóri á Múlabergi. Aðsend mynd.
Finnur Sigurbjörnsson skipstjóri á Múlabergi. Aðsend mynd.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Túrarnir eru vikulangir og það er alltaf landað á mánudögum og haldið til veiða á ný sama dag. Finnur hafði ekki tölu á fjölda túra á rækju á þessu sumri en þeir eru allnokkrir. Þegar til stóð að halda út á ný eftir löndun á mánudag kom upp bilun, sennilega í rafala og þurfti að snúa skipinu aftur til hafnar. Hann segir það óvanalegt að það komi upp bilun í Múlaberginu sem sé fyrirtaks skip að öllu leyti.