Ákvæði sem heimilar að taka á leigu erlent skip til allt að sex mánaða, til veiða og vinnslu á austur-atlantshafsbláuggatúnfiski  bættist inn í lög um stjórn fiskveiða í júní síðastliðnum. Staðan nú er sú að lögin ganga í berhögg við reglur ICCAT. Ársfundur ráðsins verður haldinn í nóvember nk.

Mikið er í húfi fyrir Íslendinga að hefja að nýju veiðar á bláuggatúnfiski úr árlegum kvóta sem Atlantshafstúnfiskráðið, ICCT, úthlutar. Verði ekki breyting þar á telja margir að sú hætta sé fyrir hendi að kvótanum verði ráðstafað til annarra aðildarríkja ICCT.

Af alls 1.292 tonna kvóta sem Ísland hefur fengið úthlutað frá því það gerðist aðili að túnfiskráðinu 2002 hafa veiðst á milli 80-90 tonn af þessum verðmæta fiski á þessum tveimur áratugum, jafnt í beinum veiðum og í meðafla. Þetta er ekki nema 6-6,7% af úthlutuðum kvóta. Engar veiðar hafa verið stundaðar af Íslendingum undanfarin ár.

Lög um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og fleiri lögum í júní síðastliðnum veitir tímabundnar heimildir til að taka á leigu sérhæft erlent skip til veiðanna í því augnamiði að viðhalda veiðireynslu Íslands. Lagabreytingin nær til laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

Aðilar tengdir útgerð sem Fiskifréttir hafa rætt við sögðu þegar frumvarpið var kynnt að leiðin sem þar væri mælt með væri sú eina færa til að láta reyna á túnfiskveiðar innan og utan lögsögunnar og reyna þannig að veiða þann kvóta sem fellur í skaut Íslands. Nú virðist hins vegar hafa komið á daginn að lögin sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum gangi í berhögg við reglur Atlantshafstúnfiskráðsins. Í 19. grein reglugerðar ICCAT segir að engar heimildir verða veittar fyrir veiðum leiguskipa á túnfiski frá og með 2013.

Breytingar á reglum fyrir 2023?

Leitað var viðbragða hjá matvælaráðuneytinu.

„Umrædd lagabreyting var gerð til að auka svigrúm svo nota mætti erlend skip til að nýta íslenska kvótann þegar þörf krefði, en veiðar á bláuggatúnfiski krefjast sérhæfðs búnaðar sem fram til þess hefur ekki verið til staðar í íslenskum skipum. Ársfundur ICCAT verður haldinn í nóvember. Þangað til mun ekki liggja fyrir hvaða reglur munu gilda fyrir veiðar ársins 2023. Fyrirkomulag íslenskra veiða mun verða í fullu samræmi við ICCAT reglur, þ.m.t. mögulega nýtingu erlendra skipa. Til lengri tíma litið mun íslenski kvótinn eingöngu verða nýttur af íslenskum skipum og er því um tímabundin lagaákvæði að ræða. Umræddar lagabreytingar snúa að verðmætu sjávarfangi og megináhersla lögð á að nýting þess sé sem best. Í framhaldinu verður staðan endurskoðuð í ljósi þess hvernig hefur tekist til að ná sem bestri nýtingu.“