Útgerðarfélagið Aðalbjörg RE var stofnað í heimskreppunni miklu. Stofnendurnir voru feðgarnir Sigurður Þorsteinsson og Einar Sigurðsson sem 17. nóvember 1932 keyptu Víking RE- 4, 10 tonna bát. Báturinn hafði verið í eigu Haraldar Böðvarssonar og gerður út frá Sandgerði. Aðalbjörg er elsta útgerðarfélagið í Reykjavík og Stefán Einarsson, sonur annars stofnandans, rekur félagið nú ásamt Önnu Sigurbrandsdóttur.

Þremur árum eftir stofnun, árið 1935, eignuðust þeir Sigurður og Einar Aðalbjörgu RE 5 S-0265 22 tonna bát, einn af „borgarstjórabátunum“. Reykjavíkurborg stóð þá að fjármögnun á smíði fjögurra báta til að gera sitt til að koma atvinnulífinu í gang í kreppunni. Hinir voru Jón Þorláksson og Þorsteinn sem voru 50 tonn en Aðalbjörgin og Hafþór voru 22 tonn.

Yngsti sonurinn tekur við

„Pabbi gamli fékk Aðalbjörgina vegna þess að það hafði veiðst svo vel á Víking. Þeir áttu svo bátana báða þar til 1938. Síðustu þrjú árin sá Mummi, föðurbróðir minn, um Víkinginn. Hann var svo seldur og Mummi fór í eigin útgerð þegar hann keypti bátinn Skógarfoss. Þar steig ég líka mín fyrstu skref til sjós fjórtán ára gamall, sem fullgildur háseti,“ segir Stefán.

Bræðurnir í sínu fínasta pússi þegar þeir útskrifuðust samtímis úr Stýrimannaskólanum 1967.
Bræðurnir í sínu fínasta pússi þegar þeir útskrifuðust samtímis úr Stýrimannaskólanum 1967.

Stefán fór í Stýrimannaskólann 17 ára gamall og útskrifaðist árið 1967. Hann var svo stýrimaður hjá föður sínum á Aðalbjörginni. Í fyrsta túrnum slasaðist Einar. Stefán tók þá við skipstjórninni enda var faðir hans það illa haldinn að hann þurfti að leggjast inn á spítala. Þá hann útskrifaðist vildi hann að Stefán héldi áfram sem skipstjóri á sumrin en sjálfur tók hann við á vetrarvertíðunum. Eldri bræður Stefáns, Sigurður og Guðbjartur, voru á síld. Þannig atvikast það að yngsti sonur Einars tók við Aðalbjörginni en ekki þeir eldri.

Víkingur RE 4 með aftursegl uppi. MYND ÚR EINKASAFNI.
Víkingur RE 4 með aftursegl uppi. MYND ÚR EINKASAFNI.

Stefán og Guðbjartur bróðir hans tóku svo yfir útgerðina árið 1974 þegar þeir keyptu Aðalbjörgina RE-5 S-0265 af föður sínum. Þeir áttu bátinn alltaf tveir saman. Nú er útgerðin í eigu Stefáns og ekkju Guðbjartar, Önnu Sigurbrandsdóttur. Sigurður, elsti bróðirinn, slóst svo í hópinn 1981 og þeir þrír stofnuðu fyrirtækið Aðalbjörgu sf. um rekstur fiskverkunar sem þeir stofnuðu þá. Árið 1983 kaupa þeir svo Aðalbjörgu II RE-236 S-1414 ( skipt út 1987 í S-1269) sem var gerð út af Aðalbjörgu sf. Guðbjartur Einarsson varð þá skipstjóri á þeim bát en Sigurður Einarsson sá um rekstur fiskverkunarinnar.

Nú er gert út eitt skip, Aðalbjörg RE-5 S-1755 sem var byggð á Seyðisfirði 1987 í Vélsmiðju Stefáns Jóhannssonar og kom hún í stað Aðalbjargar RE-5 S-0265 sem var lagt 1986. Stefán var skipstjóri á nýju Aðalbjörginni frá því hún var byggð en 2002 tók Sigtryggur Albertsson, tengdasonur Stefáns, við. Útgerðin er hreinræktað fjölskyldufyrirtæki byggt upp af harðduglegum sjósóknurum með bein í nefinu.

Aðalbjörg RE 5. MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON
Aðalbjörg RE 5. MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON

Hafró týnt milljón tonnum

„Ég skipti mér ekkert af þessu en heyri samt í Sigtryggi á hverju kvöldi. Spyr fregna og einu skilaboðin frá mér eru; „þú rærð ekki í brælum,“ segir Stefán í upphafi viðtals við blaðamann Fiskifrétta yfir kökum og kaffi á fallegu heimili þeirra hjóna, hans og Kristrúnar Sigurðardóttur, á Fornuströnd á Seltjarnarnesi. Stefán vill, eins og margir af hans kynslóð og manngerð, vinna sín verk í friði og síður vera í fjölmiðlum. En fyrir þrábeiðni sameiginlegs vinar, lét hann loks til leiðast að hitta blaðamanninn og fór vel á með þeim.

„Þegar aldurinn færist yfir finnurðu að þú ert ekki samkeppnisfær í þá stóru í þessari grein sem hafa hirt bestu bitana. Saltfiskmarkaðir fyrir flattan fisk hafa líka greitt útgerðinni þungt högg, núna eru til dæmis ekki eftir nema þrír snurðvoðarbátar í Ólafsvík. Ég er einn eftir í Reykjavík með snurvoðarbát. Það er unnið hörðum höndum að því að drepa einkaframtakið í sjávarútveg. Það verður bara segja hlutina eins og þeir eru. En það er búið að klippa tunguna úr öllum stjórnmálamönnum,“ segir Stefán.

Þegar Aðalbjörg var hæst í kvóta var hann um 500 tonn. Í dag nær kvótinn ekki 300 tonnum. Fyrst þegar kolinn fór í kvóta hafði Aðalbjörg nær 250 tonna í rauðsprettu. Núna er kvótinn undir 100 tonnum.

„Hafrannsóknastofnun hefur týnt milljón tonnum af þorski á 40 árum. Hún týndi eitt árið 600 þúsund tonnum með reiknivitleysu. Og enn þá heldur hún áfram. Humarinn er dauður, hörpudiskurinn er farinn. Milljón tonn af loðnu í fyrra en rúm 100 þúsund tonn núna? Þetta er verra en að taka þátt í póker.“

Stefán segir aldrei áður hafa verið meira fiskirí á þessum árstíma af þorski. 80% flotans forðist þorsk eins og heitan eldinn. Ýsan hafi farið úr 100 þúsund tonnum niður í 30 þúsund tonn. Þar séu allir á flótta líka. Einfaldlega sé ekki hægt fyrir litlar útgerðir að standa undir þessu. Hvað Aðalbjörgu varðar þá sé strax núna í byrjun fiskveiðiárs sáralítið eftir af þorski. Útgerðin lifi bara af því að fiska flatfisk.

Stefán nefnir til sögunnar lúðu. 80% af henni sem veiðist sem meðafli fer í VS-afla og mönnum beri að sleppa lífvænlegri lúðu. Svo er bannað að sleppa lífvænlegum sandkola.

„Það voru gefin út 7.000 tonn af sandkola um aldamótin en núna 301 tonn. Verra er að mér finnst engar rannsóknir standa á bak við þetta. Á síðasta ári var Aðalbjörg með 60-70 tonn af þessum 300 tonnum af sandkola. Og við höfum skipt út fyrir sandkola en samt er hann algjör aukaafli fyrir okkur.“

Vantar eina kynslóð

Engu að síður séu menn að upplifa gósentíð. Hann hafi ekki áður upplifað jafn hátt fiskverð.

„Við höfum verið að fá upp undir 700 krónur fyrir þorskinn óslægðan. Og rauðsprettuna upp undir 500 kall. En róðrarlagið hjá okkur er þannig að það voru 105 róðrar á síðasta ári. Það er ekki neitt, þetta eru sko dagróðrar. Við róum bara mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag og oft sleppum við fimmtudegi. Við tökum bara ákveðið magn á ári þannig að menn geti haft þetta sem heilsárs störf. Þetta gefur mönnum ágætis laun en það er alltaf verið að skera þetta niður.“

Stefán segir miklar breytingar hafa orðið í útgerð og er þá ekki að tala um sóknina, skipin, tæknina eða öryggismálin. Það vanti inn pjakkana, eins og þegar hann var sjálfur að byrja. Nú sé meðalaldurinn á Aðalbjörginni um 50 ár.

„Það vantar heila kynslóð inn í mönnunina. Pjakkar sem byrjuðu um tvítugt eða jafnvel fyrr, eins og ég, skóluðu sig upp og héldu áfram eða hættu. Þeir eiga ekki séns á því að fá pláss í dag.“

Aðalbjörg II RE 236. MYND ÚR EINKASAFNI.
Aðalbjörg II RE 236. MYND ÚR EINKASAFNI.

Þorskur er góður matur

Annað sem hefur breyst er veðrið. Undanfarið ár hafi janúar verið ágætur en febrúar yfirleitt djöfullegur.

„Þetta eru orðin harðari veður en standa styttra yfir. Í gamla daga stóð kannski norðan- eða suðvestan- og sunnanátt yfir í hálfan mánuð. Þá komu ekki þessir hvellir sem eru alltaf að koma núna. Aðalbjörgin hjá pabba var fyrst 22 tonn en var svo lengd 1960 á Akranesi. En margt hefur breyst frá því maður var á snurvoðinni í gamla daga, berandi tógið fram á stefni og aftur á rassgat, alltaf hjálmlaus og hlífðarlaus. Núna er þetta allt á tromlum og stór spil í þessum bátum. Þetta er fínn veiðiskapur í dag. Núna löndum við rauðsprettunni, sólkolanum og þessum tegundum slægðum. En sandkolinn, þorskurinn og ýsan fer allt óaðgert á markaðinn. Þeir vilja ekki láta opna þetta bara kæla það nógu skart. Enda teknar prufur þegar við komum að landi og þá er fiskurinn í 2-3 gráðum. Svo hefur mikið breyst síðan Mykines og Akranes komu í Þorlákshöfn með stöðuga flutninga. Fiskur sem er verið að fiska á fimmtudögum er kominn í Mykinesið á föstudegi og á markað í Evrópu á mánudegi. Þegar ég var að byrja var fiskurinn settur í einn haug niðrí lest og ekkert ísað en núna er hverjum fisk raðað í kör og kafísað eða kælt með krapa. Ég man líka að í gamla daga var ekki étinn þorskur heima hjá mér. Það var alltaf ýsa. Núna lítum við ekki við ýsu, þorskurinn er miklu betri matur. Þannig að breytingarnar eru alls staðar,“ segir Stefán að lokum.