Miklar skemmdir urðu í setustofu og íbúðum og ekki talið svara kostnaði að gera við skipið. Halldór Guðjón Halldórsson skipstjóri segir stefnt að fara á sjó strax í þessari viku. Netin voru komin á bryggjuna og menn ætluðu að fara undirbúa brottför þegar þeir komu að bátnum brunnum við höfnina. Halldór Guðjón segir að mönnum hafi vitanlega verið brugðið við aðkomuna. Líklegast er að kviknað hafi í út frá rafmagni og nánast allt sem brunnið gat hafi verið ónýtt í matsalnum og eldhúsinu. Þá hafi reykur og sót borist um skipið og þyrfti nánast að rífa allt út úr því og endurbyggja til að gera það hæft til notkunar á ný. Kostnaður við það hleypur á stórum upphæðum og vart talið borga sig að fara í slíkar framkvæmdir.

Smíðaður 1964

„Eldurinn virðist hafa komið upp í setustofunni. Sennilega er þetta eitthvað út frá rafmagni. Mesti eldurinn hefur verið í setustofunni en svo virðist hann hafa leitað út þaðan en kafnað þegar súrefnið var á þrotum. Það voru allar hurðir lokaðar út á dekk og niður í vél þannig að þetta virðist kvikna af sjálfu sér og deyja af sjálfu sér,“ segir Halldór Guðjón.

  • Erling KE hefur þjónað vel en vart talið borga sig að gera við hann. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Hann segir að Erling hafi verið kominn til ára sinna og heldur betur búinn að gegna sínu hlutverki í gegnum tíðina. Hann var smíðaður í Noregi 1964 og var lengdur 1970. Hann hét fyrst Akurey ER og frá 1972 til 1988 Skírnir AK. Hann var einnig í eigu Þorbjarnar hf. Í Grindavík og hét þá Júlli Dan GK allt til ársins 2000 þegar Stakkavík keypti hann og hét þá Óli á Stað allt þar til hann komst í eigu Saltvers árið 2002.

  • Halldór Guðjón Halldórsson skipstjóri. Aðsend mynd

Kemur upp á versta tíma

Halldór Guðjón segir að þetta hafi komið upp á versta tíma nú í vertíðarbyrjun.

„Ég var að klára að láta skoða hann rétt fyrir áramótin og það var bara hugur í okkur að byrja. En ætlar að rætast úr þessu því við erum núna að græja Langanes GK og langt komnir með það."

Langanes er í eigu Marons ehf. sem gerir einnig út Maron GK og Grímnes GK. Langanesið var í slipp í Njarðvík og hafði ekki verið í notkun í einhvern tíma.

Rúmra 1.400 tonna þorskígildistonna kvóti er á Erling sem verður fluttur yfir á Langanes, þar af rúmlega 1.000 tonn af þorski.

„Við byrjum á því að taka af þorskinum eins og við getum. Ég er að vonast til að við komumst út í þessari viku. En annars er búið að vera snarvitlaus veður það sem af er árinu og núna er ég í töku tvö  að láta skoða. Ég endaði árið á því að láta skoða Erling og byrja árið á því að láta skoða Langanesið.“