„Ég er bara að bjarga næsta þorrablóti,“ segir Ólafur Arnar Hallgrímsson, smábátasjómaður á Borgarfirði eystra. Hann hefur brugðið sér nokkrum sinnum á hákarlaveiðar undanfarið, og er þar í samstarfi við Fiskverkun Karls Sveinssonar

„Við hjálpumst að. Ég sé meira um að veiða en hann er að verka.“

Ólafur segist hafa byrjað á hákarlaveiðum fyrst árið 1988, eða svo.

„Síðan tók ég ansi langa pásu, því þetta er nú ekki alveg eitthvað sem maður getur gengið að vísu að verkist. Það eru oft vandræði ef þetta misheppnast. Eitt árið veiddi ég sjö og þá var ég að verka þetta sjálfur, en það mistókst allt og ég held að það hafi tekið mig tíu ár að jafna mig. Held mér hafi þótt eitthvað tilgangslaust að vera að drepa greyin og allt ónýtt. En þetta er bara svoleiðis að enginn getur sagt fyrir um hvernig tekst. Stundum verkast þetta ægilega vel og stundum ekki.“

Besti tíminn

Veiðarnar sjálfar segir hann ekkert erfiðari en aðrar veiðar.

„Ég legg nú bara línu. Ég var með sjö króka um daginn en er bara með fjóra núna. Það eru komnir fjórir kallar. En þetta er besti tíminn, apríl og maí og aðeins fram í júní. Svo er bara eins og hann haldi sig einhvers staðar annars staðar.“

Ólafur Arnar Hallgrímsson. MYND/Elsa Katrín Ólafsdóttir
Ólafur Arnar Hallgrímsson. MYND/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Hákarlaveiðar eru enn stundaðar í nokkrum mæli hér við land, og Ólafur segir Vopnfirðinga vera seiga í þeim efnum.

„Ég veit ekki hvað veldur, en ég veit að Vopnfirðingar eru töluvert í þessu.“

Ólafur ætlar annars að vera á strandveiðum í sumar en hefur svo sem ekkert miklar væntingar til vertíðarinnar.

„Mér líst ekkert óskaplega vel á hana. Ég held að við fáum snemma gott frí. Ég held að það verði margir sem segja sig frá veiðum fyrir ágústmánuð. En það er bara svo erfitt með leigukvótann að það er spurning hvað menn geta gert.“

Gæðunum misskipt

Hann segir gæðum strandveiðanna töluvert misskipt eftir landssvæðum. Sjómenn fyrir austan land komast ekki í þorskinn af neinu viti fyrr en líða tekur á sumarið, en þá eru sjómenn fyrir vestan oft búnir að veiða vel upp í leyfilegan heildarafla sumarsins.

„Hann kemur kemur seint inn. Skammturinn er bara búinn þegar kemur að okkur, af því það er ekki skipt niður á landshlutana. Því var breytt í þeirri trú að við fengjum 48 daga, og í þeirri von að það gengi, en svo hefur það ekki gengið upp. En maður er að vona.“

Stuttu fyrir upphaf strandveiða bætti Svandís Svavarsdóttur 1.500 tonnum við pottinn, þannig að í ár er heimilt að veiða samtals 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa, eða samtals 11.100 tonn af óslægðum fiski. Ólafur segist þó varla telja að þessi 1.500 viðbótartonn dugi til að bjarga vertíðinni fyrir austan.

Ungir menn að byrja

„Það yrði synd ef það yrði stoppað því við höfum þrjá unga menn, innan við þrítugt sem eru að byrja. Tveir keyptu sína báta í fyrra og einn að kaupa núna. Þetta eru menn sem búa hérna og komnir til að vera. Það væri slæmt ef þetta yrði stoppað og þeir ná ekki góðu starti því þetta skiptir okkur svo miklu. Svo eru þeir að róa á línubátunum sínum á veturna, eru hásetar þar.“

Hann segir stemmninguna hjá smábátaveiðimönnum á Borgarfirði eystri engu að síður góða. Sjálfur gerir hann út á níu tonna bát, Eydísi NS 320, sem hann er búinn að eiga í rúmlega 15 ár eða svo.

„Annars er ég búinn að vera við þetta í þrjátíu og eitthvað ár, að vera trillukarl. En ég á ekki kvóta lengur, gafst upp á því. Línuveiðar eru dýrar og maðurinn að eldast. Maður er kominn yfir sextugt og þegar heilsunni fer að hraka þá róast allt hjá manni.“

Hann segist til dæmis sáralítið róa yfir veturinn nú orðið.

„Ég er eiginlega hættur því, en ef menn eru að færa fisk á haustin þá reyni ég að útvega mér einhver kíló og róa eitthvað smá. Það gefur sig oft vel til í september og október. Svo er bara svo gaman að þessu.“