Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum, VSV, gekk frá kaupum á öllum eignarhlutum í fullvinnslufyrirtækinu Marhólmum ehf. síðastliðið vor. Kaupin eru liður í stefnu VSV um meiri fullvinnslu á afurðum fyrirtækisins, ekki síst loðnuhrognum. Fyrir átti VSV 75% í Marhólmum en á nú fyrirtækið að öllu leyti.

Marhólmar hafa um langt skeið verið leiðandi framleiðandi á hágæða masago úr loðnuhrognum og voru fyrstir fyrirtækja utan Japans til að framleiða þá vöru. Einnig hefur fyrirtækið framleitt vörur úr þorskhrognum fyrir viðskiptavini í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi sem og aðrar vörur.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, bendir á að um langt skeið hafi VSV skilað frá sér saltfiskafurðum beint til neytenda í Portúgal og sama hugsun liggi að baki áætlunum með Marhólma.

„Við höfum selt saltfisk inn á veitingahús og stórmarkaði í Portúgal og við erum að feta okkur inn á þá braut með aðrar afurðir, eins og loðnuhrogn,“ segir Sigurgeir Brynjar.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV. Mynd/Óskar P. Friðriksson
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

Framleidd voru hátt í 25 þúsund tonn af loðnuhrognum á síðustu vertíð sem var metframleiðsla. Samkvæmt nýjustu útflutningstölum hefur ekki verið fluttur út nema um þriðjungur af því magni. Heimsmarkaðurinn tekur ekki við því magni þannig að myndast hafa birgðir hér á landi sem duga jafnvel til tveggja eða þriggja ára.

Geymslupláss óleyst mál

„Vandamálið er að það komu tvær vertíðir áður þegar ekki veiddist loðna. Í framhaldinu dróst eftirspurn saman og viðskiptavinir skiptu út loðnuhrognum fyrir aðrar afurðir. Það er vont að fá svona vertíðir sem eru eitt stórt stopp.“

Annað vandamál gæti skotið upp kollinum verði loðnuvertíð eftir áramót þvert í núverandi ráðgjöf Hafró og það er geymslupláss fyrir afurðirnar. VSV á stóra frystigeymslu á Eiði en hún er nánast smekkfull eins og hjá öðrum uppsjávarfyrirtækjum á landinu. Það rjátlast þó út úr þeim en það dugar þó skammt til verði vertíðin stór. Frystigeymslur erlendis eru líka vel nýttar og vinnumarkaðsdeilur pólskra og úkraínskra flutningsbílstjóra hafa orðið til þess að afurðir komast ekki yfir landamærin. Úkraínumenn vilja kaupa afurðirnar en hafa ekki tækifæri til að sækja þær. Það er því að ýmsu að huga fyrir loðnuframleiðendur.