„Þetta er tilraun til þess að brjóta upp þessa störukeppni sem allt þetta mál er í,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, um hugmynd sem kynnt var forsætisráðherra um þriggja til fimm ára tilraun í strandveiðum.

Arthur og Magnús Jónsson voru fulltrúar Landssambands smábátaeigenda á fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra síðastliðinn mánudag. Fundinn sat einnig Kjartan Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands.

„Þeirri hugmynd var varpað fram á fundinum að gera 3-5 ára tilraun með að leyfa 4×12 veiðidaga á strandveiðum (samkvæmt lögum) án þess að setja upp fyrir fram niðurneglt heildaraflamark,“ er meðal þess sem segir í tilkynningu smábátaeigenda um fundinn.

Engin loforð gefin

„Í lok tilraunatímabilsins yrði staðan metin, bæði fiskifræðilega og hver þróunin hafi orðið í fjölda strandveiðibáta. Það er einkenni og aðalsmerki framsækinna vísinda og vísindamanna að gera tilraunir, prófa og þróa nýjar hugmyndir, endurskoða og skoða niðurstöður í ljósi reynslunnar,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

„Það virðist ekki nokkur leið að mjaka umræðunni úr því fasta fari sem hún er í,“ segir Arthur við Fiskifréttir.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Í fyrrgreindri tilkynningu segir að forsætisráðherra hafi sýnt málflutningi gesta sinna skilning en lagt „áherslu á að hún vildi sjá hvað kæmi út úr vinnu stóru nefndarinnar sem starfar undir heitinu Auðlindin okkar“.

Arthur segir að í sjálfu sér hafi ekki verið nein niðurstaða á fundinum. „Hvorki Katrín né nokkur annar ráðherra myndi láta okkur ganga út með einhver loforð. Hún hafnaði þessari hugmynd ekki en hún var heldur ekkert að segja að þetta væri lausnin á málinu,“ segir hann. Þeir vilji hins vegar fá þessa hluti inn í umræðuna.

Karpað um eitt prósent

Að sögn Arthurs gengur kerfið ekki upp á meðan í lögunum stendur bæði að stunda megi strandveiðar í 48  daga á ári og að veiðum skuli hætt þegar aflamarki sé náð. „Staðreyndin er sú að á meðan miðin eru loðin af fiski og mönnum gengur vel að veiða hringinn í kring um landið er alveg ljóst í hvað stefnir að óbreyttu,“ segir Arthur og bendir á að á undanförnum árum hafi strandveiðikvótinn verið í kringum eitt prósent af mældri stærð þorskstofnsins.

„Það er endalaust verið að karpa um þetta eina prósent. Á sama tíma er það staðreynd að þetta er eini glugginn sem hinn almenni Íslendingur hefur inn í fiskveiðar. Þessi stærð á ekki að mæta afgangi, hún á að vera í forgangi. Þetta er gluggi eigandans að auðlindinni,“ segir Arthur.

Svartsýnn á Auðlindina okkar

Sem fyrr segir vill forsætisráðherra bíða eftir niðurstöðum verkefnisins Auðlindin okkar sem væntanlegar eru á næstu vikum.

„Ég er í þessari nefnd en ég veit ekkert hvað er verið að skrifa inn í þessa skýrslu. Þetta á að heita sáttanefnd en  ég hef ekki orðið var við að það sé að halda mönnum vakandi um nætur að það á að vera meginhlutverk þessarar nefndar að ná sáttum,“ segir Arthur.

Kveðst Arthur ekki hafa leynt því að hann sé mjög svartsýnn á að það komi nokkur skapaður hlutur út úr starfi nefndarinnar. „Annað en einhverjar hnausþykkar skýrslur sem munu engu skila.“