„Það var búið að reyna mikið frá árinu 2016 að selja skipið en án árangurs. Þarna kemur punkturinn í útgerðarsögunni sem enginn vildi setja, “ segir Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju á Eskifirði, um endalok togarans Jóns Kjartanssonar SU 111, áður Hólmaborg.
Skipið sem smíðað var 1978 í Svíþjóð og Danmörku var búið til dráttar í gær á Reyðarfirði og fer nú í togi til niðurrifs í Esbjerg. Fram kom í fréttum RÚV nú í hádeginu að töf hefði orðið á brottförinni þar sem göt voru á dráttarskipinu Gretti sterka.
Síðast var Jón Kjartansson á veiðum á kolmunna árið 2019.
Sagt var frá yfirvofandi endalokum Jóns Kjartanssonar í Fiskifréttum 8. nóvember í fyrra og þá var einnig rætt við Baldur útgerðarstjóra. Hér að neðan fylgir sú frétt:
Selst ekki og Jón Kjartansson fer í brotajárn
„Það er alveg búið að standa fyrir sínu, þetta skip, það er ekki hægt að kvarta yfir því,“ segir Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, um gamla Jón Kjartansson SU 111 sem stefnir hraðbyri úr landi í brotajárn.
„Eigum við ekki að segja að það sé í pípunum. Það er ekki búið að ganga frá neinu en það er líklegast að það verði næsti áfangastaður hans,“ segir Baldur.
Að sögn Baldurs hófu menn hjá Eskju að huga að því árið 2015 að selja skipið. „Það er lítil eftirspurn eftir svona gömlum jálkum og það voru bara engir kaupendur. Hann hefði verið seldur fyrir fjölda mörgum árum ef það hefði komið þokkalegt tilboð á á þeim tíma,“ segir Baldur.
Helst gott til uppsjávarveiða
Togarinn var smíðaður árið 1978 í Svíþjóð sem Eldborg HF og var hann gerður út frá Hafnarfirði þar til Hraðfrystistöðin á Eskifirði keypti hann árið 1987. Fékk hann þá nafnið Hólmaborg og síðar Jón Kjartansson. Frá árinu 2017 hefur togari sem keyptur var hingað frá Hjaltlandseyjum hins vegar borið það nafn og gamli Jón Kjartansson nánast legið óhreyfður við bryggju síðan. „Það var farið í kolmunnaúthald 2019 en það var ekki mikið,“ segir Baldur.
Skipið var upphaflega smíðað sem rækjufrystiskip og var á sínum tíma undir Eldborgarnafninu og eitthvað fyrstu árin á Eskifirði. Baldur segir það aldrei hafa verið sérstakt togskip. „Það var helst gott til uppsjávarveiða,“ segir hann.
Sem fyrr segir er salan á gamla Jóni Kjartanssyni í brotajárn enn ófrágengin. „Við vonumst til að þetta gerist sem fyrst en veður og vindar ráða því hvenær hann fer,“ segir útgerðarstjóri Eskju.