Matvælastofnun hefur gefið út tillögu að rekstrarleyfi fyrir Laxey hf. vegna fiskeldis á landi í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum. Fram kemur að um sé að ræða nýtt rekstrarleyfi fyrir sjö þúsund tonna hámarkslífmassa vegna matfiskeldis á frjóum laxi og regnbogasilungi.

Í tillögu Mast segir að á gildistíma leyfisins skuli fara fram vöktun og rannsóknir af hálfu Laxeyjar til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldisstöðvarinnar. Skrá skuli varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski og gera áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur. Viðbragðsáætlun vegna slysasleppinga á að vera á eldissvæðinu og hún kynnt fyrir starfsmönnum.

„Rekstrarleyfishafi sem missir fisk úr fiskeldisstöð, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu. Rekstrarleyfishafa ber skyldu til að halda skrá yfir uppruna eldislaxa sem byggir á gagnagrunni um erfðaefni hjá framleiðanda hrogna,“ segir Matvælastofnun.

Þá er tekið fram að gildistaka rekstrarleyfis fiskeldisstöðva á landi sé háð því skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem komi í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og að búnaður sé í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur.

Nánar má lesa um málið ávef Matvælastofnunar.