Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson lagði af stað í árlegan vorleiðangur Hafrannsóknastofnunar í gær. Áætlað er að leiðangurinn standi í fimmtán daga.

Að því er segir á vef Hafrannsóknastofnunar er leiðangurinn liður í langtímavöktun hafs. „Vistkerfisrannsóknir eru framkvæmdar á dýrasvifi (átu), plöntusvifi (gróðri), næringarefnum, hita og seltu (ástand sjávar) á hafsvæðinu við Ísland,“ segir á hafro.is.

Sextíu ára saga rannsókna heldur áfram

Þá segir að árferðisrannsóknir á þessu sviði hafi farið fram vor hvert í maí/júní í um sextíu ár. Ásamt því að kanna ástandið á ákveðnum staðsetningum, svokölluðum sniðum, út frá landinu séu gerðar mælingar með síritandi mælitækjum á siglingaleið skipsins.

„Magn og útbreiðsla ljósátu er mæld með bergmálstækni og samhliða eru ljósátusýni skoðuð. Magn gróðurs er mældur með blaðgrænumælingum og líffræðileg fjölbreytni plöntusvifs er rannsökuð með smásjá og erfðafræði. Einnig er sýnum safnað fyrir Geislavarnir ríkisins vegna vöktunar á magni geislavirkra efna í sjó,“ segir á hafro.is.