„Gaman er að breyta aðeins til og gera eitthvað skemmtilegt með starfsfólkinu sem sannarlega hefur staðið sig vel í vetur og á allt gott skilið,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisksviðs Vinnslustöðvarinnar, sem hélt upp á komandi vertíðarlok með saltfiskveislu á föstudaginn..

Þetta kemur fram á vefsíðuVinnslustöðvarinnar þar sem einnig er haft eftir Sverri að veislan sem var með portúgölsku sniði hafi tekist glimrandi vel og að öruggt sé að hún verði endurtekin.

Hafa unnið fimm þúsund tonn

„Við vinnum alla daga í saltfiski og sendum til Portúgals þar sem hann er í hávegum hafður til hátíðarbrigða. Oft höfum talað um að gera okkur dagamun hér á vinnustaðnum með því að bera á borð saltfisk sem matreiddur á einhvern þann hátt sem Portúgalar þekkja en við síður eða alls ekki. Vertíðarlokin eru verðugt tilefni og nú verður ekki aftur snúið. Þetta var fyrsta veislan sinnar tegundar í Vinnslustöðinni en ekki sú síðasta,“ er haft eftir Sverri.

Fram kemur að samkvæmt gamalli hefð ljúki vetrarvertíð 11. maí og þó að vertíðinni nú væri ekki lokið hafi samt verið ákveðið að halda saltfiskveislu að portúgölskum hætti í hádeginu á föstudag. „Tilefnið var ærið, nefnilega það að 10. maí höfðu verið unnin 5.000 tonn af hráefni í saltfiskvinnslu VSV,“ segir á vsv.is.

Portúgalskur starfsmaður gerðist yfirkokkur

Carla, portúgalskur starfsmaður VSV, hafði yfirumsjón með eldamennskunni og með sér í liði hafði hún landa sinn, Mariu. Aðalréttirnir voru annars vegar portúgalskur plokkfiskur (Bacalhau á bras) og hins vegar saltfiskkladdar (Pataniscas).

„Þau sem fengu að njóta matarins hlóðu lofi á yfirkokkinn, aðstoðarliðið og auðvitað það sem á borð var borið. Meira að segja þeir sem kváðust ekki borða saltfisk smökkuðu og voru lukkulegir,“ segir í færslunni á vsv.is.

Þá sendir Sverrir Haraldsson starfsfólkinu þakklætiskveðjur eftir góða vertíð.

Mikil keyrsla til sjós og lands

„Skipin okkar hafa fiskað vel í vetur og góður fiskur kom til vinnslu. Einnig höfum við fengið hráefni af fiskmörkuðum og frá viðskiptabátum að auki. Það hefur verið mikil keyrsla hjá okkur til sjós og lands. Sjómenn og starfsfólk í vinnslunni í landi unnu daginn langan frá því snemma í vetur og allir eiga mikið hrós skilið fyrir dugnað og elju,“ segir Sverrir.

Bent er á að saltfiskurinn frá Vinnslustöðinni fari að stærstum hluta á Portúgalsmarkað og að fjöldi starfsmanna í vinnslunni hjá fyrirtækinu sé frá Portúgal og þekki saltfiskrétti sem séu Íslendingum framandi.