„Þetta fer mjög vel af stað. Menn eru mjög fljótir og þetta er mjög fallegur fiskur sem kemur í land,“ segir Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri í Grundafirði, um upphaf strandveiðitímabilsins

Róið var einn dag í þarsíðustu viku, þrjá í síðustu viku og róðrardagarnir eru fimm í þessari viku.

Hafsteinn segir að þegar strandveiðikerfið hafi verið tekið upp hafi 38 bátar róðið frá Grundarfirði. Nú séu þar nítján bátar á blaði, svipað og hafi verið undanfarin ár.

„Það hefur alltaf verið best hér í maí og fram undir miðjan júní,“ segir Hafsteinn. Nú sé mjög stutt á miðin, aðeins um tíu mílur út að Grundarfjarðarbrún. „Svo þurfa þeir að fara aðeins lengra eftir miðjan júní.“

Passasamir á rétta vigt

Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri í Grundarfirði. MyndAðsend
Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri í Grundarfirði. MyndAðsend

Borið hefur á því í spjalli strandveiðimanna á samfélagsmiðlum að kvartað sé undan því að sumir úr þeirra hópi eigi erfitt með að halda sig innan þeirra 774 kílóa sem leyfilegt er að koma með að landi hvern dag. Sektað er fyrir umframaflann, sem síðan er dreginn frá sameiginlegum heildarkvóta sumarsins. Hafsteinn segir þetta ekki vera vandamál í Grundarfirði.

„Þetta eru eiginlega allt heimamenn sem hafa verið lengi og þeir eru mjög passasamir á þetta,“ segir hann. Bátarnir sem gerðir eru út frá Grundarfirði landa flestir þar og aflinn fer á markað. „Svo eru fimm bátar sem landa í Sjávariðjunni á Rifi,“ segir Hafsteinn, sem aðspurður kveðst halda að verðið sem nú fæst fyrir fiskinn sé mjög gott.

Þótt byrjun strandveiðanna sé mjög góð segir Hafsteinn hana raunar ekki vera óvenjulega. „Þetta hefur alltaf verið mjög gott í maí hérna.“

Allar tölur upp

Tölur sem Landssamband smábátaeigenda hefur tekið saman sýna að strandveiðin hefur farið vel af stað og að aflinn var meiri fyrstu fjóra dagana en fyrstu fjóra dagana í fyrra. Breytingin er mest á svæði D, sem nær frá Hornafirði upp að sunnanverðu Snæfellsnesi. Þar nemur aukningin í lönduðum tonnum af þorski 24 prósentum miðað við í fyrra. Þar hefur bátum einnig fjölgað mest milli ára. Voru þeir 127 talsins þessa fyrstu daga miðað við 106 í fyrra.