Framkvæmdin var gríðarmikil og kostnaðarsöm á þeirra tíma mælikvarða, en hófst á því að lagður var grjótgarður eftir Grandanum út í Örfirisey, sem þá var enn eyja.

Pétur H. Ármannsson arkitekt segir að ekkert hafi verið sjálfgefið í upphafi að höfnin myndi verða byggð í Reykjavík, en sú ákvörðun hafi haft mikil áhrif á það hvernig byggð átti eftir að þróast í höfuðborginni allt fram til dagsins í dag.

Hraunið eða mórinn

Vel megi velta því fyrir sér af hverju hún var til dæmis ekki frekar byggð í Hafnarfirði, þar sem hafnarskilyrði eru í raun miklu betri.

„Þar var líka löng hefð fyrir verslunarstarfsemi, alveg frá því Bretar og Þjóðverjar voru að versla við Ísland á öldum áður. Þeir voru með aðstöðu í Hafnarfirði en ekki í Reykjavík.“

Það sem réði úrslitum er líklega að aðstæður til þess að byggja upp þéttbýli voru miklu betri í Reykjavík en í Hafnarfirði.

„Í Hafnarfirði var það hraunið sem setti strik í reikninginn, og það var líka spurning um eldsneyti. Það þurfti mó til að kynda hús og í Hafnarfirði var dálítið langt í mó. Atriði eins og þessi, sem við erum löngu búin að gleyma, geta haft áhrif á það hvernig bæir myndast.“

Viðey eða Skerjafjörður

Áður en tekin var ákvörðun um að byggja Reykjavíkurhöfn á núverandi stað, þá voru menn búnir að spá í ýmislegt.

„Milljónafélagið kom til dæmis upp hafnaraðstöðu á austurodda Viðeyjar um 1907 af því þar var aðdjúpt. Sameinaða danska gufuskipafélagið og dönsku varðskipin höfðu þar aðstöðu áður en Reykjavíkurhöfn var byggð. Einnig voru Einar Benediktsson og fleiri athafnamenn með hugmyndir um að byggja höfn í Skildinganeslandi við Skerjafjörð.“

Pétur segir því að upphaflega hafi ekkert verið sjálfgefið að höfnin yrði byggð á núverandi stað, „en þetta var niðurstaðan og hafði auðvitað heilmikil áhrif á það hvernig Reykjavík þróaðist.“

Innréttingarnar

Löngu áður en höfnin kom til sögunnar hafði reyndar verið tekin ákvörðun um að Innréttingunum yrði fundinn staður í Reykjavík og í framhaldi af því byggðust helstu stofnanir landsins byggst upp þar. Á þeim tíma var verslunarstaður úti í Örfirisey, sem þá var bókstaflega eyja en tengd landinu með granda.

„Þar voru fyrstu verslunarhúsin í Reykjavík, en síðar fluttust þau í land og byggðust við enda Aðalstrætis og meðfram Hafnarstrætinu sem lagt var í sveig meðfram fjörunni. Kaupmennirnir og verslunarfélögin sem þá versluðu í Reykjavík voru flest erlend félög, og þau höfðu fram eftir 19. öld hvert sína bryggjuna þarna í flæðarmálinu. Þá þurfti að afskipa öllum varningi af farskipunum yfir í báta og flytja í land.“

Þáttaskil

Það er því ekki nema rúm öld síðan skip fóru að geta lagst að landi við miðbæ Reykjavíkur.

„Við þetta urðu þáttaskil og þetta var gríðarleg framkvæmd. Leitað var til danskra verkfræðinga og sú saga öll hefur verið rakin af sagnfræðingum.“

Knud Zimsen, sem þá var borgarstjóri, lýsir hafnargerðinni vel í ævisögu sinni og Guðjón Friðriksson hefur ritað sögu Reykjavíkurhafnar þar sem hún er öll rakin í smáatriðum.

Samið var við danskan verkfræðing, N.C. Monberg um gerð hafnarinnar og byggði útfærsla mannvirkjanna á tillögum hans.

„Monberg var virtur athafnamaðurí Danmörku, kom hér að fleiri hafnarmannvirkjum, var bæði ráðgjafi og stóð fyrir framkvæmdum að einhverju leyti eða fyrirtæki á hans vegum.“

Fyrstu framkvæmdirnar voru þær að reisa hafnargarðana til að mynda skjól þar fyrir innan „og svo fljótlega eftir að hafnargarðarnir voru byggðir var farið að fylla upp í höfnina til að skapa athafnasvæði.“

  • Grandinn út í Örfirisey var harla mjósleginn á fyrstu áratugum hafnarinnar.

Vörugeymslur

Snemma var farið að reisa vörugeymsluhús við nýju höfnina, enda fóru þar um allar vörur sem komu til landsins.

„Kunnast af þessum byggingum er Hafnarhúsið, sem Reykjavíkurhöfn stóð fyrir að reisa á kreppuárunum. Það var á sínum tíma eitt stærsta steinsteypuhús landsins, byggt í tveimur áföngum og var fyrst og fremst vörugeymsluhús en þar voru líka skrifstofur í endunum.“

Pétur segir að hönnun Hafnarhússins sé merkileg og enn í dag sé hún sérstök, en húsið hefur nú fengið nýtt hlutverk eftir að Listasafn Reykjavíkur fékk aðstöðu í miðhluta þess

„Grófarhúsið þar sem Borgarbókasafn og Borgarskjalasafn eru nú til húsa var einnig vörugeymsluhús í upphafi. Samband íslenskra samvinnufélaga reisti hluta af þessu húsi fyrir vörugeymslur og Á. Einarsson og Funk byggði hinn helminginn.“

Fyrsta skipulagið

Þegar þarna var komið sögu var búið að gera fyrsta heildarskipulag Reykajvíkur. Það var unnið á árunum 1924 til 1927. Samkvæmt því áttu svæðin umhverfis höfnina yrðu fyrst og fremst athafnasvæði.

„Það datt engum á þeim tíma í hug að fara að reisa íbúðarhús við höfnina. Þetta þótti alltof dýrmætt land, og það var nánast lokað af eins og athafnasvæði eru oft. Þarna var og er að einhverju leyti enn mjög fjölbreytt atvinnustarfsemi.“

Bæði Slippfélagið og Daníelsslippur reistu þarna sín mannvirki og svo var fljótlega farið að byggja þarna fiskvinnsluhús. Alliance-húsið var byggt í Ánanaustum og aðeins norðar við Grandagarð var síðar reist hús fyrir Fiskiðjuver ríkisins. Það hús keypti Bæjarútgerð Reykjavíkur síðar og þar er nú Sjóminjasafnið til húsa.

„Í Alliance-húsinu var saltfiskverkun og þurrkun. Það hús stendur enn og hefur verið fært í upprunalegt form að nokkru leyti. Svo var Kveldúlfur, útgerðarfélag Thorsarana, með sína aðstöðu á Skúlagötu þar sem svörtu háhýsin eru núna. Það voru mjög miklar og fallegar byggingar sem eru núna löngu horfnar og er eftirsjá að. Mikið af atvinnubyggingum sem tengdust útgerð og hafnarstarfsemi á sínum tíma eru horfnar en aðrar hafa varðveist og njóta verndar í dag.“

Það á til dæmis við um verbúðirnar á Grandagarði sem Reykjavíkurhöfn lét reisa á árunum 1945-1955 eftir uppdráttum Eiríks Einarsonar arkitekts og Valgeirs Björnsonar verkfræðings.

„Þær eru friðlýstar, enda mjög sérstök mannvirki og voru upphaflega ætlaðar fyrir bátaútgerðarmenn sem þurftu aðstöðu fyrir sína starfsemi, veiðarfæri og fiskvinnslu og slíkt, en eru núna samt smám saman að fá nýtt hlutverk.“

Hafnarvogin

Pétur minnir líka á að Reykjavík var á þessum tíma kolakynt borg.

„Það þurfti að skipa upp miklu magni af kolum. Þar sem Harpan er núna og þar við hliðina þar sem verið er að reisa Landsbankann, þar var Kolaportið og stór uppskipunarkrani, kolahegrinn.

Þá er eitt mannvirki sem Pétur segir ekki mega gleymast og allir borgarbúar þekkja, en það er gamla Hafnarvigtin við Ægisgötu þar sem núna er Hamborgarabúllan, teiknuð af Einari Sveinssyni og Gunnari Ólafssyni arkitektum.„Þetta er mjög sérstök bygging. Hún var teiknuð sem kaffistofa að hluta og að hluta til sem vigtarhús, svo var turninn og undir honum söluturn, þannig að þessi örlitla bygging hafði þríþætt hlutverk auk þess að vera til prýðis í miðbænum. Hún hefur núna fengið nýtt hlutverk og er mikils virði fyrir umhverfið eins og verbúðirnar þar við hliðina þar sem eru komin veitingahús.“

Stóru vélsmiðurnar

Þannig má lengi telja þau hús sem reist hafa verið við höfnina og hafa að geyma merkilega sögu. Pétur minnir til dæmis á stóru vélsmiðjurnar, Hamarshúsið og Héðinshúsið, sem gegndu mikilvægu hlutverki á sinni tíð.

„Vélsmiðjan Héðinn var umsvifamikil um árabil og þjónaði einkum sjávarútveginum. Á stríðsárunum vann vélsmiðjan mikið fyrir setuliðið Hamarshúsið er handan Tryggvagötu frá Hamborgarabúllunni, dálítið langt síðan því var breytt í íbúðir. Svo er gamla Fiskhöllin á horninu á Norðurstíg, sem núna er búið að endurbyggja frá grunni með upphaflega turninum. Hún var reyndar byggð áður en höfnin var gerð. Fiskhöllin tilheyrir fyrstu kynslóð af atvinnuhúsum sem var byggð þarna við höfnina. Þannig má svo lengi telja, Naustið við Vesturgötu er líka hús sem tengdist útgerð og verslun, þannig að þetta er mikil saga sem tengd er þessum slóðum. Höfnin er í rauninni einn af merkustu sögustöðum Reykjavíkur.“

Gámarnir breyttu höfninni

Annað mannvirki frá sama tíma og Tollstöðin var Faxaskáli, sem Eimskipafélag Íslands lét byggja seint á sjöunda ártugnum og stóð á þeim slóðum sunnan við Hörpu þar sem verið er að reisa nýjar höfuðstöðvar Landsbankans og lúxushótel.

„Faxaskáli er núna horfinn en var eitt fullkomnasta vörugeymsluhús landsins á þeim tíma, teiknað af Halldóri H. Jónssyni arkitekt. Það var byggt rétt áður en gámaflutningar fóru að tíðkast og þá var það allt miðað við lyftara og lyftur, en ekki hannað með tilliti til gámaflutninga. Fljótlega eftir að Faxaskáli reis var farið að huga að því að byggja Sundahöfn og smám saman flytjast allir vöruflutningarnir þangað. Þá er komin upp staða sem var svipuð og víða á hafnarsvæðum í öðrum borgum að elsti hluti hafnarinnar hentaði ekki lengur fyrir öll umsvif sem gámaflutningar höfðu í för með sér. Það var ekki lengur þörf fyrir vörugeymslur í Tollstöðinni og Hafnarhúsinu og Faxaskála, þannig að smám saman hvarf þessi starfsemi úr austurhöfninni.“

  • Hafnarhúsið og Grófarhúsið voru óvenjulegar byggingar, vörugeymslur neðst en með skrifstofum á efri hæðum.

Miðborgin útvíkkuð

„Það var frekar seint sem menn fóru að sjá fram á möguleikana á að útvíkka miðborgina fram á hafnarbakkann. Á tímum vöruhafnarinnar varhafnarsvæðið lokað af. Það var vaktað og hafnarstjórn hafði yfirumsjón og skipulagsvald yfir þessu svæði. Það kostaðibreytingar í kerfinu þegar borgarskipulagið fór að teygja sig þarna inn á helgunarsvæði hafnarinnar.“

Það er ekki fyrr en á tíunda áratugnum sem Reykjavíkurborg tekur ákvörðun um að nýta hluta Hafnarhússins, þar sem vörugeymslurnar höfðu verið, og breyta þeim í sýningarrými fyrir Listasafn Reykjavíkur.

„Um sama leyti er ákveðið að taka það sem heitir núna Grófarhúsið, þar sem voru líka bara pakkhús, og breyta þeim í safnahús fyrir Borgarbókasafn og fleiri söfn á vegum borgarinnar. Þetta var liður í því að efla mannlíf í miðbænum, sérstaklega í þessum hluta kvosarinnar.“

Pétur segir að þegar svo tekin er ákvörðun um að reisa tónlistarhús við Ingólfsgarð og svæðið þar fyrir sunnan, milli Hörpu og Lækjartorg, yrði þróunarsvæði þá er í raun verið að rýma fyrir útvíkkun á miðborginni.

„Að þeirri hugmynd hefur síðan verið unnið núna í tuttugu ár. Það byrjar með Hörpunni og þetta hefur allt tekið langan tíma, það hefur orðið bankahrun og farsótt og annað sem hefur orðið til að tefja, en núna hillir undir að ný byggð á svæðinu taki á sig endanlega mynd.“

Gríðarleg breyting

Með uppbyggingunni við Austurhöfn verður gríðarleg breyting á miðborg Reykjavíkur.

„Ég held að það sé leit að jafn stóru svæði í hjarta miðborgar  hérna í nágrannalöndunum sem allt í einu opnaðist og það var hægt að byggja við miðborgina í þessa átt. Ætla má að fermetratalan í nýbyggingunum sem þar er verið að reisa slagi hátt upp í gólfflöt þeirra bygginga sem eru fyrir í gömlu Kvosinni

Inni í áætlunum um Hörpu var alltaf gert ráð fyrir hóteli sem hægt væri að nýta til stuðnings þeirri ráðstefnustarfsemi sem yrði í tónlistarhúsinu.

„Þetta hótel er nú risið og er verið að innrétta það. Jafnframt hafa risið íbúðar- og skrifstofubyggingar með borgarvænni starfsemi á jarðhæð. Í gegnum þetta hverfi liggur ný gata sem heitir Reykjastræti og verður tenging miðbæjarins við Hörpu. Einnig er hægt að ganga meðfram nýbyggingum næst höfninni í súlnagöngum. Ég hvet alla til að skoða það. Þegar þar verða komin veitingahús á götuhæð verður hægt að sitja þar í kvöldsól og horfa yfir höfnina.“

Jafnvægi haldið

Breytingarnar sem orðið hafa við höfnina á síðustu árum eru miklar, bæði við Kvosina en einnig vestar og úti á Granda.

„Það sem mér finnst jákvætt við þessa breytingu er að hún er að gerast smátt og smátt. Það er ekki þannig að allri hafnarstarfsemi sé ýtt burt, allri fiskvinnslu og slippnum og öðru. Þetta fær ennþá að vera. Menn hafa farið hægt og rólega í þessa umbreytingu og ég held að það hafi verið vel. Það eiga eftir að koma þarna nýbyggingar að einhverju leyti en jafnframt er verið að taka eldri hús sem voru verbúðir, vörugeymslur og fiskvinnsluhús fyrir annars konar starfsemi án þess að breyta mikið yfirbragðinu.“

Pétur hefur verið beðinn um að fara með erlenda arkitekta í skoðunarferðir um miðborgina, og segist þá alltaf fara með þá niður að höfn.

„Ég fer alltaf þarna þar sem Kaffivagninn er. Við höfum gengið þarna um og horft á miðbæinn frá því sjónarhorni þar sem höfnin er í forgrunni með Hallgrímskirkju og Skólavörðuholt í baksýn..“

Upphafning á höfninni

„Reykjavíkurhöfn er ekki nein stásshöfn, hún verður það aldrei,“ segir Pétur. Þetta er ekki eins og í Mónakó með lúxussnekkjum og sól og fíneríi. Hún er á móti norðri og það er oft kuldalegt. Hún hefur þetta iðnaðaryfirbragð og þar er öflugur sjávarútvegur. Það blandast allt saman við þetta nýja mannlíf.“

Hann segir þessa þróun stefna í rétta átt, að sínu mati.

„Það væri mikil synd ef það væri ekki lengur sjávarútvegur þarna. Það væri ekki lengur slippur og annað sem minnir á að þetta er alvöru höfn. Nútímavöruflutningar eru þess eðlis að það hentar ekki að vera með almenningssvæði þar sem þeir eru. Það eru bara lokuð svæði með stórvirkum vélum og þar á enginn erindi. En fiskvinnslan og útgerðin getur vel farið saman við að þetta sé höfn þar sem miðborgarlífið er komið fram á bakkann að einhverju leyti.“

Það er jákvætt að tekist hefur að halda nokkuð í þetta jafnvægi, meðal annars með því að koma menningarstofnunum eins og Hörpu og Listasafni Reykjavíkur fyrir við höfnina.

„Harpa er ákveðin upphafning á höfninni. Hún er eins og viti eða vörður við innsiglinguna í bæinn. Þegar teknar eru myndir af Hörpu þá er höfnin alltaf í forgrunni. Í húsinu horfir maður yfir á skipin koma og fara þannig að menningin er þarna nátengd sjávarútveginum. Þetta er sérstakt og skemmtilegt. Reykjavík snýr ekki baki sínu við því sem er í rauninni lífæð bæjarins heldur er hún orðin hluti af borgarlífinu og þeirri mynd sem dregin er upp af borginni.

* * * * *

Sjómennskan í Vesturbænum

Að sögn Péturs er löng hefð fyrir því að í Vesturbæ Reykjavíkur hafi sjómenn búið.

„Vesturbærinn hefur alla tíð verið nátengdari gömlu höfninni heldur en Austurbærinn. Þar var saltfiskverkun og mestöll fiskvinnslan.

Byggðin í Reykjavík á uppruna sinn í Kvosinni svonefndu, lægðinni milli Tjarnarinnar og hafnarinnar, milli Aðalstrætis og Lækjargötu.

„Fljótlega á 19. öld fer bærinn svo að þróast bæði til austurs og vesturs þegar til verða götur eins og Laugavegurinn og Vesturgatan. Vesturgatan verður kjölfestan í gamla vesturbænum. Það voru mikið til sjómenn og skipstjórar sem reistu hús meðfram Vesturgötunni. Þar voru líka smærri tómthúsmannabýli, efnaminni fjölskyldur byggðu sér þar hús við Vesturgötu, Framnesveg og Bræðraborgarstíg.“

Það var ekki fyrr en seinna sem hverfið á Landakotshæð sunnan Vesturgötu byggðist, túnin milli Grjótaþorps og vestur undir Bræðraborgarstíg. Götur eins og til dæmis Ránargata, Bárugata og Öldugata.

„Það svæði byggist ekki fyrr en um 1925 til 1930. Þar eru mörg hús sem voru kallaðar skipstjóravillur, vegleg steinhús sem þekktir skipstjórnarmenn reistu þarna. Stýrimannaskólinn hót starfsemi í svonefndu Doktorshúsi ofan við Vesturgötu árið 1890 og flutti síðan í nýtt hús rétt fyrir aldamótin 1900. Stýrimannastígur var einmitt lagður upp að því húsi út frá Vesturgötu. Við stíginn byggðust fljótlega reisuleg timburhús. Á milli Stýrimannastígs og Garðastrætis voru tún sem voru í einkaeigu og þeir sem áttu þau nýttu lengi vel til heysláttu og beitar. Það er skýringin á því að byggðin þar er yngri heldur en byggðin við Bræðraborgarstíg og Framnesveg jafnvel þó hún liggi miklu nær miðbænum. Þannig að miðbærinn þróaðist ekki jafnt og þétt út  frá miðju heldur var þarna gap og Vesturgatan var brú sem tengdi byggðina þarna alla vestast miðbænum.“

Gamla steinbryggjan
Gamla steinbryggjan
© Gígja Einars (Gígja Einars)

  • Gamla steinbryggjan á mótum Tryggvagötu og Pósthússtrætis er komin í dagsljósið á ný. MYND/Gígja Einarsdóttir

Stigu á land við steinbryggjuna

Gamla steinbryggjan á mótum Tryggvagötu og Pósthússtrætis komin fram í dagsljósið á ný eftir að hafa verið grafin undir malbiki áratugum saman. Bryggjan var sú fyrsta sem bæjarstjórn Reykjavíkur lét byggja, en það var strax árið 1884 og var það mikil framkvæmd á sínum tíma.

„Þá gegndi steinbryggjan mikilvægu hlutverki. Flestir sem komu á land til Reykjavíkur stigu á land við steinbryggjuna. Þarna var tekið á móti tignum gestum, konungborni fólki og þá var Pósthússtræti skreytt, því þar marséruðu menn af skipsfjöl inn á Austurvöll.“

Pósthússtræti hafi því fengið það hlutverk að vera eins konar landgangur inn í landið. Þess megi sjá merki í sumum þeim byggingum sem byggðar voru við Pósthússtræti og má þar nefna Reykjavíkurapótek, Pósthúsið, Hótel Borg og Landsbankann að ógleymdum höfuðstöðvum Eimskipafélags Íslands. Þetta veigamikla hlutverk Pósthússtrætis í bænum sé núna mikið til gleymt og grafið.

„Einnig fór vel á því Eimskipafélagið hafði höfuðstöðvar sínar við endann á steinbryggjunni, því að þetta félag annaðist nú mikið til alla farþegaflutninga til landsins.“

Pétur segir sérstaklega ánægjulegt að nú sé búið að svipta hulunni af gömlu steinbryggjunni.

„Mér finnst hafa tekist mjög vel með fráganginn á því, þannig að minningin um þennan merkilega landgang er nú aftur orðin sýnileg.“

Stórhuga hugmynd um hraðbraut

Grunnurinn að þróun hafnarsvæðisins var lagður á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar en um hálfri öld síðar, um 1960 eða 1970, fóru svo aðrar breytingar að gera vart við sig.

„Þá kom nýtt aðalskipulag Reykjavíkur og þá fóru menn að huga meira að bílaumferð og tengingunni milli Vesturbæjarins og Austurbæjarins sem hafði alltaf verið erfið í gegnum Kvosina sökum þrengsla. Þá kom fram stórhuga hugmynd um það að byggja hraðbraut eða umferðaræð á súlum yfir hafnarsvæðið. Þessa umferðarbrú átti að byrja sem aðkoman að Hörpu er í dag við Seðlabankann, og fara svo á sveig yfir að Geirsgötu og áfram vestur undir Ægisgötu. Þetta var á sama tíma verið að hanna Tollstöðina, og var sú bygging var hönnuð út frá þeirri forsendu að þessi brú myndi koma. Neðstu tvær hæðirnar á Tollstöðinni, þar sem núna er Kolaportið, voru vörugeymslur í upphafi með beinni aðkomu að hafnarbakkanum þar sem Geirsgata er núna. Þriðja hæðin var opið bílastæði með aðkomu frá þessariupphækkuðu umferðargötu.“

Aldrei varð neitt úr þessum áformum og á endanum var hætt við að reisa þessa hraðbraut, en þó var byggður smá bútur af henni sem hluti af Tollstöðinni. Til bráðabirgða var gerð lítil trébrú upp á þriðju hæð Tollstöðvarinnar svo hægt væri að nýta þar bílastæðin.

„Hún er horfin núna, en var þar sem Hafnartorgið er komið. Þeir sem störfuðu í Tollhúsinu höfðu bílastæði þarna uppi, en þá var þar til Skattstofan og Tollstjóraembættið og Tollgæslan.“

„Hafnarhúsið var tímamótabygging á sínum tíma, byggt á kreppuárunum og þar var bæði vörugeymsla og skrifstofur. Það má segja að Tollstöðin hafi á sama hátt verið mjög táknræn bygging og merkileg fyrir það hvernig hún var annars vegar að þjóna höfninni sem vörugeymsla og hins vegar sem skrifstofuhús, en með gjörólíkum forsendum. Nú er verið að breyta Tryggvagötunni þannig að verk Gerðar Helgadóttur njóti sín betur.“