Íslenskir framleiðendur framleiddu nálægt 27 þúsund tonnum af loðnuhrognum á síðustu loðnuvertíð. Í góðu árferði er heimsmarkaður fyrir þessa afurð að hámarki 12 þúsund tonn og Íslendingar eru stærstu framleiðendurnir í heimi. Magnið sem varð til í íslenskum uppsjávarvinnslum á síðustu vertíð dugar því markaðnum til næstum þriggja ára.

Mikil birgðasöfnun

Friðleifur Friðleifsson, deildarstjóri hjá Íslenskum sjávarafurðum, segir að á vertíðinni 2022 hafi fengist upp undir 17 dollarar fyrir kílóið af loðnuhrognum en staðan á markaðnum nú er sú að nálægt 6 dollarar fengjust fyrir kílóið yrði það yfirleitt selt á þeim verðum. Framleiðendur halda því að sér höndum sem hefur leitt til mikillar birgðasöfnunar. Verði loðnuvertíð eftir áramót mun að óbreyttu enn frekar bætast við birgðir án þess að heimsmarkaður stækki. Töluvert er af loðnuhrognum í frystigeymslum á Íslandi og spurning hvenær þær hætta að geta tekið við meiru verði loðna veidd á næstunni. Sama staða er í frystigeymslum víðast í Evrópu. Allt er stútfullt.

Óvissa eins og alltaf

Framleiðendur flestir eru ekki ósáttir við að eiga birgðir núna þegar óvissa ríkir um loðnuveiðar en eins og alltaf renna menn blint í sjóinn með öll framtíðarplön.

Friðleifur bendir á að alkunna er að meiri sveiflur eru í loðnuveiðum og -vinnslu en í öðrum veiðum og vinnslu. Eitt árið séu framleidd allt upp undir 30.000 tonn af loðnuhrognum og það næsta jafnvel ekki neitt. Með tilheyrandi áhrifum á markaðinn sem leitar þá í aðra vöru þegar ekkert er framboðið.

Friðleifur Friðleifsson deildarstjóri hjá Iceland Seafood.
Friðleifur Friðleifsson deildarstjóri hjá Iceland Seafood.

Vegna þess hve heimsmarkaðurinn fyrir óunnin loðnuhrogn er lítill telur hann að íslenskir framleiðendur mættu huga að því að draga úr magnframleiðslu á loðnuhrognum. Jafnvel leita leiða til að fjárfesta í vinnslum nær mörkuðum sem gætu sérhæft sig í vinnslu loðnuhrogna fyrir veitingahúsamarkaðinn og smásölu. Eða jafnvel frekari vinnslu innanlands með öðrum pakkningum eða lausnum sem fela í sér fleiri snertifleti úti á markaðnum sem er áhugasamur um þessar verðmætu afurðir.

Úr hráefnisvinnslu í meiri fullvinnslu

Eins og staðan er núna eru hér framleidd loðnuhrogn í massavís fyrir stórnotendur í Asíu sem vinna hrognin áfram inn á veitingahúsamarkaðinn og í neytendapakkningar. Virðisaukinn af þessari mikilvægu auðlind úr hafinu í kringum Ísland verður eftir annars staðar. Þessa hluti mætti gera á Íslandi með meiri fullvinnslu, tilheyrandi atvinnusköpun og auknum útflutningsverðmætum en ekki síður með vinnslu erlendis nær mörkuðunum.

„Same old – same old“

Friðleifur segir framleiðendur hafi verið að framleiða sömu vöruna um áratugaskeið og vöruþróun hafi verið lítil sem engin.

Á þessu eru þó undantekningar eins og Marhólmar, sem áður var dótturfyrirtæki Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sem er gott dæmi um viðleitni í þessa átt. Það fyrirtæki hefur sérhæft sig í áframvinnslu á hrognum og masago fyrir erlenda veitingahúsamarkaði. Það sama gerir Vignir Jónsson hf. á Akranesi, dótturfélag Brims. En koma þurfi loðnuhrognaframleiðslunni á Íslandi í fleiri farvegi sem hægt er að stýra betur. Vinnslustöðin hefur nú eignast Marhólma að öllu leyti og hyggst leggja aukna áherslu á fullvinnslu á loðnuhrognum fyrir veitingahúsamarkaði erlendis, líkt og fyrirtækið hefur gert með saltfiskframleiðslu fyrir Portúgal í gegnum dótturfyrirtæki sitt Grupeixe þar í landi. Mjór er mikils vísir en einhvern veginn virðist borðleggjandi að það gæti verið hagfellt fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að huga að vöruþróun og öflugri fullvinnslu á loðnu.