Vinnslustöðin hefur fest kaup á þremur gámum með hollenskum tæknibúnaði sem breytir sjó í drykkjarvatn. Ætla má að fyrsti gámurinn komi til landsins milli jóla og nýárs en hinir tveir fljótlega á nýju ári. Tiltölulega einfalt er að tengja búnaðinn við veitukerfi bæjar eða fyrirtækja. Þetta kemur fram á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Fullnægir mestallri vatnsþörf í Eyjum

Sjó er dælt úr borholum í gegnum öflugt síukerfi sem eingöngu hleypir í gegnum sig vatnssameindinni H2O. Með öðrum orðum breytist sjór í ferlinu í tandurhreint vatn sem laust er með öllu við bakteríur, veirur og yfirleitt allt annað en sjálfa vatnssameindina H2O.

Búnaður í hverjum gámi afkastar um 600 tonnum á sólarhring eða alls um 1.800 tonnum ef allar gámar væru virkjaðir samtímis. Full afköst svara með öðrum til þess að fullnægja mestallri vatnsþörf heimila og fyrirtækja í Vestmannaeyjum. Dælurnar í gámunum eru rafdrifnar, nota tiltölulega lítinn straum og teljast því ekki dýrar í rekstri.

Vel þekkt tækni

Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri Vinnslustöðvarinnar, hóf ákafa leit að tæknibúnaði þessarar náttúru eftir að vatnsleiðslan til Eyja skemmdist við það að akkeri Hugins VE festist í henni. Willum hafði reyndar skyggnst nokkuð um bekki eftir svona búnaði áður þegar fyrir lá að Vinnslustöðin fengi ekki það vatn sem hún þyrfti til starfsemi sinnar ef og þegar loðnuvertíð hæfist í vetur.

„Síutækni til að hreinsa sjó og gera drykkjarhæfan er vel þekkt á mörgum stöðum erlendis, til dæmis í Flórída í Bandaríkjunum, á Arabíuskaga og í mörgum Afríkuríkjum. Ég hafði samband við um 40 framleiðendur búnaðarins um víða veröld en framleiðslutíminn var alls staðar 20 til 40 vikur, sem gekk ekki fyrir okkur. Við þurftum búnaðinn í hvelli!

Svo datt ég óvænt ofan á fyrirtæki í Hollandi sem var að græja þrjá gáma fyrir kaupanda í Afríku og fékk jafnframt að vita að Afríkumennirnir væru hugsanlega reiðubúnir að leyfa Vinnslustöðinni að ganga inn í samning þeirra og bíða sjálfir lengur eftir sínum búnaði. Það reyndist rétt vera. Núna um miðja vikuna fengum við og hollensku framleiðendurnir grænt ljós frá Afríku og í dag var skrifað undir kaupsamninga.

Ísfélagið og Vestmannaeyjabær

Hver gámur og nauðsynlegur fylgibúnaður kostar jafnvirði 90-100 milljóna króna hingað kominn, auk tengingarkostnaðar hér. Ekki tekur langan tíma að ganga frá tengingum og nauðsynlegum tæknimálum til að hefja vatnsframleiðslu.

Auðvitað liggur fyrir að Vinnslustöðin þarf einungis einn gám til að fullnægja eigin þörfum fyrir vatn. Fyrirtækið heldur að sjálfsögðu einum gámi en mun bjóða Ísfélaginu og Vestmannaeyjabæ að kaupa hina tvo.“