Í Árbók Barðastrandarsýslu frá árinu 1949 leynist greinarkorn nokkuð athyglisvert. Þar heldur á penna Árni Friðriksson fiskifræðingur, sem veltir fyrir sér áhrifum þeirra breytinga sem hann merkir í hafinu. Þó langt sé um liðið er margt í grein hans kunnuglegt og líkist því sem nú er. Er þá ekki sterkt að orði kveðið.

Grein sína nefnir hann einmitt í anda þess sem málið snýst um, eða Heitur sjór. Í upphafi máls síns segir hann að þótt margt hafi verið ritað um veður og veðurfar á Íslandi þá sé áberandi að heimildir greini frekar frá því sem aflaga fer en því sem gengur sinn vanagang eða er landsmönnum hagfellt.

„Þó endast heimildir til þess að sannfæra okkur um það, að loftslag hér á landi hefur hvað eftir annað tekið stórfeldum breytingum og er þess ekki langt að minnast, að árferði var hér árum saman allt annað og verra en það hefur verið nú í nokkuð mörg ár, ef undanskilinn er síðastliðinn vetur.“

En Árni segist ekki hafa stungið niður penna „til að tala um veðrið.“ Heldur að ræða þær breytingar sem hann sér á dýralífi við landið næstliðin ár og áratugi.

Konungur konunganna

„Við getum ekki rætt breytingar, sem orðið hafa á íbúum Ægis upp á síðkastið, án þess að telja fyrstan konung konunganna á þessum slóðum, þorskinn,“ skrifar Árni og segir að frá því að fiskirannsóknir hófust um aldamótin 1900 og fram á miðjan þriðja tug aldarinnar hafi þorskveiðar virst í nokkuð föstum skorðum.

Hann nefnir að þegar kollegi hans, Bjarni Sæmundsson, skrifaði fiskabók sína árið 1926, hafi ekkert verið vitað um að þorskur gengi af Íslandsmiðum til annarra landa. En á næstu árum þar á eftir hafi stórfeldar göngur til Grænlands að lokinni hrygningu. Þá hafi þorskafli tekið að bregðast sjómönnum við kaldari hluta landsins á sumrin, og vísar þar til sjávarhitans. Merkingar á þorski hafi sýnt að fiskurinn sótti aftur hingað frá Grænlandi á hrygningarstöðvar en á árunum um og eftir 1930 verði brögð að því að hrygningarsvæðið sé ekki lengur einvörðungu bundið við Suður- og Suðvesturland. Þá veiddist vertíðarfiskur snemma vors hringinn í kringum landið, þótt aðalvertíðin hafi enn verið á sínum fornu slóðum, eins og hann orðar það.

  • Það voru aðrir tímar í íslenskum sjávarútvegi á þeim tíma sem Árni skrifaði grein sína. Hér er unnið við síldarnót um borð í nótabátum á Djúpavík á Ströndum árið 1950. Síldarnætur um þetta leyti voru ekki úr nyloni og þurfti því að „hreyfa þær“, svo þær morknuðu ekki ef hitnaði í þeim þar sem þær lágu ónotaðar á milli veiðiferða. Mynd/Úr myndasafni Haraldar Sturlaugssonar.

„Eftir 1937 fer vetrarvertíð að bregðast, enda þótt fiskistofninn sé mjög stór. Á sama tíma færist hrygning þorsks við Grænland mjög í aukana, en fiskigöngur hingað dragast saman. Skýringin á þessu getur tæpast orðið önnur en sú, að þorskurinn hafi fundið hentug hrygningarskilyrði á nýjum slóðum, meðal annars við Grænland, og því eigi gengið á vanaleg vertíðarmið hér við land,“ segir Árni en bætir við að á allra síðustu árum, eða á tíma síðari heimsstyrjaldarinnar, hafi lifnaðarhættir þorsksins frekar virst breytast aftur til þess horfs sem áður var.

Síldin er Árna líka ofarlega í huga, og hann hugsar 25 ár til baka. Þá hafi fiskifræðingar ekki vitað betur en íslenska sumargotssíldin hrygndi einvörðungu við vestanverða suðurströnd landsins og í Faxaflóa.

„En á síðari árum höfum við komist að raun um, að hrygningin hefur eigi eingöngur farið fram á þessum slóðum, heldur og við austanverða suðurströndina í mjög stórum stíl, en einnig í Ísafjarðardjúpi, hvað eftir annað við Norðurland og í sumum fjörðum eystra. Þannig hefur sumargotssíldin, eins og þorskurinn, aukið viðkomusvæði sitt til svæða, sem áður voru of köld.“

Hagar sér óreglulega

„Þriðji íslenzki fiskurinn, sem reyndar hefur löngum hagað göngum sínum allóreglulega, virðist einnig hafa breytt lifnaðarháttum allmjög á síðari árum, en hann er loðnan. Áður hrygndi hún við suðurströndina í marz-maí, en síðar á árinu, í maí-júlí, einnig nokkuð í kalda sjónum. Síðan 1928 hefur orðið breyting á þessu. Loðnan hefur oft því nær alveg látið sig vanta í hlýja sjóinn, nema helzt á Hornafirði, þar sem hún hefur gert vart við sig nær því árlega. Á hinn bóginn hefur hún látið meira til sín taka en áður í kalda sjónum og verið þar á ferðinni fyrr á vorin en áður þekktist.“

Árni gengur ekki lengra í athugunum sínum á loðnunni. Kannski vegna þess að veiðar á loðnu voru einfaldlega ekki hafnar við Ísland á þessum tíma þó mikilvægi loðnunnar hafi verið vel þekkt sem fæða helstu stofna við landið.

  • Makrílrannsóknir um borð í Árna Friðrikssyni, hafrannsóknaskipinu sem ber nafn höfundar greinarinnar. Mynd/GB

Vart þarf að nefna að pælingar um loðnuna vega þungt í vinnu fiskifræðinga dagsins í dag. Ástæðan er breytt göngumynstur í kjölfar hlýnunar sjávar. Að baki er loðnubrestur og stærsta loðnuvertíð í tugi ára er í kortunum. Varla ofsagt að þessar öfgakenndu sveiflur eru óvæntar. Hvað þessu ræður eru rannsóknaspurningar sérfræðinga á þessari stundu en þorandi að fullyrða að sjávarhiti er þar stærsta breytan.

450 bárust á land

Þegar Árni víkur frá konungum fiskanna, eins og hann vísar til þeirra, þá gefur hann afar athyglisverða mynd af því sem vitað var um hafið á þeim tíma sem hann skrifar greinina sem og þær breytingar sem hann kemur auga á.

Þá höfðu fundist 145 tegundir fiska við Ísland. Af þeim sýnist honum að ekki færri en 39 hafi „mjakast norðar“ síðastliðin 25 ár, eða rúmlega fjórðungur allra íslenskra fiska sem þá voru þekktir.

Það er af of miklu að taka til að greina frá öllu því sem Árna finnst merkilegt í þessu samhengi. Hann hins vegar skiptir þessum fjórðungi nýbúa í fjóra flokka eftir eðli þeirra breytinga sem orðið hafa á lifnaðarháttum þeirra.

Fyrsta nefnir hann þá sem hafa fundist í fyrsta skipti. Þar nefnir hann að sverðfiskur veiddist við Austfirði 1936. Hann nefnir flekkaglitni og þrændaskötu en aðra kunnuglegri.

Þá nefnir hann þá sem „slæddust“ til Íslands við og við, en eru á hans tíð að verða sífellt algengari.

„Makríllinn hefur löngum slæðzt hingað, en sumarið 1944 var óvenjulega mikið um hann. Hann veiddist þá í snyrpinót í Ísafjarðardjúpi, og við N-land var hann algengur í síldartorfunum og sáust jafnvel torfur af hreinum makríl. Einn daginn veit ég til að 450 bárust á landi aðeins á Siglufirði.“

Þessi færsla vekur athygli vegna makrílgangna undanfarinna ára og veiða úr þessum stóra verðmæta stofni – og ekki síst deilna um nýtingu stofnsins sem hafa verið, og eru, áberandi.

Rak þá þann ellefta

Maður kinkar kolli yfir skrifum Árna. Svolítið í þeim anda að breytingarnar séu kunnuglegar og ekkert nýtt sé undir sólinni. Hlýnun hafi áhrif á vissar tegundir nú, eins og þær gerðu þá. Því sé mynstrið það sama og fylgi ákveðnum brautum.

Þá skrifar Árni.

„Túnfiskurinn var svo sjaldgæfur hér áður, að aðeins var vitað um tíu fiska fram til 1926. Árið eftir rak þann ellefta og í ágúst 1929 sáust margir við sunnanverða Austfirði, en þar hafði fiskur sá aldrei sézt áður. Á árunum 1930-1932 kom hann árlega, sáust þá oft tveir saman, og stundum smátorfur, 10-20 í senn. Sumarið 1944 var mikið um hann, einkum í Ísafjarðardjúpi, þar sem fimm veiddust á færi.“

  • Túnfiskur er sannarlega happafengur en sjaldgæfur. Beinar veiðar hafa reynst erfiðar þar sem ekki er á vísan að róa, en hann fæst stöku sinnum og þá sem meðafli í öðrum veiðum. Sumarið 1944 var hann veiddur á færi inn á Ísafjarðardjúpi. Aðsend mynd

Færaveiðar á túnfiski inn á Ísafjarðardjúpi. Allt í fína, náttúran fer sínar leiðir og einstaka sinnum gerist eitthvað sem verður ekki skýrt. Nú á dögum fjalla fréttir af túnfiski um veiðar japanskra línuskipa langt, langt fyrir sunnan Ísland og að íslenskur túnfiskkvóti er ekki lengur sóttur því það svarar ekki kostnaði að reyna veiðarnar.

Svo fleira var það ekki?

„Brynstyrtla hafði aldrei sézt hér við land fram til ársins 1937, að undanskildum einum fiski, sem Jónas Hallgrímsson segir að hafi fengizt í Arnarfirði, líklega kringum 1845. Haustið 1937 sáust torfur við bryggjurnar í Hafnarfirði, en sumarið og haustið 1941 var hún ein af algengustu fiskitegundum hér við land. Allt var það ungviði á öðru ári, 12-16 cm langur fiskur,“ skrifar Árni.

Torfur við bryggjur landsins eru ekki fréttirnar hérna. Á tímabili veiddu stórir sem smáir makríl á stöng af bryggjum og smábátar mokuðu upp sama fiski steinsnar þar frá. En brynstirtlutorfur svo þykkar að fiskifræðingur vísar til þeirra sem algengustu fiska við landið hljómar lygilega nú um stundir.

Fjórar styrjur hafa fengizt

Árni rekur hverja tegundina á fætur annarri sem er að gera sig gildandi með hlýnandi sjó. Þeir eru litlir fiskarnir sem voru að sýna sig en líka stórir.

„Þá er það beinhákarlinn, stærsti fiskur í íslenzkum sjó. Hann slangrar hingað norður við og við, en hefur verið miklu algengari en áður á síðari árum,“ skrifar Árni. Síðar bætir hann við í upptalningu sinni.

„Af tunglfiski hafa veiðzt 7 síðastliðin 100 ár, þrír þeirra eftir 1930. Fjórar styrjur hafa fengizt hér s.l. 190 ár, ein þeirra 1945.“

Hér mætti slá þann varnagla að allar þessar uppgötvanir sem Árni rekur hljóti að vera tilkomnar vegna þess að hafrannsóknir, jafnt sem aðrar rannsóknir á lífríki lands og hafs, höfðu eflst árin á undan. En Árni sér ástæðu til að taka það sérstaklega fram að svo hafi ekki verið.

„Það mætti ef til vill segja, að þær staðreyndir, sem hér hafa verið dregnar fram í dagsljósið, eigi rót sína ð rekja til aukinnar rannsóknar á dýralífi landsins síðasta mannsaldurinn. Því er þó tæplega til að dreifa, nema ef til vill að mjög litlu leyti. Öllum þeim uppgötvunum, sem gerðar hafa verið í þessum efnum á síðari árum ,er það nefnilega sameiginlegt, að um er að ræða aukið landnám dýrategundanna til norðurs. Væru þessar upplýsingar, sem að framan eru skráðar, fyrst og fremst aukinni þekkingu að þakka, mætti eins búast við að finna norðlægar tegundir sunnar en áður þekktist, en það er öðru nær en nokkru slíku sé til að dreifa,“ skrifar Árni og bendir til annarra landa. Sama sé þar uppi á teningnum, ekki síst á Grænlandi þar sem breytingarnar séu stórfelldar.

Kaldari sjór, kaldara loftslag

Árni veltir því fyrir sér í niðurlagi greinar sinnar hvaða áhrif hlýnandi sjór hafi haft á fiskveiðar við landið. Hann lætur þó gott heita enda séu spurningarnar of margar og áleitnar.

„Þó er óhætt að fullyrða að áhrifa hefur gætt og það stundum allalvarlega. Og þó að þeirri spurningu sé ekki svarað, er nóg af öðrum, sem gerast allnærgöngular, þegar farið er að íhuga þessi mál. Hin mikilvægasta þeirra er um það, hvort þetta hlýindatímabil í sjónum sé framtíðarástand, sem ef til vill eigi ennþá eftir að færast í aukana, eða hvort aftur sæki í sama horf og áður var: Kaldari sjór, kaldara loftslag. Það eru þekkt hlýindatímabil á undan þessu, að minnsta kosti tvö á öldinni, sem leið, kringum 1820 og um 1840 -1850, bæði hér á landi og annars staðar. En þetta tímabil, sem nú stendur yfir, er einstakt í sinni röð, bæði vegna þess, hve lengi það hefur staðið og eins af því hve víðtæk þróunin hefur verið og hve langt hún hefur gengið. Líkurnar fyrir því, að um sé að ræða framtíðarástand, eru harla litlar, óhætt að segja engar. Það, sem hér hefur gerst, er ekki eðlisfrábrugðið því, sem oft hefur gerst áður. En hvenær það verði, að aftur hverfi til kaldara skauts, er öllum hulið.“

Niðurstaða Árna er einfaldlega sú að sjávarhiti hér við land og annars staðar í Norðurhöfum sé hærri en hann hafði verið í aldarfjórðung og dýralífið breyst í fullu samræmi við það.