Útlit er fyrir að vinnsla á sjávarafurðum hefjist að einhverju leyti í Grindavík á ný strax á morgun. Gunnar Tómasson, framkvæmastjóri Þorbjarnar, segir að skjótt skipist veður í lofti.

„Við fáum að byrja einhverja vinnslu á morgun í Grindavík. Við fáum að fara með starfsmenn þangað, ekki marga reyndar, en allt er þetta í rétta átt,“ segir Gunnar.

Það sem liggur fyrir að gera strax er að pakka saltfiskafurðum og ganga frá þeim til útflutnings. Að öðrum kosti hefði þurft að flytja afurðir í miklu salti annað til að sinna þessu verkum. Nú þurfi ekki að flytja allt saltið með afurðunum til þess að ganga frá þeim til pökkunar.

Gunnar segir að afurðunum verði pakkað og þær sendar jafnóðum frá Grindavík og segir hann þetta góð tíðindi. Að jafnaði voru við vinnu 20-25 manns áður en bærinn var rýmdur en Gunnar á von á því að 10-12 manns verði við pökkunina á morgun.

„Svo gætum við hugsanlega bætt við þann hóp ef allt gengur vel,“ segir Gunnar.