Hagnaður Síldar­vinnslunnar nam 73,4 milljónum Banda­ríkja­dala á árinu 2023 sem sam­svarar ríf­lega 10 milljörðum króna á gengi dagsins.

Hagnaður á fjórða árs­fjórðungi nam 10,6 milljónum dala en fé­lagið sendi frá sér já­kvæða af­komu­við­vörun í byrjun febrúar þar sem á­ætlað var að EBITDA sam­stæðunnar myndi nema um 121 milljónum dala eða um 16,4 milljörðum króna.

Var það í nærri lagi en rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir nam 121,8 milljónum dala eða 16,5 milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera hækkun úr 104,6 milljónum dala árið 2022.

Í árs­upp­gjöri segir að um sé að ræða eitt besta rekstrar­ár Síldar­vinnslunnar til þessa. Loðnu­ver­tíð var góð í upp­hafi árs. Veiðar á makríl gengu vel og veiðarnar fóru að mestu fram í ís­lenskri lög­sögu.

Síld­veiðar á haust­mánuðum gengu vel á meðan um­fang bol­fisk­starf­semi jókst með til­komu Vísis í sam­stæðuna.

Nánar er sagt frá þessu á www.vb.is.