Þrír erlendir aðilar hafa lýst áhuga á því að hefja farþegaflutninga milli Evrópu og Þorlákshafnar og tveir af stærstu sementsframleiðendum heims sækjast þar eftir aðstöðu til útflutnings á efnum til sementsgerðar. Þá bendir margt til að minnsta kosti eitt af stóru íslensku sjávarútvegsfyrirtækjunum komi sér upp framtíðaraðstöðu í Þorlákshöfn.

Allt hangir þetta saman við stækkun hafnarinnar sem miða meðal annars að því að allt að 200 metra löng skip geti lagst að bryggju en framkvæmdir eru nú þegar hafnar.

Meðal helstu framkvæmda eru endurbygging Svartaskersbryggju, endurbygging Suðurvarargarðs, stytting austurgarðs og dýpkanir. Kostnaður við þessar framkvæmdir er metinn hátt í 5 milljarða króna.

„Þetta eru gríðarlega miklar framkvæmdir sem þegar eru hafnar. Innan tveggja ára ætti sú breyting að geta verið orðin að veruleika að við getum tekið á móti allt að 200 metra löngum skipum en lengstu skip sem við getum tekið á móti núna eru 120 metra löng. Til þess að þetta gangi upp þarf að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir sem auka flutningsgetuna verulega. Héðan fara núna þrjú flutningaskip í viku en þessi skip geta orðið fleiri og mun stærri í kjölfar stækkunarinnar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Farþega- og fraktflutningar

Elliði segir bæjaryfirvöld hafa verið í viðræðum við þrjá erlenda aðila um að farþegasiglingar hefjist milli Þorlákshafnar og Evrópu. Með stækkun hafnarinnar opnist einnig möguleiki á þessu. Um óformlegar viðræður hefur verið að ræða og hafa þessir aðilar ekki viljað koma fram undir nöfnum enn sem komið er. Þó sé ljóst að þarna fara aðilar með mikla þekkingu á þessu sviði og hafa verið í all nokkurn tíma að horfa til markaðarins á Íslandi.

Elliði Vignisson
Elliði Vignisson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. Aðsend mynd

„Frá því Ísland náði þeirri stöðu sem það hefur núna í ferðaþjónustu hafa ekki verið farþegasiglingar inn á suðvesturhorn landsins. Það eru allt aðrar forsendur núna fyrir reglulegum farþegaflutningum milli Evrópu og Íslands inn á suðvesturhornið. Rætt er um að þetta yrði svipaður rekstur og nú er á Norrænu sem siglir til Seyðisfjarðar, þ.e.a.s. frakt, farþegar og einkabílar. Ef af verður yrði þetta veruleg lyftistöng fyrir okkur,“ segir Elliði.

Annað sem eykst við stækkun hafnarinnar eru magnflutningur til og frá Þorlákshöfn sem hafa vaxið mikið og munu fyrirsjáanlega vaxa enn meira á næstu árum. Til að mynda hefur þýski iðnrisinn Heidelberg áhuga á því að reisa verksmiðju í Þorlákshöfn til að framleiða íblöndunarefni í steypu og flytja frá Þorlákshöfn sjóleiðina til Evrópu. Heidelberg er einn stærsti framleiðandi sements og íblöndunarefna í steypu í heimi. Fyrirtækið er að skipta út kolaösku sem íblöndunarefni fyrir önnur jarðefni. Elliði segir að fyrir hver milljón tonn sem Heidelberg framleiðir af íblöndunarefnum spari þeir allt að 700.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum sem ella færu út í andrúmsloftið. Starfsemi af þessu tagi sé því umhverfisvæn á alþjóðavísu.

Verður fljótt of lítil

Þýska fyrirtækið STAEG Power Minerals keypti í lok árs 2020 Hjörleifshöfða í Mýrdalshreppi og áformar að vinna um 1 milljón tonna af vikri úr námu við Hafursey. Jarðefnin yrðu flutt með skipum frá Þorlákshöfn til Evrópu. Í grein í Kjarnanum frá því í september í fyrra er haft eftir Guðmundi Oddgeirssyni bæjarfulltrúa í Ölfusi, að miðað við 249 vinnudaga á ári yrðu ferðir vörubíla með vikur til Þorlákshafnar 120 talsins á hverjum degi. Slíkt er umfangið. STAEG hefur sótt um leið í Þorlákshöfn undir starfsemi sína.

Elliði segir að flutt tonn frá Þorlákshöfn eigi eftir að vaxa veldisvexti þegar útflutningur á jarðefnum kemst á fullan skrið og við bætist einnig útflutningur á laxaafurðum.

„Við sjáum það nú, að þegar þessum áfanga við stækkun hafnarinnar lýkur innan tveggja ára verður höfnin strax orðin of lítil miðað við þau áform sem uppi eru. Við þurfum því strax að hefja næsta áfanga sem felst í því að stækka höfnina meira til norðurs með fleiri viðleguköntum. Ástæðan er ekki síst sú að við höfum einnig verið að fá fyrirspurnir frá mjög stöndugum sjávarútvegsfyrirtækjum sem sjá kosti þess að staðsetja sig hér við eina af stærri inn- og útflutningshöfnum landsins sem auk þess liggur vel við helstu bolfiskmiðum. Ég hef þá trú að innan fárra ára velji eitt af stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum sér framtíðar staðsetningu hér í Þorlákshöfn. Við höfum átt viðtöl og við finnum áhugann. Þeir sem til þekkja í sjávarútvegi vita hversu mikils virðis það er að staðsetja sig nálægt útflutningshöfn.“

Tvöföldun vegar

Auk alls þessa hafa þrjú fyrirtæki hafið undirbúning að landeldi á laxi í Þorlákshöfn, þ.e.a.s. Fiskeldi Ölfuss, Geo Salmo og Landeldi. Elliði segir þessa uppbyggingu ævintýri sem forréttindi sé að fylgjast með. Fjárfestingakostnaðurinn á bak við þau verkefni sem komin eru af stað í landeldinu sé þrefalt hærri en við byggingu nýja Landsspítalans, eða nálægt 160 milljarðar kr.. Áætlað er að framleiðslan verði nálægt 100 þúsund tonn af laxi þegar hún er komin í fullan gang með útflutningsverðmæti nálægt 120 milljörðum kr. á ári.

Elliði segir innri uppbyggingu fyrir alla þessa starfsemi í fullum gangi hjá sveitarfélaginu en það standi upp á ríkið að byggja upp sína innviði. Þrengslavegur sé vissulega ágætur vegur en hann sé ekki byggður upp fyrir þá miklu flutninga sem fara um hann núna hvað þá að hann anni þeim flutningum sem allt stefnir í að verði á næstu misserum.

„Við erum í samtali við ríkið um hvernig eigi að byggja upp aðra innviði. Þorlákshöfn er að verða ein helsta vöruhöfn landsins og á fáum öðrum stöðum á Íslandi er jafnmikil atvinnuuppbygging. Á allra næstu árum þarf að tvöfalda Þrengslaveginn og lýsa hann upp. Kostnaðurinn við það verður mun lægri en sú verðmætasköpun sem mun eiga sér stað í Þorlákshöfn.“