Þau Lára Hrönn og Siggeir Pétursbörn eru að hefja undirbúning að eldi á steinbít í Stykkishólmi. Farið verður af stað með um 20 tonn af steinbít og hann alinn áfram í svokölluðu dúkakeri. Verkefnið verður unnið í samstarfi við og Matís ohf.

Lára Hrönn segir að ráðgert sé að veiða steinbít meðan hann er magur, nálægt landi og þegar lítið fæst fyrir hann og ala hann áfram.

„Tilraunin snýst um það hve mikið við ætlum að fita fiskinn og hvaða fóður við notum til þess. Við ráðgerum að nota einhverja „hliðarstrauma“ frá vinnslum og veiðum á svæðinu. Tilraunin verður í samstarfi við Matís og reynt verður að finna út hvaða fóður hentar best,“ segir Lára Hrönn.

  • Lára Hrönn Pétursdóttir. MYND/Aðsend

Hún og Siggeir bróðir hennar vinna þetta verkefni meðfram sjómennsku en þau gera út sitt hvorn bátinn til strandveiða á þessu ári, Sæfara SH og Sækúna SH.  Lára Hrönn er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og með skipstjórnarmenntun að auki.

Hún segir að tilraunin snúist einnig um að rannsaka áframeldi á steinbít í dúkakeri sem er þekkt aðferð í landeldi víða í Asíu. Stykkishólmsbær hefur staðfest viljayfirlýsingu ásamt Hólminum ehf., fyrirtæki systkinanna, um frumgreiningu á strandeldi á steinbíti. Henni samkvæmt útvegar Stykkishólmsbær Hólminum ehf. landsvæði án endurgjalds til tímabundinna afnota til uppsetningar á eldiskerum og búnaði vegna tilraunarinnar. Að verkefninu loknu verður gefin út skýrsla í samvinnu við Matís þar sem fýsileiki steinbíteldis er metið út frá ýmsum forsendum.

„Hafrannsóknastofnun hefur prófað áframeldi á steinbít og hlýraeldi þekkist í Noregi og var reynt á Íslandi fyrir rúmlega 20 árum. Hlýri hefur þótt álitlegri í fulleldi alveg frá seiðum og upp í fullorðna fiska. Vaxtahraði steinbíts er hægari. En við vitum ekki til þess að áframeldi á steinbít hafi verið prófað með þessum hætti hér á landi.“

Spurningum ósvarað

Hún segir að ýmsum spurningum varðandi eldið sé ósvarað og þess vegna skipti miklu máli að samstarf hafi tekist með Matís. Um tilraunaverkefni sé að ræða en það vindi vonandi upp á sig.

„Það er markaður fyrir afurðirnar en áframeldið yrði þó aldrei í miklum mæli. En það gæti gefið íslenskum sölufyrirtækjum tækifæri til þess að geta boðið fram visst afhendingaröryggi á steinbít á erlendum mörkuðum þegar hann er hvað verðmestur. Það gæti jafnvel opnað fyrir útflutning á ferskum steinbít með flugi inn á vel borgandi markaði,“ segir Lára Hrönn.

Ein af þeim spurningum sem reynt verður að svara er hvort neytendur verði jafn sáttir við steinbít úr eldi og villtan fisk. Einnig þurfi að leggja mat á hvort áframeldið sé yfirleitt fýsilegt fjárhagslega. Steinbítur er mjög magur yfir sumartímann og mikið af honum. Það ætti því að vera auðvelt að veiða hann en betri grundvöllur verður lagður að málinu með tilraunaverkefninu sjálfu.

Framundan er að afla tilskilinna leyfa og vonast er til að fyrsti fiskur fari í ker sumarið 2023.