Háafell á Ísafirði er byrjað að slátra regnbogasilungi úr sjókvíaeldi við Bæjarhlíð í Ísafjarðardjúpi. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri segir að þar séu tvær kvíar með um 500 tonn af eldisfiski sem settur var úr í fyrravor og er kominn í sláturstærð. Hann segir að slátrað verði fram undir jól úr kvíunum. En þá fer eldissvæðið Bæjahlíð í hvíld í rúmt ár. Þar verður næst settur út fiskur vorið 2024. Sagt er frá þessu á vefmiðlinum www.bb.is.

Háafelli ehf. er dótturfélag Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. í Hnífsdal. Á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi er rekin landeldisstöð sem framleiðir seiði en miðstöð þjónustu við fiskeldið er í Súðavík.

Um áramótin gekk Háafell ehf. frá samningum við KJ Hydraulic í Færeyjum um smíði á nýjum þjónustubáti fyrir sjókvíaeldi félagsins. Um er að ræða tvíbytnu sem er 15x8 metrar með 50 tm krana og tveimur 410 hp vélum auk 115 kw ljósavélar. Nýja tvíbytnan mun geta sinnt allri helstu þjónustu við eldið og verður með góða aðstöðu fyrir áhöfn. Áætlað er að afhending verði í haust en skrokkurinn er smíðaður í Póllandi en innréttingar, vélbúnaður og rafmagn klárað í Færeyjum. Báturinn mun sinna nýju eldissvæði Háafells í Skötufirði og heimahöfn verður í Súðavík.

„Fiskurinn er vel vænn um 3 kg meðalþyngd. Stofninn kemur frá Danmörku og verður fiskurinn um 2,5 – 3 kg að þyngd og er því mun minni en laxinn sem er 5 – 6 kg“. Gauti segir að slátrað sé í húsnæði Frosta í Súðavík og fiskurinn fluttur frystur eða ferskur með skipi á markað í Evrópu.

Háafell hefur 6.800 tonna leyfi í Ísafjarðardjúpi til sjókvíaeldis og er það valkvætt fyrir lax eða regnbogasilung. Vegna skilyrða Hafrannsóknarstofnunar má ekki vera með frjóan lax í eldi fyrir innan Æðey og þess vegna er regnbogasilungur í eldinu við Bæjarhlíð. Hins vegar er Háafell með lax í eldiskvíum í Vigurál og fyrirhugað er að setja næsta vor eldislax í nokkrar kvíar í Kofradýpi undan Álftafirði.